Aðlögun Kristrún, ekki aðildarviðræður heldur aðlögunarviðræður
8.7.2025 | 01:52
Illu heilli samþykkti Alþingi, með minnsta mögulega meirihluta, EES samninginn. Þar með var frelsi þjóðarinnar skert. En skoðum aðeins söguna.
Það var árið 1985 sem fyrst var rætt um frekari samvinnu EFTA ríkjanna við Efnahagsbandalag Evrópu, (EB). Fjórum árum síðar hófust viðræður og aðeins tveim árum síðar, 1991 lágu samningsdrög fyrir. Eitt EFTA ríkjanna gaf þjóð sinn vald til að ákveða hvort samningurinn skildi samþykktur, Sviss og var hann kolfelldur af kjósendum. Hin þrjú ríkin, Ísland, Noregur og Lictenstein fóru þá leið að halda þjóðinni frá ákvörðuninni, létu þjóðþingin samþykkja samninginn. EES samningurinn var samþykktur af Alþingi 12. janúar 1993 og tók síðan formlega gildi þann 1. janúar 1994.
Meðan á viðræðum stóð var enn í gildi meðal ríkja Evrópu, Rómarsáttmálinn, þ.e. sáttmáli um samstarf á efnahagslegum grunni, Kallaðist Evrópu bandalagið, (EB), eða European Economc Community (EEC), var bandalag þjóða innan Evrópu um samvinnu á efnahagssviði.
Þann 1. nóvember 1993, tæpum 10 mánuðum eftir að Alþingi samþykkti EES samninginn, sem umtalsverð breyting verður á samstarfi EB þjóða. Þá tekur gildi Maasticht samkomulagið og eðlið breyttist frá því að vera um efnahagsmál yfir í frekari samvinnu á stjórnmálasviðinu. Upphafið að því að sameina Evrópu undir einn hatt, til samræmis við Bandaríkin. Enn frekar var síðan gengið við gildistöku Lissabonsáttmálann, þann 1. desember 2009. Þar með lauk í raun þeirri vegferð sem hófst 1957, að klára það sem Hitler mistókst.
Alþingi samþykkti því samning milli Íslands og EB, ekki ESB. Strax þegar eðlisbreytingin verður á samstarfi Evrópuríkja, átti Alþingi að kalla eftir endurskoðun samningsins til að tryggja stjórnmálalegt vald okkar. Því miður hafði enginn kjark til þess.
Það er engum blöðum um það að fletta að ESB samningurinn hefur gert landi okkar gott í sumum málum og hefði sjálfsagt verið ágætur ef ekki hefði orðið þessi eðlisbreyting á mótherja okkar þar. En hið slæma sem hann hefur leitt yfir þjóðina verður ekki horft framhjá.
Fjórfrelsið, sem er megin hugtak EES samningsins, fjallar um frelsi til flutnings fólks, vör, fjármagns og þjónustu innan ESB og EES ríkja. Þetta frelsi hefur leitt yfir okkur margar hörmungar, en sjaldan sem nú síðustu árin. Ekkert er minnst á samvinnu á pólitíska sviðinu, sem þó virðist vera orðið helsta verkefni íslenskra stjórnvalda. Síðustu ár hafa utanríkisráðherrar okkar varið löngum stundum í Brussel og komið rígspenntir heim, rétt eins og þeir hafi hreinlega bjargað heiminum.
Frelsi til flutnings fólks. Margir líta þennan þátt sem einna stærsta kost EES samningsins. En hverju hefur hann leitt af sér? Jú, vissulega er þægilegt að geta ferðast til annarra landa án þess að sýna vegabréf. Frelsið hefur þó leitt til þess að sífellt fleiri lönd krefjast vegabréfs við komu og allir þurfa að gera grein fyrir sér áður en haldið er í flug. En þetta gerir líka fólki sem ekki býr innan EES/ESB auðveldara fyrir. Eftir að það kemst inn fyrir ytri landamærin, er í raun engin fyrrstaða, fyrr en nú í flugi hingað. En þetta frelsi hefur einnig leitt til að atvinnusvæðið verður stærra. Við getum farið í vinnu erlendis og erlendir ríkisborgarar geta fengið vinnu hér. Var reyndar aldrei nein fyrirstaða fyrir Íslendinga að fá vinnu innan Evrópu, né annarsstaðar ef því var að skipta. Fólksflutningar Íslendinga á árunum kringum 1970 sýna það, vandræðalaust að fá vinnu hvar sem okkur datt til hugar. Hin hliðin er skuggalegri, innflutningur á ódýru vinnuafli hingað til lands. Sumir atvinnurekendur flytja hingað fólk gegnum starfsmannaleigur, fólk sem þarf að búa við mun verri kjör en aðrir. Þetta er ljótur leikur, í nafni EES samningsins.
Frelsi til flutnings á vörum. Um þetta væri hægt að skrifa langan pistil en læt duga að nefna örfá atriði. Fyrir það fyrsta er ekkert frelsi á flutningi á vörum milli EES og ESB. Allt er skammtað, jafnvel verslun með fisk er takmörkuð. Þar gildir fyrst og fremst eitt; ef ég klóra þér á bakinu verður þú líka að klóra mér. Enn höfum við þó frelsi til að versla við þjóðir utan ESB, þó með höftum. Varnarveggur ESB nær ekki bara til tollvarna, heldur eru ýmsar reglur settar til varnar innflutningi inn á ESB svæðið. Þekktast er sennilega CE merkingin, reglugerð sem tryggir að engar vörur má flytja inn á svæðið nema hafa fengið þá vottun. Jafnvel vörur sem eru mun betri og tryggari fá ekki slíka vottun nema gegnum kommissara ESB. Það getur reynst þrautin þyngri. Um þetta er ekki fjallað í EES samningnum, kemur síðar, er hluti þess sem kalla mætti pólitískt samstarf, enda einungis til þess gert að verja evrópskan iðnað. Undir þetta höfum við gengist.
Frelsi á flutningi fjármagns. Eitt af aðalsmerkjum ESB er frjálst flæði fjármagns og átti evran að sjá til þess. EB, sem EES samningurinn var gerður við, hafði ekki þetta frelsi, enda hvert ríki með sinn eigin gjaldmiðil og eigi efnahagskerfi, sem oftar en ekki voru mjög ólík. Fyrir okkur hér á klakanum leiddi þetta frelsi til þess að landið var nánast sett á hausinn, er fjárglæframenn náðu tangarhaldi á bankakerfinu okkar. Ef ekki hefði komið til að við vorum enn utan ESB og gátum sett hérna bráðábyrgðarlög, væri Ísland orðin hjáleiga Bretlands og Hollands. Svo einfalt er það. Þetta frelsi getur aldrei gengið upp í svo fámennu landi sem Ísland er. Mun alltaf skaða okkur meira en hjálpa. Sumir vilja tengja þetta atriði við upptöku evru og telja að þannig sé hægt að lækka hér vexti. Upptaka evru verður aðeins hægt með inngöngu í ESB og allt tal um ágæti þess er hrein tálsýn. Hagkerfið mun alltaf ráða afkomu okkar, hver sem gjaldmiðillinn er.
Að lokum er það frelsi á þjónustu. Lengi framanaf var þetta atriði EES samningsins lítt notað, eða þar til gerð var athugasemd um það. Síðan hefur sigið verulega á ógæfuhlið landsins okkar. Sem dæmi þarf að bjóða allar stærri framkvæmdir út á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. innan allra EES/ESB ríkja, með ölllum þeim tilkostnaði sem því fylgir. Mörg verkefni, jafnvel verkefni sem ætluð eru til að styrkja innlendan hag, fara því úr landi. Verkefni sem verður að vinna hér, eru gjarnan unnin af erlendum verktökum, með erlent vinnuafl á erlendum lálaunum. Vissulega má segja að verkefnið sjálft verði með þessu hagkvæmara, en þjóðinni blæðir.
Fjórfrelsið er innan EES samningsins. Því til viðbótar koma síðan hinar og þessar pólitísku reglur sem gera öllu atvinnulífi erfiðara fyrir, jafnvel svo að fyrirtæki hætta. Samkeppnisstaðan veikist. Og ekki má gleyma orkupökkunum. Eitthvað sem svo auðvelt var fyrir okkur að hafna strax í upphafi en hafa nú flækt okkur í net orkustefnu ESB, undir stjórn ACER. Á þessum grunni hefur nú verið settur upp svokallaður orkumarkaður hér á landi, þar sem innanvið 400.000 manns búa, í hlutfallslega stóru landi. Markaður þar sem menn geta hagnast af því einu að kaupa og selja orku. Þurfa ekki einu sinni skrifstofu, nóg að vera með snjallsíma. Þetta er algjörlega galið!
Við Íslendingar búum að einum mestu verðmætum sem ein þjóð getur hugsað sér. Hreint loft, hreint vatn, ómenguð matvæli, bæði af landi og úr sjó og nánast endalausa hræódýra orku. Og við erum búin að fara í gegnum þau orkuskipti sem aðrar þjóðir eru að berjast við í dag. Ef ekki væri fyrir EES samninginn, eða öllu heldur ranga framkvæmd hans, værum við ríkasta þjóð í heimi. Hefðum yfirburði á flestum sviðum er snýr að rekstri einnar þjóðar.
Þessu var fórnað með EES samningnum og vilja sumir stíga síðasta skrefið í forina og aðlagast að ESB. Það er ekki um neinn samning að ræða varðandi inngöngu í ESB, einungis aðlögun, hversu lengi hún á að standa. Engar varanlegar undanþágur.
![]() |
Fjárheimild veitt í þjóðaratkvæðagreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning