Þegar hatrið slær menn í hausinn
8.10.2025 | 08:19
Og hverju á svo þessi skýrsla að skila?
Auðvitað á að liggja fyrir hverju sinni hvað hver á og það gerir það að sjálfsögðu. Enginn getur átt eitt né nett nema það sé talið fram til skatts og greiddur af því þau gjöld sem lögbundin eru. Þessar upplýsingar liggja auðvitað fyrir, hjá öllum þegnum þessa lands, hvort sem þeir eru útgerðarmenn, þingmenn eða þeir er sjá um að þrífa gólfin undir þeim. Enginn kemst undan þessu.
Varðandi þessa skýrslubeiðni Dags þá virðist sem hann hafi meiri áhuga á eignum útgerðamanna í óskildum rekstri, en því hvort eignarhald þeirra standist reglur um hámarkseign kvóta. Vill semsagt meina það að hver sá sem ákveður að fara í útgerð megi þá ekki koma nálægt neinum öðrum rekstri. Þetta er auðvitað fáheyrt.
Í því sveitarfélagi sem ég bý var eitt sinn blómleg útgerð. Eitt útgerðafélagið stóð þó ofar öðrum hvað stærð og burði varðar. Þetta var löngu fyrir kvótasetningu. Þetta vel rekna fyrirtæki var með allskyns rekstur meðfram og utanvið útgerðina, meðal annars byggði það bíóhús fyrir bæjarfélagið. Auðvitað voru sumir sem horfðu öfundaraugum til eigenda þessa fyrirtækis, en flestir bæjarbúar voru þó ánægðir með það. Útgerðarfyrirtækið skaffaði góða vinnu fyrir stóran hluta bæjarbúa og tekjur til sveitarfélagsins. Í þá daga vissi flest fólk að verðmætasköpun er forsenda hagsældar. Í dag halda sumir, einkum sumir vinstriþingmenn, að verðmætasköpun sé af hinu illa.
Það var svo þegar vinstriflokkar komu á kvótasetningu sem málin fóru að halla, enda miðstýring alltaf af hinu illa. Þá fór að halla undan vítt og breytt um landið og það augljósa skeði, samþjöppun veiðiheimilda. Nú eru einungis örfáir smábátar gerðir út frá mínu sveitarfélagi og allur fiskur keyrður burtu.
Öfund leiðir gjarnan af sér hatur og þegar hatrið fer yfir ákveðin mörk, á það til að slá til baka. Enginn efi er að vinstri pólitíkin hefur gjarnan hatast út í þá sem gengur vel í rekstri fyrirtækja og efnast af þeim sökum. Þeirra mottó er að allir eigi að vera jafnir, hafa það jafn skítt.
Þetta sannaðist með ákvörðun um kvótasetninguna, sem fyrst og fremst var sett á fyrir tilstuðlan forrennara Samfylkingar, Alþýðuflokks. Fékk þar Framsókn með í púkkið. Allir vita hvert framhaldið varð. Og nú er hoggið í sama knérunn með ofursköttun á sjávarútveg. Það mun leiða til enn frekari samþjöppunar af þeirri einföldu ástæðu að smærri útgerðarfyrirtæki, af þeirri stærð er gerði mitt sveitarfélag að einum öflugasta útgerðabæ landsins á sínum tíma, hafa ekki burði til að greiða þann skatt, meðan stórútgerðin ræður við það. Auðvitað mun það leiða til enn frekari samþjöppunar.
Það er svo sem ekkert að því að skoða eignarhald útgerðarmanna á fyrirtækjum í ótengdum rekstri. En hvað svo? Hvað á að gera við þær upplýsingar? Er kannski meining Dags að banna þeim að eiga hluti í ótengdum fyrirtækjum?
Enn og aftur að verðmætasköpuninni. Ef útgerðarmaður leggur sitt fé í fyrirtæki ótengt útgerðinni sjálfri, er hann að skapa verðmæti. Hann er líka að skapa atvinnu. Allt skilar þetta sér í auknum tekjum til ríkis og sveitarfélaga. Þessi verðmæti eru ekki sjálfgefin og alls ekki víst að þau yrðu til með öðrum hætti.
Því spyr ég, er ætlunin að fara að stjórna því hverjir megi eiga og hverjir ekki? Að ef menn eru í útgerð megi þeir ekki eiga neitt annað meðan menn sem stunda viðskipti með aurinn okkar geta lagt undir sig nánast hvað sem er? Viðskipti sem engri verðmætasköpun skilar, belgir bara veski þess er þau stunda.
Það er kannski rétt að vara Jón Ásgeir við. Hann safnar nú fyrirtækjum á báða bóga, nú síðast banka. Passaðu þig Jón, keyptu þér aldrei hlut í útgerðarfyrirtæki, þá mun Dagur koma og skamma þig!
![]() |
Kortleggja eignarhald 20 sjávarútvegsfyrirtækja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning