Bókun 35, hvers vegna nú?

Enn er bókun 35 komin til Alþingis og enn er okkur sagt að mikið liggi við, jafnvel sjálfur EES samningurinn. 

Það eru nú liðin 33 ár frá samþykkt Alþingis á EES samningnum, með minnsta mögulega meirihluta þingmanna og án aðkomu þjóðarinnar. Vitandi vits var bókun 35 haldið utan samningsins, enda ljóst að sú bókun væri hreint brot á stjórnarskrá okkar. Um það voru allir löglærðir menn sammála, þó deilt hafi verið um hversu mikið samningurinn að öðru leyti gengi gegn stjórnarskránni. 

EB nú ESB, samþykkti þessa afgreiðslu og lengi framanaf var ekki gerð athugasemd við hana. Jafnvel í tíð Jóhönnustjórnar, þegar Össur dvaldi löngum stundum í höfuðstöðvum sambandsins, við þá iðju að koma landinu undir yfirráð ESB, heyrðist ekki orð um þessa bókun, a.m.k. ekki opinberlega. 

Það er því undarleg árátta krata og sjálfstæðiskrata, áherslan á þetta mál. Jafnvel haldið fram að 33 ára hamall samningur sé í uppnámi. Gott og vel, er ekki bara kominn tími til að taka upp þann gamla samning, gera á honum þær bætur sem þarf?  Frá samþykkt hans hefur margt breyst. Kannski stærst breytingin eðli og tilgangur mótherja okkar að þeim samningi. 

Eins og áður segir var samningurinn gerður við Efnahagsbandalag Evrópu, EB. Skömmu eftir undirritun samningsins var gerð mjög dramatísk breyting á samstarfi þeirra þjóða er tilheyrðu EB. Gerðu nýtt samkomulag þeirra á milli um enn frekari samruna og samstarf á pólitíska sviðinu. Þá varð til Evrópusambandið, ESB. Síðan hefur það eflst mjög á pólitíska sviðinu og við orðið að taka við hinum ýmsu tilskipunum á því sviði. Þó var þessi samningur einungis um viðskipti þegar Alþingi samþykkti hann. Því er full ástæða að taka hann upp, átti auðvitað að gera það við eðlisbreytinguna sem aðildarríki EB/ESB samþykktu á sinum tíma. 

Í vitengdri frétt heldur þingmaður Samfylkingar því fram að einhugur innan ríkisstjórnar sé um samþykkt bókunar 35. Þetta er mjög merkilegt, ef satt er. Flokkur fólksins hefur gegnum tíðina verið mjög andvígur bókunnar 35. Einn ráðherra flokksins einn ötulasti talsmaður gegn þeirri bókun og bent á það augljósa að engin breyting hafi verið gerð á stjórnarskrá sem heimilar samþykkt þessarar bókunar. Hún er jafn mikið brot á stjórnarskrá nú og vorið 1992. Hvernig ætlar Ff að útskýra fyrir sínum kjósendum þessa umpólun, þessi sviknu kosningaloforð?

En hvers vegna núna? Það er stóra spurningin. Hvað veldur því að EES samningurinn er í hættu nú, 33 árum eftir samþykkt hans. EB samþykkti á sínum tíma samninginn, eftir afgreiðslu Alþingis, án bókunar 35. Hvað hefur breyst?

Er þetta kannski frekar eitthvað innanlandsmál? Eitthvað sem kratar og sjálfstæðiskratar sjá sér hag í? 

Þegar síðustu sneiðar salamipylsunar er skornar eru puttarnir í hættu. Að ekki einungis að síðasta sneiðin verði skorin, heldur einnig framanaf fingrum sér.


mbl.is Einhugur innan ríkisstjórnarinnar um bókun 35
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Með því að ná þessari bókun í gegn, verður mun

aðveldara að koma Ísland í EU og það jafnvel án

þjóðaratkvæðagreiðslu.

Blautur draumur ÞKG er við það að rætas.

Sigurður Kristján Hjaltested, 7.6.2025 kl. 10:18

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það má til sannsvegar færa, Sigurður. 

Með samþykkt bókunarinnar er ljóst að stjórnarskráin verður marklaust skjal. Alræði stjórnvalda orðið að veruleika.

Gunnar Heiðarsson, 7.6.2025 kl. 10:40

3 Smámynd: Jónatan Karlsson

Blasa óheilindin ekki hreinlega við og það því miður ekki bara í þessu eina tiltekna máli?

Hvað ætli gengi dagsins á íslenskum ráðherra, eða þingmanni gæti verið?

Kannski svona milljón evrur, eða jafnvel minna?

Jónatan Karlsson, 7.6.2025 kl. 14:12

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þakka þér enn og aftur Gunnar fyrir þennan skíra pistil sem opnar leið þeirra gáttuðu, lítt skyljandi í pólitískum fyrirmælum ríkisstjórnarinnar.
Ég bendi þeim (gáttuðu)á að lesa pistilinn svo og athugasemd Sigurðar, dreifa m.a.efninu til áhyggjufullra foreldra/uppalanda.Enga afsökun þarf til að mæta á boðaðan mótmælafund-miklu frekar skylda.

Helga Kristjánsdóttir, 7.6.2025 kl. 14:32

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bókun 35 var ekki "haldið utan" EES samningsins heldur er hún bókun við þann samning (samningsviðauki) og þar með hluti hans.

Þegar EES samningurinn var lögfestur var sett regla í þau lög um að túlka skyldi íslensk lög til samræmis við EES reglur. Framan af dugði sú regla ágætlega því íslenskir dómstólar sáu sér fært að fylgja henni og sjaldan komu upp árekstrar sem ekki var hægt að greiða úr með lagatúlkun.

Það sem breyttist var að í kjölfar bankahrunsins fór að bera á því í sívaxandi mæli að íslenskir dómstólar sáu sér ekki fært að teygja sig nógu langt í túlkun laga sem gengu beinlínis gegn EES rétti til að tryggja íslenskum borgurum umsamin lágmarksréttindi. Hvort sem það var meðvituð ákvörðun eða slys leiddi það til réttarspjalla.

Vegna þessarar óheillaþróunar hafa sjónir beinst í auknum mæli að því að túlkunarreglan sem var sett í upphafi hafi ekki falið í sér fullnægjandi innleiðingu til að tryggja íslenskum almenningi þau lágmarksréttindi sem var samið um handa þeim með EES samningnum. Þess vegna þarf að bregðast við því með setningu skýrari reglu um að íslenskir borgarar eigi að geta treyst því að njóta a.m.k. þeirra lágmarksréttinda sem var samið um handa þeim. Svo geta íslensk stjórnvöld alltaf gert betur en lágmarkið ef þau vilja og bókun 35 girðir engan veginn fyrir það að við getum jafnvel notið betri réttinda en þekkjast í löndunum í kringum okkur.

Íslendingum stafar engin ógn af því að fá lágmarksréttindi sín betur tryggð, þvert á móti hefur skerðing þeirra ógnað þeim.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.6.2025 kl. 17:38

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er ekki alls kostar rétt hjá þér Guðmundur. Bókunin var vissulega hluti þessa samnings, eða öllu heldur átti að vera það. En hún var tekin út áður en Alþingi samþykkti samninginn. Ýmsar ástæður má nefna fyrir þeirri ákvörðun, en fyrst og fremst vegna þess að löglærðir menn voru sammála um að þessi bókun færi gegn stjórnarskrá, að breyta þyrfti henni svo hægt væri að hafa bókun 35 innan EES samningsins. Slík breyting hefur ekki enn farið fram. Annað mikilvægt atriði var að alls ekki var víst að meirihluti næðist um samþykkt þessa samnings á Alþingi. Og reyndar klárt mál að meirihluti hefði ekki náðst með bókun 35 innan hans.

Þetta munum við sem vorum farin að fylgjast með stjórnmalum á þessum tíma. Hins vegar eru margir yngri duglegir við að breyta sögunni. Því miður fyrir þá, þá erum við enn nokkuð mörg enn heil á hug, erum ekki enn komin á bekk elligleymskunnar. Það styttist þó i það. 

Hvort ESB hafi sárnað sigur okkar í Isesave deilunni og leggi því meiri áherslu á að bókun 35 verði löggild, skal ósagt. Hitt er ljóst að erfiðara hefði verið fyrir okkur að standa vörð þjóðarinnar, með þessa árans bókun inni. Einnig hefði þá sennilega verið erfiðara eða jafnvel útilokað að setja neyðarlögin sem björguðu okkur frá allsherjarhruni.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 7.6.2025 kl. 19:00

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bókun 35 gerir ekkert nema árétta þá skyldu sem felst í 7. gr. meginmáls til að innleiða EES reglur í íslenskan rétt. Því markmiði verður ekki náð ef svo eru sett einhver allt önnur séríslensk lög sem aftengja EES réttinn og þess vegna er áréttað í bókuninni að ef svo ber undir skuli EES reglan gilda. Innleiðingarskyldan í 7. gr. er lykilatriði í meginmáli EES samningsins og hefur sem slík verið hluti af íslenskum lögum frá því að samningurinn var lögfestur 1994. Ef við ætlum að virða samninginn að þessu leyti gerir forgangsregla samkvæmt bókun 35 ekkert nema hjálpa við að ná því markmiði. Þeir sem leggjast gegn því eru í raun að mæla því að íslenska ríkið brjóti gegn umsömdum réttindum almennra borgara.

Sem fovígismaður baráttunnar gegn samningum um ríkisábyrgð vegna Icesave vil ég frábiðja mér rangtúlkanir á staðreyndum þess máls til notkunar í áróðri gegn umsömdum réttindum íslenskra borgara samkvæmt EES samningnum. Bókun 35 hefði engu máli skipt í Icesave málinu, því þar var ekki um ræða neinn árekstur séríslenskra laga við EES reglur. Einu lögin sem giltu og gilda enn um innstæðutryggingar eru lög sem innleiða EES reglur. Þar sem þær voru réttilega innleiddar með þeim lögum og framkvæmd þeirra í samræmi við EES reglurnar var Ísland ekki brotlegt við þær og þess vegna vannst sigur fyrir EFTA dómstólnum. Ekki vegna þess að við vorum með frávik frá EES reglunum heldur fylgdum við þeim! Ef við hefðum ekki gert það, þá hefðum við tapað fyrir ESB í málinu.

Framkvæmdastjórn ESB hefur svo sem verið tapsár allar götur frá sneypuför sinni til EFTA dómstólsins í Icesave málinu og aldrei viðurkennt niðurstöðu dómsins heldur þvert á móti farið gegn henni og ætlast til þess að aðildarríkin geri slíkt hið sama. Einmitt þess vegna er aðild Íslands að ESB útilokuð því þjóðin hefur í tveimur lagalega bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum hafnað því að undirgangast ríkisábyrgð á innstæðutryggingum. Ekkert að þakka og verði ykkur að góðu.

Sú regla sem er lögð til í frumvarpi á Alþingi um innleiðingu bókunar 35 hefði alls ekki gert okkur erfiðara, hvað þá útilokað að setja lög nr. 125/2008 (svokölluð neyðarlög). Það reyndi nefnilega á það hvort þau samræmdust EES samningnum og þau stóðust þá skoðun! Auk þess hefði verið einfalt að taka af allan vafa með því að skrifa það einfaldlega í lögin að skuli gilda framar öðrum lögum, eða eins og segir í texta frumvarpsákvæðisins: "...skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað". Með þessu er áréttað að það sé alltaf á færi Alþingis að "mæla fyrir um annað" en EES reglur kveða á um. Einmitt þess vegna brýtur þetta ekki heldur í bága við stjórnarskrá.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.6.2025 kl. 19:36

8 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Jón Steinar Gunnlaugsson kjarnar málið glæsilega á FB-vegg sínum fyrr í morgun: 

Nú er deilt á Alþingi um lögleiðingu á bókun 35, sem felur í sér breytingu á lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Texti frumvarpsins um lögleiðinguna hljóðar svo:

"Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum ef þau eru ósamrýmanleg öðrum stjórnvaldsfyrirmælum."

Í þessu felast fyrirmæli um að eldri reglur skv. EES-samningnum skuli ganga fyrir yngri lögum sem Alþingi setur ef ekki er efnislegt samræmi á milli. Þetta felur það í sér að löggjafarvald Alþingis er takmarkað, því að ný sett lög á Alþingi víkja auðvitað ævinlega til hliðar eða fella niður eldri lagareglur ef efnislegt ósamræmi er til staðar. Í reynd er því lagasetningarvald Alþingis takmarkað að þessu leyti án þess að stjórnarskráin heimili slíkt.

Ekki verður annað séð en að sú skipan sem felst í þessu frumvarpi standist ekki nema stjórnarskránni sé fyrst breytt og í hana sett ákvæði sem heimilar þetta. Alþingismönnum er skylt að haga störfum sínum að lagasetningu samkvæmt þeim heimildum sem stjórnarskráin veitir. Þess vegna hefur Alþingi ekki stjórnskipulega heimild til að lögfesta þetta frumvarp.

Arnar Þór Jónsson, 8.6.2025 kl. 11:03

9 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Guðmundur- smá vangaveltur.

Getur Alþingi eftir samþykki bóknunar 35 sett lög um að öll fyrri gildandi lög sem Alþingi hefur sett skulu hafa forgang yfir önnur ný og gömul lög / reglugerðir frá Evrópusambandsins.

Og þá í framhaldi sett inn í öll ný íslensk lög frá Alþingi íslendinga þau lokaorð" þessi lög gilda umfram öll önnur lög og lagaákvæði sem koma frá erlendum ríkjum í nútíð og framtíð.

Eggert Guðmundsson, 8.6.2025 kl. 12:01

10 identicon

Sæll Gunnar frændi; sem og þið önnur, öllsömul !

Það er þakkarvert; að þið sjeuð að reyna að koma fornvini mínum:: Guðmundi Ásgeirssyni, hver hrekklaus er að öllu upplagi - og vel meinandi um landsins gagn og nauðsynjar í skilning um - að við eigum ajerdeilis ENGA samleið með Hrægamma sambandinu, suður á Brussel völlum og austur í Berlín.

Skyldi Guðmundur vera búinn að gleyma; þá Þórarinn Nefjólfsson farmaður og legáti Ólafs Haraldssonar Noregskonungs ætlaði Íslendingum að gefa Noregskonungi Grímsey (hina nyrðri), á 11. öldinni ?

Þá; stóð Einar Þveræingur Eyjólfsson í ístaðinu, gagnvart ofríki Ólafs konungs, eins og við munum.

Ykkur öllum að segja; verður það að teljast fremur dapurlegt (í okkar nútíma) þyrftu íslenzkir þjóðfrelsissinnar að sýna þeim Kristrúnu Frostadóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur svona ámóta striga sekki (t.d.), sem frændur mínir Byskupstungnamenn  og Norðlenzkir höfðingjar undir forystu þeirra Þorvarðar Loftssonar og Árna Dalskeggs Einarssonar, ásamt Teiti Gunnlaugssyni í Bjarnanesi eystra munstruðu Jón Gerreksson Skálholtsbyskp í, áður en þeir drekktu honum í Brúará (á mörkum Grímsness- og Byskupstungnahreppa), þann 20. Júlí árið 1433.

Þó svo; ekki yrði gengin öll sú leið, að þeim Kristrúnu og Þorgerði Katrínu, að þá mætti að minnsta kosti sýna þeim snöfurmannlega fram á, hversu grátt mætti leika það fólk í okkar samtíma:: hvert hygði til landráða gagnvart landi og fólki, sem fjenaði öllum.

Þennan kaldrana; skyldi Guðmundur Ásgeirsson ígrunda, ekki síður en þau önnur, hver vildu undirgangazt Evrópusambands ásælni og frekari yfirráð !

Löngu tímabært; að Íslendingar snúi sjer í ríkara mæli, til Ameríku heimsálfanna þriggja í framtíðinni - ekki síður en til Asíu, og víðar um grundir !

Guðmundur fornvinur.

Við eigum; að úthýsa öllum þeim slettirekum, sem á EES og ESB snærum eru að brugga okkur enn frekari launráð, ágæti drengur ?

Punktur.

Með beztu kveðjum; sem oftar og fyrri, af Suðurlandi /      

     

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.6.2025 kl. 17:26

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eggert.

Engin íslensk lög koma frá erlendum ríkjum, einu lögin sem gilda á Íslandi eru þau sem Alþingi setur.

Alþingi gæti vissulega sett lög þess efnis að öll fyrri gildandi íslensk lög gangi framar lögum sem innnleiða EES reglur, en þá væri það brot á EES samningnum að því leyti sem séríslensku lögin stangast á við þau sem innleiða EES reglurnar. Það hefur í sjálfu sér ekkert með bókun 35 að gera heldur væri þá brotið gegn 7. gr. meginmáls EES samningsins sem er jafnframt hluti af íslenskum lögum.

Alþingi gæti líka sett í öll ný íslensk lög ákvæði þess efnis að þau gildi framar öðrum lögum sem innleiða EES reglur, það er meira að segja sérstaklega tekið fram í ákvæði frumvarpsins sem er kennt við bókun 35 og reyndar í bókuninni sjálfri líka, en þá gæti það líka falið í sér samskonar brot gegn EES samningnum og áður var lýst.

Til að draga þetta saman þá getur Alþingi alltaf sett hvaða lög sem því sýnist jafnvel þó þau stangist á við EES reglur. Aftur á móti felur samningurinn í sér skuldbindingu um að gera það ekki. Samt hefur það stundum verið gert fyrir mistök og leitt til skerðingar á réttindum almennra borgara og skaðabótaskyldu ríkisins en með því að girða fyrir að slík mistök hafi áhrif dregur úr hættunni á slíku tjóni.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.6.2025 kl. 20:41

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Óskar Helgi.

Ég er hjartanlega sammála því að Ísland á ekkert erindi inn í Evrópusambandið enda bryti það í bága við stjórnarskrá og niðurstöður tveggja lagalega bindandi þjóðaratkvæðagreiðslna.

En hér er ekki verið að ræða um ESB heldur EES samninginn. Hann hefur bæði kosti og galla en á meðan hann gildir tel ég að við eigum að nýta kostina en reyna að sníða af gallana eins mikið og hægt er.

Svo geta aðrir haft aðra skoðun og það er líka í fínu lagi.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.6.2025 kl. 20:46

13 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Guðmundur, Íslendingar hafa enga annmarka sniðið af í 33 ára sögu, heldur verið þöglir já-menn og samþykkt ALLT sem komið hefur frá Brussel. Engin þjóð getur útvistað ákvörðunum með þessum hætti og haldið að allt fari vel. Það er líka rangt hjá þér að öll löggjöf komi erlendis frá. Vatnalögin frá 1915 eru glæsilegt sögulegt dæmi um innlenda löggjöf sem varði þjóðarhag og eltist auk þess vel. 

Arnar Þór Jónsson, 8.6.2025 kl. 21:09

14 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Guðmundur, málflutningur þinn og annarra já-manna um það að Ísland geti sett hvaða lög sem er, jafnvel gegn EES rétti, er eyðilagður af ykkur sjálfum þegar þið segið í hinu orðinu að við "verðum" að samþykkja frumvarpið um B35 vegna þrýstings frá ESB / ESA. 

Arnar Þór Jónsson, 8.6.2025 kl. 21:11

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég hef aldrei sagt að við "verðum" að samþykkja frumvarpið kennt við B35 vegna þrýstings frá ESB / ESA. Ég hef eingöngu reynt að halda mig við staðreyndir málsins og taka rökstudda adstöðu til þess. Aðrir kunna að hafa aðra afstöðu en þegar var í námi var mér kennt að það er ekki endilega alltaf til ein rétt niðurstaða heldur skiptir mestu máli að sú niðurstaða sem komist er að sé sæmilega vel rökstudd.

Nú átta ég mig ekki á því hvað er meint með því að kalla mig og einhverja fleiri "já-menn". Ég er ekki beinlínis þekktur fyrir að vera sú manngerð sem gleypir við hverju sem er, þvert á móti hef ég aldrei hræðst að vera gagnrýninn eða stefna í aðra átt en meginstraumurinn.

Sem dæmi um þetta er ég einmitt hjartanlega sammála þeirri gagnrýni að fulltrúar Íslands á vettvangi EES í gegnum tíðina verið allt of miklir "já-menn" og samþykkt flest sem hefur komið frá Brüssel möglunarlítið. Líka þegar þeir hefðu í það minnsta átt að gera athugasemdir, setja fyrirvara eða jafnfvel krefjast sérstakrar aðlögunar á reglum sem eru teknar upp í EES eins og samningurinn beinlínis gerir ráð fyrir að sé heimilt. Það er einmitt þetta sem ég á við með því að reyna eigi að sníða af gallanna eins og hægt er en svo sannarlega hefur ekki verið gert nóg af því og það tel ég mega gagnrýna og gera betur.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.6.2025 kl. 21:56

16 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Guðmundur

Það segir í frumvarpi um bókun 35 " "...skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað".

Þú segir einnig óbeint að ef Alþingi innleiðir  ný lög sem koma frá EES, þá megi ekki  rýra þau réttindi sem þar standa, þó að þau séu ekki í takt við íslenskt samfélag, þá væri það samningsbrot.

Um hvað má Alþingi mæla um annað?  Er þetta ekki innantóm setning og marklaus í frumvarpinu?

Svo er ég einnig hugsandi yfir því að á komandi árum þá heldur reglugerðarflóðið að streyma til Íslands frá EES, og þá eftir að við samþykkjum þetta frumvarp þá verði ekki hægt að hrófla við neinu sem þaðan kemur. Hvað er þitt álit á því?

Eggert Guðmundsson, 8.6.2025 kl. 22:10

17 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Eggert.

Málsliðurinn sem þú vísar til áréttar að Alþingi getur alltaf sett lög sem segja annað en EES reglur, en þá þarf bara að taka það sérstaklega fram að þá skuli þau séríslensku lög gilda en ekki EES reglurnar. Slíkt myndi þó líklega fela í sér samningsbrot eins og það hefði reyndar alltaf gert hvort sem er og bókun 35 breytir engu um það að ef Ísland setur lög sem víkja frá EES reglum brýtur það gegn EES samningnum. Tilgangur þeirrar reglu sem er lögð til í frumvarpinu er einfaldlega að draga úr líkum á því að slíkt gerist óvart ef það er ekki ætlunin.

Þessi málsliður er alls ekki markleysa því hann staðfestir að ákvæðið dregur ekki úr löggjafarvaldi Alþingis sem er bundið í stjórnarskrá heldur mótar aðeins farveg fyrir beitingu þess, sem Alþingi getur sjálft alltaf breytt síðar því alveg eins og Alþingi getur sett þessi lög gæti það líka breytt þeim síðar eða fellt úr gildi.

Með öðrum orðum, ef þetta tekur gildi þá getur Alþingi alveg sett lög sem brjóta í bága við EES samninginn eins og það hefur getað gert hingað til. Það má auðvitað ekki því samninga ber að halda en er samt hægt. Alveg eins og ef ég leigi t.d. húsnæði en geri svo eitthvað sem brýtur í bága við leigusamninginn þá get ég það þó ég megi það ekki.

Til að reyna að svara síðustu spurningu þinni um hvort ekki verði hægt að hrófla við neinu frá EES ef frumvarpið verður samþykkt, þá hefur það ekkert með bókun 35 eða efni frumvarpsins að gera. Vettvangurinn til að hrófla við einhverju sem kemur frá Brüssel er í sameiginlegu EES nefndinni, áður en það er tekið upp í EES samninginn, sem er því miður allt of sjaldan gert. Eftir að einhver gerð frá ESB hefur verið tekin upp í EES samninginn, mögulega með aðlögun, þá ber aðildarríkjum hins vegar skylda til að innleiða hana samkvæmt 7. gr. EES samningsins. Bókun 35 breytir engu um þá skyldu heldur er einfaldlega ætlað að stuðla að betri skilvirkni slíkrar innleiðingar sem á eingöngu við eftir að viðkomandi gerð hefur verið tekin upp í EES samninginn.

Ef eitthvað kemur frá Brüssel sem er ekki í takt við íslenskt samfélag ætti að sjálfsögðu að gera athugasemdir við það á vettvangi sameiginlegu EES nefndarinnar og setja fyrirvara eða krefjast aðlögunar, sem er því miður sjalfgæft og mætti gera meira af. Ég á samt erfitt með að sjá hvaða máli það gæti skipt ef við fengjum einhver réttindi sem skipta engu máli fyrir íslenskt samfélag því þá myndi varla neinn hér vilja nýta sér þau réttindi hvort sem er og það myndi þá engu breyta.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.6.2025 kl. 22:56

18 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Það er gaman að bera þá saman nafnana Gunnar Heiðarsson og Gunnar Rögnvaldsson, báðir á móti ESB og góðir. Sá síðarnefndi hefur mér fundizt hvassari en sá fyrrnefndi sýnir hér að hann er frelsishetja líka og þessar góðu umræður bæta við pistilinn.

Það er eitt sem ég tel rangt hjá Guðmundi Ásgeirssyni. Hann segir að "engin íslenzk lög komi frá erlendum ríkjum."

Ég sæi það fyrir mér ef íslenzka ríkið myndi til dæmis setja þau lög að hér mættu aðeins búa ljóshærðir og bláeygir einstaklingar. Hvað myndi þá ESB gera eða aðrar alþjóðastofnanir? Setja viðskiptabann á landið? Eða yrðu það bara einstaklingar og stofnanir, baráttusamtök? 

Ég hef mikið velt þessu fyrir mér, hversu fráls og sjálfstæð við erum í raun.

Þótt í orði kveðnu sé það vissulega Alþingi sem stimplar lögin og setur inní lagabálkana og stjórnarskrána þannig séð, þá erum við í samfloti með öðrum þjóðum. Fátt eða ekkert er hér mikið meira öðruvísi en hjá öðrum og því finnst mér við ekki sjálfstæð þjóð, þannig séð. Að vísu er margt gott við alþjóðakerfið og alþjóðleg lög, samt ekki allt, en sjálfstæð þjóð á samt að geta leyft sér að setja sérlög sem eru í ósamræmi við til dæmis EES og ESB.

Nú tek ég það fram að faðir minn og sérstaklega Valgerður systir mín eru mjög hlynnt ESB og hún hefur unnið þar í Brussel lengi í ráðuneytinu. Þannig að ég þekki þessi viðhorf, er jafnvel dálítið hlynntur Evrópu og inngöngu í ESB - en tvístígandi, afi og amma voru mjög á móti svona.

En Guðmundur talar helzt um réttindi sem fylgja Bókun 35, ekki um bindandi atriði og minna frelsi.

Ég hef nú rætt við hina og þessa um mannréttindi og réttindi yfirleitt. Mér virðist sem þetta sé þannig að rangt sé að tala um almenn réttindi og mannréttindi, því þegar réttindi eins hóps eru aukin þá geta þau verið minnkuð hjá öðrum.

En innan ESB er mikil reynsla í þessu, og lagabálkar miklir og flóknir til að koma á sem mestu réttlæti. 

Tek eftir því að GÁ samþykkir að við Íslendingar höfum verið of miklir já-menn og ekki reynt að sníða af gallana eða tala um sérstöðu okkar eða það sem myndi henta þjóðinni betur.

Því er þetta nákvæmlega eins og kom fram á fundinum gegn Bókun 35, litlar líkur eru á öðru en að þannig verði þetta áfram ef Bókun 35 verður samþykkt, og allt verði gleypt hrátt áfram.

Það er þó lifandi umræða hér, en sumir sem styðja ESB 100% eru óhagganlegir, og þá fellst maður á að vera bara ósammála og að ekkert þýði að ræða þau mál, eins og ESB, sem það fólk álítur Paradís og Fyrirheitna landið.

En svo ég setji þetta saman í stuttu máli: Ég tel að 99% af öllum okkar lögum komi frá útlöndum, og við séum aðeins stimplavél. 

Eins og Jóhann stýrimaður orðaði þetta: Meiri þörf er á sjálfstæðisbaráttu nú en á tímum Jóns Sigurðssonar, því alþjóðasamfélagið er með puttana í öllu. 

Það eru góð lokaorð þessarar athugasemdar minnar. Lögin eru sett á Íslandi en hugmyndir og fyrirmyndir koma oftast að utan. Þessvegna fáum við hrós frá möppudýrum erlendum fyrir að innleiða þetta vel. Slíkt hrós er last í raun, og sýnir þrælslund og ósjálfstæði.

Ingólfur Sigurðsson, 9.6.2025 kl. 05:02

19 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Guðmundur

Þakka þér fyrir skýr svör.

Mér sýnist á þínum svörum þá geti Alþingi ekki sett lög sem eru lítt á skjön við EES regluverkið, þá ekki heldur í sérlögum, þá kalli það á samningsbrotamál við Ísland.

Eru þá ekki að segja að EES lög (reglugerðir) yfirtrompi lagasetningu Alþingis, og taki af Alþingi lagasetningarvald?

Ef svo er þá tel ég ástæðu að fara yfir EES samninginn um kosti og galla umfram EFTA samninginn, og jafnvel segja upp EES samningum, því allt lagasetningarvald Alþingis verði stjórnað af ESB.

Eggert Guðmundsson, 9.6.2025 kl. 12:11

20 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Arnar Þór - Eggert og Ingólfur.

Góðar eru; rjettmætar umvandanir ykkar - sem og margra annarra gagnvart óskiljanlegri þvermóðsku, hins mæta drengs: Guðmundar Ásgeirssonar.

Það er eins; og Guðmundur hafi gengið í björg EES/ESB skrifræðisins, honum getur ekki verið sjálfrátt.

Eða; hvers vegna leggur Guðmundur svona yfirmáta áherzlu á, að Íslendingar skyldu hlíta boðum Blýantanagaranna, suður í Brussel - hvað EES forsmánina snertir ?

Ingólfur.

Vel viðeigandi; tilvitnun þín, í skrif míns gamalgróna vinar Jóhanns Stýrimanns Elíassonar, hvern má telja til hinna fölskvalausuztu þjóðfrelsissinna, í okkar samtíma, að öðrum mörgum ólöstuðum.

Guðmundur.

Hvað veldur; óskiljanlegri fylgispekt þinni, við viðurtsyggð EES ósómans - og:: þar með talinn Schengen fáránleikann, ágæti drengur ? ? ?

Ekki síðri kveðjur; hinum fyrri /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.6.2025 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband