ExGraze verkefnið
17.9.2025 | 08:35
Enn er umhverfis- og orkumálaráðherra út í móa, veit ekki hvað hann segir eða meinar.
Nú vill hann auka það sem kallast "endurheimt votlendis", í þágu loftlagstrúarinnar. Vandinn fyrir ráðherrann er þó sá að þessi aðferðarfræði er ekki viðurkennd á alþjóðavelli í þeim trúarbrögðum. Er aðferðarfræði sem áhöld eru á um hvort raunverulega virka til þess sem ætlað er auk þess að grunnurinn undir þessa aðferðarfræði hér á landi er kolrangur.
Ef ráðherrann vill leggja til leið svo koma megi í veg fyrir að héðan fari óheyrilegir fjármunir úr landi, til einhverra sem enginn veit hverjir eru eða til hvers þeir peningar nýtast, ætti hann að skoða raunverulegt verkefni, verkefni byggt á rannsóknum og rökum. Eitthvað sem lagar okkar kol ranga kolefnisbókhald svo um munar.
ExGraze verkefnið er eitt slíkt. Þar er ávinningurinn margfaldur. Fyrst ber auðvitað að nefna ranga bókhaldið okkar. Þar er stór hluti vera sagður frá landnýtingu, þó ekki hafi neinar rannsóknir sýnt fram á hvað þar liggi að baki. Einungis settar fram tölur um losunina, án allra tölulegra staðreynda. Þetta hefur lengi verið vitað og reyndar náðst að leiðrétta augljósustu vankanta þessa rugls, þó aldrei að fullu.
Rannsóknir sem stundaðar hafa verið undanfarið og kallast ExGraze verkefnið, sýna hins vegar að um algjöra andstæðu er að ræða, að í stað losun frá landnotkun er um verulega bindingu að ræða, svo mikla að landnotkun er að binda verulega umfram losun, einkum á beitarsvæðum sauðfjár. Þessar niðurstöður, þó einungis væru nýttar til leiðréttingar á kolefnisbókhaldi Íslands, gætu komið í veg fyrir að við þurfum að kaupa okkur aflátsbréf loflagskirkjunnar. Værum aflögufær um slík bréf.
Ef vilji er til enn frekari ávinnings, mætti svo fjölga sauðfé í landinu, til aukinnar sölu aflátsbréfa. Arðurinn af þeirri sölu gæti orðið það mikill að henda mætti því kjöti sem fólk ekki vill leggja sér til munns.
Þarna er sóknartækifærið Jóhann, ekki í því að búa til fúafen þar sem ekki sprettur neitt nema einstaka mýrarstör!
Svo er hægt að velta fyrir sér þessum ofstopa gegn lífsandanum, því efni í andrúmslofti sem er plöntum svo nauðsynlegt og þar með öllu lífi á jörðinni. Einungis heittrúaðir einfeldningar velta hins vegar fyrir sér þeirri hugsun að maðurinn geti breytt veðurlaginu. Nú um stund er að hlýna, þó það skeið hafi reyndar staðið ákaflega stutt, í jarðfræðilegu tilliti. Svo mun aftur kólna. Hversu mikið á eftir að hlýna áður en kólnar aftur, skal ósagt látið, en hringrásin er og hefur alltaf verið á sömu lund. Langar ísaldir með tiltölulega stuttum hlýskeiðum á milli, oftast mun hlýrri en við höfum enn fengið að njóta og munum kannski aldrei fá.
Það undarlegast er þó að þeir sem horfa til sögu jarðar og dæma út frá henni, eru uppnefndir "afneitarar", en hinir sem afneita sögunni, kallast "upplýstir"! Jú, jú, svart getur víst verið hvítt, ef trúin nógu er sterk.
Og í nafni trúarinnar vill Jóhann ekki hlusta á rökin. Í nafni trúarinnar mun þetta ágæta rannsóknarverkefni, ExGraze, verða jarðað. Málið snýst nefnilega ekki um staðreyndir, heldur trú, trú á að maðurinn sé svo fullkominn að hann geti stjórnað náttúrinni!
![]() |
Endurheimt votlendis hagkvæmust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Trúmál, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 08:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning