Að færa stöðugleika raforkunnar hálfa öld aftur í tímann

Nýlega sló út rafmagni á öllum Íberíu skaganum. Orsökin er sögð vegna mikillar orkuframleiðslu svokallaðra grænnar orku, þ.e. vindorku og sólarorku. Þetta eru óstöðugir orkugjafar sem útilokað er að hafa stjórn á og því notast við kola- og olíuorkuver til að taka á sveiflum. Eitthvað fór þar úrskeiðis þannig að öll raforkuframleiðsla um Spán og Portúgal sló út á einu bretti. Á sama tíma var grænorkuframleiðsla í Danmörku og Þýskalandi komin að þolmörkum og víst að ef Frakkland byggði ekki sína orkuframleiðslu að stærstum hluta á kjarnorku, hefi sennilega stórum hluta Evrópu slegið út samhliða Íberíu skaganum.

Hér á Íslandi er nánast öll orkuframleiðsla græn, ekki vegna vind- eða sólarorku, heldur vatns- og hitaorku. Þeir orkugjafar eru mjög stabílir og því útilokað að sama ástand geti skapast hér á landi, vegna sjálfrar öflunar orkunnar. Hluta landsins getur slegið út ef stórnotandi verður fyrir áfalli, en ekki lengur möguleiki á að allt landið verði orkulaust samtímis. Þarna ræður fyrst og fremst stöðugleiki okkar orkuframleiðslu. Þessum stöðugleika vilja sumir fórna fyrir loforð um einhvern hugsanlegan hagnað, kannski, einhvertímann.

Yfir 40 vindorkukostir eru komnir fram hér á landi, með uppsettu afli frá rúmlega 100 MW upp í yfir 500 MW. Margföld sú orkuframleiðsla sem nú þegar er stunduð hér á landi. Þetta er auðvitað alveg galið og fáheyrt. Að það skuli vera hlustað á hugmyndir um að fórna stöðugri orkuframleiðslu fyrir óstöðuga, að það skuli vera hlustað á hugmyndir sem færa okkur hálfa öld aftur í tímann, er nánast sturlun.

Enn hefur Alþingi ekki komið sér saman um lög um vindorku, eitthvað sem ætti þó að vera fyrsta skrefið. Á meðan keppast vindorku barónar við að ná hylli sveitarstjórna, vítt um landið. Þær hafa skipulagsvaldið og þær gefa út framkvæmdarleyfin. Ef ekki dugir að spila á heimsku og undirlægjuhátt sveitarstjórnarmanna er farið á næsta stig, peningastigið. Það virkar alltaf, hversu vitlaus eða vitur hver er. Það er engin spurning hvers vegna þessir barónar sækja svona fast, þeir vilja afgreiða málið í héraði og skapa þannig stjórnvöldum skaðabótaskyldu, fari svo að Alþingi afgreiði málið þeim í óhag, setja pressu á þingmenn. Þetta er þekkt aðferð peningaaflana.

Lengst af hafa tvö erlend fyrirtæki haft sig mest í frammi á þessu sviði, Zephyr og Qair. Nú eru hins vegar fyrirtæki í eigu okkar landsmanna kominn í þennan ljóta leik, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur. Vilja vera memm. Vilja fórna landinu okkar.

Auðvitað er það svo að ekki er til jöfnunarorka fyrir allar þessar hugmyndir um vindorku hér á landi, reyndar fjarri því. Því er eina leiðin að virkja meira vatns- og hitaorku, en það dugir ekki. Jafnvel þó allir hugsanlegir kostir vatnsorku séu virkjaðir og öll hitasvæði landsins tekin undir orkuframleiðslu vantar töluvert uppá. Það verður því einungis leyst með olíu- eða kolaorkuverum. Vindbarónarnir hafa mikið talað um að orka þeirra muni nýtast til rafeldsneytisframleiðslu. Slíkar verksmiðjur eru dýrar í uppsetningu og deginum ljósara að þær verða ekki reknar eftir því hvernig vindur blæs. Þær þurfa að ganga allan sólahringinn, alla daga ársins, svo möguleg arðsemi verði til. Því þarf jöfnunarorku, jafn mikla og vindorka hefur möguleika á að framleiða við bestu aðstæður. Annað er einfaldlega ekki í boði. Þó væri líklegt að þeir sem að hugmyndum um rafeldsneytisverksmiðjum standa myndu hugsa sig um tvisvar, vegna þess hversu óstöðug vindorkan er og hversu stór hluti raforku kemur þaðan. Að búið sé að veikja raforkuframleiðsluna svo mikið að henni verði ekki lengur treyst.

Auðvitað á að vera frumkrafa til vindorkuhugmynda að sýnt sé fram á að virkjanaaðili geti sýnt og sannað að hann hafi aðgang að jöfnunarorku, jafn mikilli of vindorkuverið getur framleitt við bestu aðstæður. Allir vita hver framleiðslan er þegar lygnir.

Hér á þessu vefsvæði hef ég skrifað mikið um vindorku, tekið fyrir hina ýmsu þætti hennar, s.s. mengunarþætti. Allir sem kynna sér þennan orkukost þekkja þá þætti sem mestri mengun skilar, en kannski gera sér ekki grein fyrir umfanginu. Gera sér ekki grein fyrir stærð vindtúrbína eða hvað þarf til einnar slíkrar. Það er í sjálfu sér eðlilegt, þar sem fjölmiðlar hafa verið ótrúlega þögulir um þetta stóra mál. Mætti jafnver ætla að þeim sé greitt fyrir þögnina og yfirskafninginn. Í mesta lagi eru fluttar fréttir unnar úr upplýsingum vindbarónanna eða þeirra launþega, eins og íslenskra verkfræðistofa. Þar virðist ein stofa bera herðar og höfuð yfir aðrar, í því að gera ásýndina og framkvæmdanna betri en raunverulega er. Á þetta hef ég bent í öllum þeim athugasemdum sem okkur landsmönnum er leyft að gera, meðan afgreiðslan er hjá eftirlitsstofnunum. Árangurinn er enginn og oftar en ekki ekkert svar. Reyndar einungis fengið svar frá Skipulagsstofnun við einni athugasemd og þó ekki beint svar, heldur staðlað sem öllum var sent.

Ég ætla ekki að ræða alla þá skelfingu sem fylgir vindorkuverum, mengun eða annað. Þó vil ég benda á einn hlut sem aldrei er minnst á og enginn virðist skilja, eða vilja skilja. Það er landraskið sem fylgir hverju vindorkuveri.

Allir horfa á þann sjónskaða sem til verður vegna "slóðagerðar" við vindorkuverin. Hann er vissulega mikill, en annar skaði er þó verri. Þetta eru auðvitað engir slóðar, heldur öflugir vegir, enda þurfa þeir að bera þunga upp á allt að 100 tonnum í ferð. Slíkir vegir verða ekki lagðir nema jarðskipti fari fram undir vegstæðinu. Flest eru þessum vindorkuverum ætlað að vera upp á heiðum okkar, viðkvæmum heiðum með flóknu dýralífi. Þar eru heiðartjarnirnar kannski viðkvæmastar, með sínu einstaka og fjölbreytta vatnalífi. Lífæð þessara tjarna er auðvitað vatnagangur milli þeirra, lækir sem neðanjarðarvatn. Þegar búið er að grafa allt landið í sundur og fylla upp með burðarefni og síðan þjappa niður með gífurlegum þungaflutningum, er ljóst að lítið rennsli verður milli þessara tjarna, hvort heldur ofan eða neðanjarðar. Tjarnirnar einangrast g allt líf í þeim þrýtur, verða fúlar tjarnir. Og fuglalíf leggst af.

Þetta er nóg að sinni.

 

Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og núlli?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband