Galdrar í Svörtuloftum
23.4.2025 | 16:14
Ekki þarf að efa að bankarnir séu kerfislega mikilvægir, eins og seðlabankastjóri segir í viðhendri frétt. Við vitum áhrifin af því þegar bankarnir fara á hausinn, af hvaða ástæðum sem það er. Vonandi eru þó eitthvað heilbrigðara fólk sem nú stýrir bankakerfinu, en var á árunum fyrir hrun, þegar fjárglæframenn höfðu náð tökum á því. Þó er maður farinn að efast og óttast.
Það verður að segjast eins og er, að þó ekki séu fjárglæframenn að skara að sinni köku innan bankakerfisins nú, er rekstur þeirra fráleitt í anda þess að þar fari einhverjir sem telji sig þurfa að huga að samfélaginu, sýni einhverja samfélagslega ábyrgð, eins og kerfislægt kerfi ætti auðvitað að gera. Ævintýralegur hagnaður þeirra er þvílíkur að undrun sætir, langt umfram allt annað í þjóðfélaginu. Bara á síðustu fjórum árum hefur hagnaðurinn tvöfaldast, og hafði þó náð svimandi háum hagnaði fyrir þann tíma. Þessi hagnaður er sóttur í vasa fólksins í landinu og fyrirtækjanna sem fólkið vinnur hjá. Þetta eru ekki peningar sem vaxa á einhverju peningatré. Þetta eru peningar sem sogast út úr hagkerfinu inn í bankana.
Það eru ekki bara svimandi háir vextir sem bankakerfið tekur, heldur er sennilega leitun að eins miklum vaxtamun inn og útlána og hér á landi. Þá er rukkað fyrir hvert minnsta verk sem bankinn er beðinn um og svo komið að maður þorir vart inn fyrir dyr þeirra, af ótta við að fá sendan feitan reikning. Gjaldskrá bankanna er hreint með ólíkindum.
En seðlabankastjóri er rólegur. Segir 3 vera galdratölu en að tveir útiloki samkeppni. Hvaða samkeppni?! Það er engin samkeppni í bankakerfinu hér á landi. Allir á sama róli og þegar einn hækkar eða lækkar vexti, fylgja hinir strax á eftir. Sömu lánakjör hjá þeim öllum og enginn sem gerir greinarmun á hversu gott veð liggur að baki láns. Hvort þar er um að ræða fasteign sem heldur verðgildi sínu eða bifreið sem tapar verðgildi sínu á ofurhraða. Háir vextir rukkaðir af lánum fyrir fasteigninni og örlítið hærri fyrir lán fyrir bíl. Jafnvel neyslulán, sem ekkert veð hefur í raun að baki sér, er verðlagt í vöxtum á svipuðu róli. Þetta er algerlega sér íslenskt fyrirbrygði, sem hvergi þekkist annarsstaðar. Og varla þarf að ræða verðtryggðu lánin, sem tryggja bankana að fullri endurgreiðslu, sama hvað gerist. Þau lán bera líka háa vexti og greiða þarf þar ýmis gjöld sem áður töldust vera inn í vöxtunum. Og ef fólk vill síðan greiða þau lán niður, er því refsað með uppígreiðslugjaldi!
Hvort bankarnir eru 2, 3 eða tuttugu skipir litlu máli hér, einokunin er alltaf söm. Þar er engin galdratala til. Eini galdurinn er að plata fólk upp úr skónum, ná sem mestu fé af því.
Einokun leiðir alltaf til hörmunga og einokun bankakerfis leiðir þjóðir til hörmunga.
Við erum örþjóð sem býr að miklum auðlindum. Svo líti þjóð að fjöldi okkar kæmist fyrir í einu hverfi í stórborgum erlendis, en búum að auðlindum sem fáar þjóðir geta stætt sig af. Ef bankakerfið væri heilbrigt hér á landi, væri ekki að soga til sín sífellt stærri hlut þeirra köku sem við búum að, værum við rík þjóð. Þá gætum við borið höfuðið hátt.
Galdrar seðlabankastjóra hjálpa hins vegar lítið!
![]() |
Bankarnir þrír kerfislega mikilvægir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning