Eitt og annað eftir þinglok

Ég hef nú fylgst að alvöru með störfum Alþingis í nærri hálfa öld. Aldrei man ég þvílík þingslit sem nú og hefur þó í gegnum tíðina oft verið lágt lagst. Að forseti Alþingis þurfi margsinnis að ávíta ráðherra er algjör nýlunda, sem ekki eykur veg Alþingis og ekki er hægt að segja að virðing hafi verið mikil fyrir. 

Ríkisstjórnin beit í eitt mál og hélt í það eins og hundur á roði. Munurinn einungis að hundurinn étur roðið strax er hann hefur náð því, en þetta málefni ríkisstjórnarinnar tekur ekki gildi fyrr en eftir tvö ár. Með þessu ætlar svo ríkisstjórnin að kenna málþófi stjórnarandstöðunnar um að önnur þörf málefni komust ekki í afgreiðslu. Það er meirihlutinn sem hefur dagskrárvaldið, það er meirihlutinn sem gat að skaðlausu frestað þessu hundsbiti ríkisstjórnarinnar, svo önnur mál kæmust á dagskrá. 

Ísland býr við þrískiptingu valds, löggjafavald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hin nýja ríkisstjórn Kristrúnar virðist ekki skilja þessa skiptingu, setur samasemmerki milli löggjafavalds og framkvæmdarvalds. Ráðherrar hafa fullyrt í fjölmiðlum að mál sem framkvæmdarvaldið (stjórnvöld) leggur fram á Alþingi skulu ná fram að ganga. Er ekki kominn tími til að skilja þetta betur að? Að þegar þingmaður verður ráðherra skuli hann stíga niður sem þingmaður og varamaður settur í hans stað, að ráðherrar, framkvæmdavaldið, hafi ekki atkvæðarétt á Alþingi.

Þó ég sé nú kominn nokkuð til ára minna, þarf ég að leita í sögubækur til að finna notkun 71. greinar þinglaga. Ekki lengur. Nú eru fávísir þingmenn meirihlutans farnir að tala um að auka eigi notkun þessa ákvæðis, að bryðja það sem sælgæti! Þessi grein er hættuleg í alla staði, enda kölluð kjarnorkuákvæðið, eða kjarnorkutakkinn. Strax við umræður um fiskveiðifrumvarp atvinnumálaráðherra impraði sérlegur ráðgjafi fréttastofu ruv á þessum möguleika og ítrekaði hann sífellt eftir það, allt þar til ákvæðið var notað, í fyrsta sinn í 66 ár. 

Nú er þessi sérlegi ráðgjafi farinn að velta því upp hvort Flokkur fólksins muni sitja undir því að eina málið sem sá flokkur kom inn í stjórnarsáttmála, hafi ekki náð fram að ganga, vegna hundsbitsins í fiskveiðifrumvarpið. Hvort Flokkur fólksins sætti sig við að málaflokkurinn hafi verið færður yfir á einn ráðherra flokksins, til að fullkomna skömmina. Er semsagt farinn að ýja að stjórnarslitum. Samfylking fer nú með himinskautum í skoðanakönnunum, þó Viðreisn standi heldur verr. Von ráðgjafans er kannski að nýjar kosningar muni geta leitt af sér hreinan kratameirihluta. Hitt gæti líka verið að hann telji nægjanlegt fylgi meðal krata Sjálfstæðisflokks, sem eru jú ansi margir og þess eina krata Framsóknar, geti kannski myndað nýjan meirihluta án Flokks fólksins. Hver veit? Það væri draumastaða ráðgjafans. 

Svo er það blessaða fiskveiðifrumvarpið, þetta sem mun stór auka skatt á útgerðir landsins. Hvers vegna hékk atvinnumálaráðherrann og hennar flokkur svo á því frumvarpi? Vissulega hjálpaði það til að útiloka afgreiðslu annarra þarfari frumvarpa, eins og strandveiðifrumvarpið. Það var aldrei ætlun Viðreisnar að hleypa því í gegn, aldrei. Fjármálaráðherra, sem reyndar er ekki kosinn af þjóðinni heldur situr í skjóli Viðreisnar, hefur ákveðnar skoðanir á hvernig nýta skuli fiskinn hér við land. Þar á hagkvæmnin ein að ráða. Og þar liggur fiskurinn undir steininum, fáar en öflugar útgerðir. 

Hugmyndafræðingur Samfylkingar, fyrrum ritstjóri og fallisti í kosningum fyrir kosningar, hélt að hann væri að samþykkja frumvarp sem myndi leggja stórútgerðina, hans draumamálefni. Hann er nú ekki betur gerður en það. Samfylkingin elti þá klisju og dró Flokk fólksins með sér. Viðreisn tókst að plata samstarfsflokkana. Hressilega.

Ætlun Viðreisnar var aldrei að ráðast á stórútgerðina, heldur efla hana. Það er eina útgerðin sem mun lifa af. Aðrar minni munu leggja upp laupana. Eftir mun standa draumur fjármálaráðherra og reyndar einnig draumur Þorgerðar Katrínar, fáar stórar og öflugar útgerðir. Það muna jú flestir hvernig Viðreisn varð til. Sem flís úr Sjálfstæðisflokki vegna eins málefnis, aðild að esb.   

Og nú ætlar Þorgerður að koma okkur undir esb með góðu eða illu. Er búin að vera meirihluta síns starfstíma sem utanríkisráðherra í heimsóknum í stofnanir sambandsins, sem svo endaði með heimsókn forseta framkvæmdarstórnar esb til landsins. Það þarf einstaka barnahugsun til að átta sig ekki á þessu. Talað er um að kjósa eigi um framhald aðlögunar að esb. Reyndar sagt að um samning sé að ræða. Þorgerður Katrín er enginn hálfviti, hún veit nákvæmlega hvernig þetta virkar, hún veit nákvæmlega að ekki er um samningsdrög að ræða, heldur aðlögun að regluverki esb. Hún veit líka nákvæmlega hvernig að þessu skuli staðið, þannig að ekki verði aftur snúið. 

Fyrri viðræður um aðlögun að esb strönduðu um haustið 2012, formleg stöðvun janúar 2013. Þáverandi ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar neitaði að hefja aðlögun þeirra tveggja kafla. Á því strandaði. Ef halda á áfram aðlögun, frá því sem frá var horfið, eins og Þorgerður Katrín segist ætla að gera, munu það verða þessir tveir kaflar sem fyrstir verða aðlagaðir að regluverki esb. Þar með er fullnaðarsigri náð. Hvað verður þá um að kjósa? Ekkert, akkúrat ekkert. Skaðinn verður skeður.

Nýleg heimsókn forseta framkvæmdastjórnar esb kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Tilgangurinn óljós þó ýmis málefni væru nefnd. Þar bar auðvitað hæst varnarsamstarf við esb. Herveldið esb er því miður ekki til, ekki enn. Um hvað var þá verið að ræða? Á að leysa upp NATO? Hver er vandinn? Við erum stofnaðilar að NATO, eins og flestar þjóðir vestanverðar Evrópu og Bandaríkin. Þar höfum við verndina. Nema auðvitað, að esb ætli að leysa upp það samstarf. Sé svo þurfum við vissulega vernd, þó langdregið sé að sækja hana til hernaðarlega vanmáttugra ríkja. Nær að horfa þá til þeirra er eru okkur nær og öflugri. Það nennir enginn að taka með sér ofurfeitan og latan hund í smalamennsku.  

Þessi ríkisstjórn sem nú situr er þjóðinni hættuleg, stór hættuleg. Lýðveldið er í hættu, varnir okkar eru í hættu og stjórnarherrar okkar ekki starfi sínu valdandi. Enginn vilji til að sameina þjóðina, frekar unnið að sundrungu hennar. Frekja og hroki stjórnarherra er yfirgengileg, svo ekki sé meira sagt. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og ellefu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband