Lán Í óláni
3.4.2025 | 17:21
Ef rétt er haldið á spöðum gætum við Íslendingar gert okkur mat úr verndartollum Trumps. Við lendum þar í lægsta stigi, meðan Norðmenn þurfa að greiða 50% hærri toll og ESB ríki tvöfalt hærri.
BNA þarf vörur frá Evrópu, hvað sem Trump finnst um það mál, geta einfaldlega ekki lokað fyrir alla þá þörf, ekki með pennanum. Hugsanlega gæti verið hægt að minnka þann innflutning til lengri tíma, en kjörtímabil hans dugir ekki til þess.
Því má segja að við séum komin í lykilstöðu, getum beitt sömu aðferð og Norðmenn varðandi Rússafiskinn og Tyrkir með Rússagasið, farið bakdyramegin. Þannig gætum við tekið í gegnum Ísland vörur til BNA og flutt þangað inn á 10% tolli, í stað 20% sem ESB ríki þurfa að greiða.
Varðandi fiskinn þá eru Norðmenn okkar keppinautar á markaði BNA um fiskmeti, hvítt sem rautt. Þar erum við nú komin með forskot sem hægt er að nýta, bæði til aukinnar markaðssetningar og einnig sem milliland á norskum fiski.
Eina hættan í þessum breytingum er ESB utanríkisráðherra okkar. Takist henni að halda aftur af sér og leyfir markaðnum að nýta sér þessi tækifæri, mun allt leika í lyndi. Hitt er þó líklegra að hún álpist í eitthvað samstarf við ESB um hefndartolla. Slíkt gæti sett allt hér á hliðina. Ef sú leið er farin mun verða stutt í að við fáum sömu tolla á okkur og ríki ESB, verði hækkaður úr 10% í 20%. Því er mikilvægt að halda aftur af fáviskunni um samvinnu við sambandið í þessu máli. Okkur ber ekki skylda til þess og engin ástæða til að rugga bátnum.
Grípum gæsina meðan hún gefst. Ekki víst hversu lengi þetta ástand varir, en gæti gert okkur kleyft að vinna frekari markaði innan BNA.
Og talandi um hefndartolla á Trump, þá gæti slíkt reynst erfitt fyrir okkur, auk þess sem það hefði sennilega lítil áhrif á hagkerfi BNA, ef nokkur. Verslun hingað frá BNA er þegar tolluð í topp, reyndar undir öðrum orðum eins og vörugjaldi, en tollur engu að síður. Að hækka hann enn frekar er litt vænt til áhrifa. Þar er betra að láta hvern einstakling ráða hvort hann kaupir vörur þaðan, eða ekki. Sama á reyndar við um ESB ríki. Tollar á vörum til þeirra frá BNA er þegar mun hærri en þessi tollur sem Trump var að setja á. Því kannski svolítið undarlegt hvernig forsvarsmenn þeirra ríkja láta.
Verndartollar eru ætíð gagnrýni verðir, sér í lagi þegar þegar þeir eru lagðir flatir á allar vörur. Þeir geta þó átt rétt á sér í einstaka tilfellum. Þetta er gert í öllum ríkjum hins vestræna heims, oftast þó á tilteknar vörur eða þjónustu. Ekkert nýtt undir sólinni þar. Það sem kemur á óvart nú er að BNA skuli fara þessa leið, eina ríkið sem hingað til hefur verið uppsigað við slíka tolla. Sem dæmi þá er tollur af bílum til ESB, frá ríkjum utan þess, nú um 45% og allt ætlar um koll að keyra þegar bílar fluttir til BNA frá ESB, eiga að taka á sig 20% toll.
Nú þarf utanríkisráðherra okkar að láta af sinni stórmennsku og tala af skynsemi, eða hellst bara þegja alveg. Hún er utanríkisráðherra Íslands, ekki ESB, þó stundum gæti maður haldið það. Þessi aðgerð Trump er auðvitað fráleit frá öllum hliðum, rétt eins og verndartollar ESB. Hins vegar gætum við haft af henni ágóða sem við að sjálfsögðu eigum að nýta okkur.
Við einfaldlega höfum ekki efni á að fara í eitthvað tollastríð, hvort heldur það er í samvinnu við ESB eða á eigin vegum, sýna einhvern flottræfilshátt til að falla að geði ESB elítunnar. Þá munu einhverjir aðrir nýta það tækifæri sem okkur býðst nú.
![]() |
Höfðu ekki ímyndunarafl í svona mikinn mun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:33 | Facebook
Athugasemdir
Þarna er ég sammála þér, það er líka ástæðulaust að hækka innflutningsverð sem eingöngu leiðir til hærri verðbólgu hér á landi - við skulum bara leyfa Bandaríkjamönnum að borga fyrir þessa vitleysu "sín megin".
Það er hins vegar merkilegt hvernig þessir tollar eru reiknaðir; sem hundraðshlutfall neikvæðra vöruskipta Bandaríkjanna við hvert ríki, deilt með tveimur og svo hækkað í næsta heila tug. Reyndar gleymdist að taka með óefnisleg viðskipti, látum það liggja á milli hluta - sem og að "lágmarkið" er 10%, líka hjá þeim þjóðum sem flytja meira inn frá Bandaríkjunum en þær flytja út til þeirra.
Með öðrum orðum var búin til "réttlæting" með reiknikúnstum sem byggja á forsendum sem eru í raun ótengd meintu óréttlæti - líkt og kannski mætti segja um "leiðréttingu" þá sem ráðherrar kynntu á dögunum...?
TJ (IP-tala skráð) 3.4.2025 kl. 20:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning