Villta vestrið

Þau eru orðin fjölmörg fyrirtækin sem bjóða fram krafta sína til innheimtu fé af borgurunum, í formi bílastæðagjalda. Flest virðast föðurlaus með öllu, ef marka má heimasíður þeirra. Einungis tvö þeirra sem gefa upp eiganda og bæði í eigu Öryggismiðstöðvarinnar, Green Parking og fyrirtæki sem ber það öfugmælanafn Sannir Vættir. 

Engar reglur eru um gjaldtöku af bílastæðum, hvort heldur hversu hátt má rukka né með hvaða hætti innheimtan fer fram. Því hafa, eins og áður segir, fjölmargir séð góðan hagnað af því að rukka inn þessi gjöld. Auðvitað taka þessi fyrirtæki hluta gjaldsins til sín, þannig að þúsundkallinn rýrnar verulega áður en hann kemur til eiganda stæðisins. Þar á ofan komast þessi fyrirtæki upp með ótrúlega viðskiptahætti, sem jafnvel mafíuforingjar myndu ekki þora að nota, að fella gjaldið nánast samstundis og leggja vænt kröfugjald á. Jafnvel fimmfalda upphaflegu upphæðina, nánast strax og til hennar var stofnað. Þetta er svívirða sem stjórnvöld verða að stöðva hið snarasta. Kröfugjaldið færist auðvitað beint í vasa rukkarans og virðist sem mörgum þessara fyrirtækja sé stýrt erlendis frá, jafnvel frá aflandseyjum. 

Ráðherrar eru hissa, lýsa áhyggjum yfir ástandinu en gera akkúrat ekki neitt! Skömmin er þeirra.

Fyrir nokkrum árum var nefnt að leggja hóflegt gjald á alla ferðamenn sem kæmu til landsins, setja það í sjóð sem úthlutaði síðan til þarfra verkefna. Málið komst aldrei lengra en það, ekki hægt að ræða hversu hátt það gjald þyrfti að vera né hverjir myndu stýra þeim sjóð. Hvort hann yrði á herðum ríkisins eða ferðaþjónustunnar sjálfrar. Ástæða þess að málið fékk ekki framgang var auðvitað ferðaþjónustuaðilar og samtök þeirra. Töldu slíkt gjald geta leitt til fækkunar ferðafólks til landsins. Vildu frekar að hver og einn gæti rukkað á sínu svæði. 

Ferðafólk sem hingað kemur vill auðvitað skoða sem flestar af okkar perlum, til þess er ferðin hingað ætluð. Nú er svo komið, sökum einskærar græðgi ferðaþjónustunnar, að fáir staðir eru eftir þar sem hægt er að skoða landið okkar án þess að greiða gjald fyrir að leggja bílnum. Því ekki óalgengt að kostnaður við eina ferð í kringum landið hlaupi á tugum þúsunda í þann eina gjaldalið, ef greitt er strax. Hundruðum þúsunda ef fólk lendir í vél rukkunarfyrirtækjanna. Hefði ekki verið betra að fara hina leiðina, að leggja hóflegt gjald við komu til landsins? Fólk væri þá meðvitað um kostnaðinn og ætti ekki á hættu að eitthvað andlitslaust rukkunarfyrirtæki færi að elta það. 

Rukkunarfyrirtækin virðast spila á lélegar eða engar merkingar. Og jafnvel þó merkingar séu í lagi, þá tekur ótrúlegan tíma að koma greiðslu í gegn. Það mátti undirritaður reyna í sumar. Þannig ná þau að leggja á það sem þau kalla vanrækslugjald, en er ekkert annað en okurstarfsemi af allra verstu sort. Eðlileg viðskipti eru að eftir að stofnað er til skuldar líði ákveðinn dagafjöldi áður en vanrækslugjald leggst á og þá hóflegt í fyrstu rukkun. Ekki margföldun skuldarinnar. Að fólk hafi tíma til að greiða skuldina.  

En það er ekki bara á ferðamannastöðum sem þessi glæpafyrirtæki vinna. Reykjavíkurborg og önnur stærri sveitarfélög, ásamt einkafyrirtækjum og ríkisstofnunum hafa ráðið þau til sinnar þjónustu. Þar er ástandið jafnvel enn verra. Sumum bílastæðum skipt milli glæpafyrirtækjanna svo vonlaust er að vita hverjum skal skila skattinum, öryrkjar lenda sífellt í rukkunum og svona má lengi telja. Sömu glæpafyrirtækin, sama verklagið. 

Ráðherrar þurfa að girða sig í brók. Vissulega ekki vandi sem núverandi ríkisstjórn skóp en klárlega hennar að leysa. Rafræna rukkun á þegar í stað að banna og viðskiptahættir þessara okurfyrirtækja þurfa að vera stöðvaðir. Taka upp dönsku leiðina. Þetta er hægt með bráðabirgðalögum og nokkuð víst að fullur meirihluti þingmanna er til staðar. Best væri auðvitað að banna með öllu gjaldtöku einstaklinga og taka upp gjald við komu til landsins. Til vara að banna starfsemi glæpafyrirtækjanna og gera einfaldlega skylt að rukka á staðnum. 

Óbreitt ástand er ekki í boði, svona villta vesturs ástand mun skaða ferðaþjónustuna svo um munar, jafnvel fella hana. Þarf sannarlega að hafa vit fyrir aurapúkunum í ferðaþjónustunni, sem hugsa um það eitt að græða sem mest. Er fyrirmunað að hugsa til framtíðar.

 


mbl.is Rukkuð um hátt í sex þúsund við Kirkjufell
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Gunnar, -þörf ádrepa.

En það má að hluta skrifa þetta okkur sjálf, -að því leiti að við samþykkjum að hver sem er getir rukkað eftir mynd, -svo einkennilegt sem það nú er.

Sennilega þægindanna vegna eða að við höldum að við njótum þess í verði að innheimtan sé framkvæmd með sem minnstum kostnaði, -og það kostnaður sem var ekki til fyrir skemmstu á eignum almennings.

Nú er búið að snúa öllu á hvolf, það ætti í raun að vera skilda að hafa einhvern til staðar til að tak við greiðslu allstaðar þar sem hennar er krafist, ekki bara í búðum.

Snjalltækni við greiðslumiðlun ætti þar að auki að vera valkvæð, -fyrir þá sem ekki vilja feisa afgreiðslumann eða losna við að standa í biðröð.

Þá myndu þessar app mafíur í það minnsta drullast til að hafa mann á staðnum þó ekki væri nema til að gera fólki grein fyrir því hvernig á að borga. En auðvitað verða ekki sett nein vitræn lög í þá veru af ógæfufólkinu við Austurvöll.

Það sorglega er að það eru mest Íslendingar sem lenda í þessari app mafíustarfsemi, flestir erlendir ferðamenn eru fyrir löngu búnir að sjá við íslensku app mafíunum.

Magnús Sigurðsson, 12.8.2025 kl. 18:36

2 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Góður pistill og sorglegt hvernig ástandið er orðið hér á Íslandi í boði óvita á þingi og stjórn. 

Af alþingi er það helst að frétta að dömubindi eru víst einnota.

Sama mætti eiga við stjórn og alþingi. 

Sigurður Kristján Hjaltested, 12.8.2025 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og tveimur?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband