Siðleysið ríður röftum, enn og aftur
23.5.2025 | 01:11
Fjármálaráðherra var óspar á stóru orðin þegar þjóðinni var boðið að kaupa eigin banka. Sagði bankakerfið standa einstaklega vel. Minnugir slíkra orða ráðamanna sumarið og haustið 2008, varð til þess að margir urðu afhuga kaupum á bréfunum, þó margir hafi látið blekkast, rétt eins og fyrir hrun.
Þegar blaðað er í Viðskiptablaðinu eru nokkrar áhugaverðar fréttir. Þar er til dæmis frétt er segir frá mögulegri samþjöppun á bankamarkaði. Ef menn telja þörf á samruna þess er ljóst að orð fjármálaráðherra eru álíka marktæk og ráðamanna sumarið og haustið 2008.
Önnur frétt er nokkuð umhugsunarverð. Hún er um að Orkan sé að kaupa Samkaup. Orkan er eins og flestir vita í eigu Skeljar, áður Skeljungs. Aðaleigandi Skeljar er enginn annar en Jón Ásgeir Jóhannesson, nokkuð kunnuglegt nafn. Kannski frægustu ummæli hans fyrst eftir hrunið, þegar hann sagðist kannski eiga fyrir einni diet kók. Þó hefur þessum manni, sem sagðist með öllu eignarlaus eftir hrunið, tekist að ná undir sig fjölda fyrirtækja hér á landi og er enn að bæta í safnið. Ekki að sjá að hann hafi þurft að taka á sig stóra ábyrgð í kjölfar hrunsins, né lært. Margir eru enn að súpa seiðið af þeim skaða sem Jón Ásgeir og aðrir svokallaðir útrásarvíkingar eða hrunverjar, ullu með því að setja bankakerfið á hausinn. Eru ekki eins "heppnir" og Jón.
Þriðja fréttin sem skar augun er enn óhuggulegri og minnir enn frekar á tímana fyrir hrun, þegar ósóminn fékk að ganga lausum hala og sumir höguðu sér eins og svín. Sú frétt er svo ótrúlega nærri þeim fréttum sem daglega mátti lesa fyrir hrunið, um kauprétt hlutabréfa. Nokkrir af stjórnendum Ölgerðarinnar fengu að kaupa hlut í fyrirtækinu á gjafvirði og seldu aftur samdægurs á markaðsvirði. Þannig náðu þeir að þyngja pyngju sína um heilar 28,215,000 kr hver. Reyndar ekki jafn mikill hagnaður og forsætisráðherrann okkar fékk er hún hætti vinnu á almennum markaði og ákvað að setjast á þing, en alveg ágætis summa þó. Einkum vegna þess að nær allir sem einhvern alvöru titil hafa hjá Ölgerðinni fengu þennan ábata á laun sín. Fólkið á gólfinu, þetta sem býr til verðmætin, fékk ekkert.
Fleiri óhugnanlegar fréttir mætti vitna til í Viðskiptablaðinu, fréttir sem minna á þann tíma er siðleysingjar höfðu hér öll völd á fjármálamarkaði. Ein fréttin þar segir frá því að kaupendur bréfa í Íslandsbanka hafi fengið þau afhent og fyrir hádegi hafi stór hluti þeirra verið búin að selja bréfin frá sér, nýtt sér afslátt fjármálaráðherra. Hverjir kaupendur eru er ekki sagt, en ekki ótrúlegt að þar fari einhverir þeirra er mest bar á fyrir hrunið. Að hrunverjar séu að ná aftur tangarhaldi á bankakerfinu.
Og svo kannski undarlegasta fréttin, eða fáránlegasta. Þar segir ágætur hagfræðingur okkur að heimili landsins séu hreinlega að drukkna í innlánum! Á hvaða lyfjum er fólk eiginlega? Enn ein vísunin til mánaðanna fyrir hrunið, þegar landsmönnum var talin trú um að þeir væru svo ofboðslega ríkir, af því við áttum svo ofboðslega mikla fjármálasnillinga sem væru að ávaxta fé okkar svo ofboðslega mikið. Raunin þá var önnur og kannski einnig nú.
Það er hreint eins og við séum komin 17 ár aftur í tímann. Ekkert hefur breyst. Sjálftakan orðin viðtekin venja, rétt eins og fyrir hrun, siðleysið algert. Og ráðamenn þjóðarinnar spila auðvitað með, rétt eins og fyrir hrun, jafnvel forsetinn farin að taka með sér "viðskiptafólk" í erlendar heimsóknir, eitthvað sem þáverandi forseti var mjög gagnrýndur fyrir í hrunskýrslunni.
Kannski erum við komin nær öðru hruni en margur heldur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 06:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning