Líffræðileg fjölbreytni heiðarlanda
30.3.2025 | 08:48
Ég verð að segja að Jóhann Páll kemur skemmtilega á óvart.
Vernd á viðkvæmri náttúru okkar er eitthvað sem ætti að vera sjálfsagt mál. Kuldatímabil fyrri alda og stór eldgos hafa gert landið okkar rýrra en áður var, þó heldur horfi til betri vegar nú, með hlýnandi loftslagi. Svo illa kom landið undan þessu kuldatímabili að það var nánast orðið óbyggilegt í lok þess. Af þeim sökum flúði fjórðungur landsmanna til annarra landa, undir lok litlu ísaldar. En, eins og áður segir, hefur landið tekið nokkrum stakkaskiptum síðustu áratugi. Þar sem áður voru berir melar hefur laggróður náð að festa sig vel og þau litlu og vesælu kjarrlendi sem enn tórðu gegnum kuldatímabilið, hafa sprottið upp og sumstaðar dugir þar ekki að standa upp til að finna áttir, eins og stundum hefur verið haft að gríni.
Landgræðsla, gjarnan unnin af bændum, hefur einnig skilað stóru, þó gagnrýna megi einstök verk á því sviði. Þar má kannski kenna um fáþekkingu. Sem dæmi var allt of langt gengið í notkun lúpínu a þeim vettvangi, svo fögrum melum með sinni fjölbrettu lágflóru hefur verið fórnað.
En nú stöndum við á tímamótum, stórum tímamótum.
Erlendir aðilar í samvinnu við íslensk fyrirtæki, sækja að landinu okkar og hafa nú teygt sig út fyrir landsteinana. Síðasta dæmið er tilraunir með vítissóta í Hvalfirðinum. Tilgangurinn óskýr en afleiðingarnar gætu orðið geigvænlegar.
Vel grónu landi, jafnvel berjalandi, er umbreytt í gróðurleysi svo rækta megi þar skóga. Ekki til að bæta landið okkar eða líffræðilega fjölbreytni þess. Nei, þar liggur einungis eitt að baki, fégræðgi. Að rækta skóga til sölu kolefniseining svo erlend fyrirtæki geti áfram mengað andrumsloftið, núna bara löglega. Í þessu skyni hafa jarðakaup umbreyst. Þeir sem vilja búa á bújörðum og vernda land sitt og fjölbreytni þess, fyrir komandi kynslóðir, komast ekki lengur að söluborði bújarða. Peningaöflin hafa yfirtekið það, jafnvel svo að heilu sveitirnar eru undir. Þar er engin hugsun um líffræðilega fjölbreytni, einungis hversu mikið megi græða.
Heiðarnar eru viðkvæmastar. Þar er gróður viðkvæmastur, þar viðheldur fuglalífið sér og þar eru einstök lífkerfi í tjörnum. Þangað sækja erlendir vindbarónar einna mest og skelfileg hugsun ef, þó ekki væri nema hluti þeirra áforma raungerist. Vindtúrbínur eru ekki líffræðileg fyrirbrigði, heldur stóriðja. Reyndar má með sanni segja að vindtúrbínur séu einna hættulegastar allra hugmynda um orkuvinnslu, hvað líffræði varðar, hvað þá fjölbreytni hennar. Stór svæði verða eyðilögð til að koma þessum ófreskjum fyrir, sem síðan dæla út í andrúmsloftið hinum ýmsu tegundum mengunar, s.s. örplasti, sf6 gasi og olíu, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar ekki co2 meðan þær eru í rekstri en nægt magn af því við framleiðsluna, frá hráefnatöku til fullbúinnar vindtúrbínu. Þá er mikil co2 mengun við reisningu þessara mannvirkja, vegagerð að byggingasvæði, plön og kranar auk flutninga frá hafnasvæði að virkjanasvæði og allri steypu frá steypustóð að virkjanasvæði. Þetta veldur einnig raski á jarðvegi, sem mun stuðla að aukinni losun co2 og það sem þó er verra, að vatnasvið heiðanna breytist þannig að heiðartjarnir munu þorna upp. Því er fátt sem getur skaðað líffræðilega fjölbreytni landsins okkar meira en vindorkuver. Við höfum ekki heimild til að fórna landinu á þann hátt, okkur ber skylda til að skila því eins góðu og í mannlegu valdi stendur, til afkomenda okkar.
Því fagna ég þessari áherslu umhverfisráðherra og vona að alvara liggi þar að baki.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 09:08 | Facebook
Athugasemdir
Sæll frændi æfinlega; og þakka þjer drengilega varðstöðu þjóðþrifamálanna, sem oftar og fyrri !
Vel fram sett; þín frásaga: sannarlega.
Reyndar; skildum við taka Jóhanni Páli, með ákveðnum fyrirvara en . . . . sjáum hvað setur.
Varðandi Hvammsvirkjunar málin hjer eystra; væri bragur að því, að Jóhann Páll ánafanaði frændum mínum Gnúpverjum allt að 95% hagnaðar umdeildrar virkjunnarinnar þar, ef af henni yrði, sem alveg mætti dragazt inn eftir öldinni, því orkuskorturinn svonefndi er mestanpart hugarfóstur Blýantanagaranna suður í Reykjavík - og fátt hollustunnar, úr þeirri áttinni Gunnar minn.
Með beztu kveðjum; sem jafnan, af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 30.3.2025 kl. 15:10
Rányrkja landans á skógum og ofbeit hefur fyrst og fremst gert landið rýrara, það er einfaldlega staðreynd sem þú og aðrir afneitunarsinnar halda fram, benda bara á kuldatímabilið. Kuldin hjálpaði auðvitað ekki til og gerði ástandið verra. Eldgos hafa alltaf verið hérna síðan, líka fyrir landnám þegar t.d. hin blautu og kaldari birkiskeið voru og skógar voru þó hér og allt grónara. Birkið þarf bara um 8°C sumarhita til að geta fjölgað sér.
Ari (IP-tala skráð) 31.3.2025 kl. 11:37
*Staðreynd sem þið afneitunarsinnar AFNEITIÐ (hefði átt að standa
Ari (IP-tala skráð) 31.3.2025 kl. 11:40
Ekki ætla ég að rökræða við þig hverjir eru afneitunarsinnar og hverjir ekki.
Hinu er erfiðara að afneita, að veðurfari ráði ekki um gróðurfar og hvernig því dafnar. Allir sem þekkja til gróðurfars vita hversu viðkvæmt það er gagnvart hitastigi.
Þá er einnig erfitt að afneita því að eldgos hafi áhrif á gróðurfar. Sem dæmi gaus í Hnappafelli árið 1362, með þeim afleiðingum að heil sveit lagðist í eyði. Var kölluð litlahérað fyrir það gos og einkum kunnt fyrir mikla akuryrkju. Eftir þetta gos kallaðist þessi sveit Öræfasveit, þótti lýsa best hvernig það gos fór með landið. Skaftáreldar eru sennilega þeir eldar sem víðtækust áhrif höfðu á gróðurfar landsins. Súrt regn nánast eyddi öllum gróðri á stórum hluta landsins, svo skepnufellir varð og í kjölfarið mannfall mikið.
Sauðkindin okkar, sem svo þægileg þykir til sakar þegar gróðurfar er rætt er einnig borið þyngri sökum en efni eru til. Lengstan hluta frá landnámi var íbúafjöldi undir 50,000 manns hér á landi, færri í kjölfar hinna ýmsu áfalla sem á okkur dundi. Það þarf ekki margt fé til að fóðra 50,000 manns, sér í lagi þegar vitað er að sauðkindin var lítt nýtt til matar fyrstu aldir byggðar hér á landi. Svínakjöti, nautakjöt og hænsni voru aðal kjötmetið. Sauðkindin fyrst og fremst haldin til framleiðslu ullar. Það var ekki fyrr en kólna tók sem svínaræktin átti ekki lengur uppdráttar og sáu mann að sauðkindin gæti tekið við sem fæða einnig.
En auðvitað er það maðurinn sem á alla sök, ekki satt? Það er nefnilega svo auðvelt að kenna manninum um. Þar ber þó að skoða eitt, áhrif veðurs og eldgosa á gróðurfar landsins fyrir landnám. Vitað er að einhveratíma löngu fyrir landnám uxu hér stóreflis tré, það sanna steingervingar sem fundist hafa og einnig var stundum hægt að finna væna trjástofna þegar grafnir voru djúpir skurðir, til að bæta landið. Þessar leifar eru allar frá tíma sem var löngu fyrir landnám. Þeir þurrkuðust út af einhverjum ástæðum, kannski vegna veðurfars, enda vitað að það á til að sveiflast nokkuð, eða eldgosa, sem vitað er að sum hver náðu miklu afli. Í öllu falli er ljóst að sögusagnir um einhvern stórfelldan skóg við landnám eru ýktar. Birkitré hafa vissulega vaxið hér og verið stærri og fallegri en þær hríslur sem við eigum að venjast, enda þá veðurfar nokkuð hagstæðara en nú og hafði verið svo um nokkurt skeið.
Þú segir að birkið þurfi ekki nema 8 gráðu hita til að fjölga sér. Ekki þekki ég það. Hitt veit ég af eigin raun að á árunum 1970 til 1980 fór birkiskógur mjög höllum fæti. Man bara ekki hversu hár lofthiti var þau sumur, því miður. Hitt er líka skjalfest að ár eftir ár, undir lok litlu ísaldar, þ.e. undir lok 19. aldar og fyrstu ár þeirrar 20. voru sumur svo köld að ekki óx nokkur gróður af viti. Hafís lagðist að landinu, stundum hringinn kringum það, svo kuldar voru einstaklega miklir. Af þeim sökum flúði fjórðungur þjóðarinnar land og víst að landið hefði lagst í algert eyði ef ekki hefði tekið að hlýna aftur.
Svo merkilegt sem það er, þá er einmitt þessi síðasti hluti litlu ísaldar notuð sem viðmið um hvert hitastig jarðar eigi að vera. Allir keppast að því að finna misvitrar aðferðir til að færa hitastig sem næst því tímabili, hvort sem það er að kasta tréflís í sjóinn, sturta vítissóda í Hvalfjörðinn, dæla miklu magni af einhverju glundri niður í jörðina eða reisa örplastverksmiðjur á hvern hól. Því heimskulegra, því betra.
Hvers vegna ekki bara að bíða þar til kólnar aftur? Það mun örugglega gerast, bara spurning hversu mikið. Er ekki viss um að íslenska þjóðin myndi lifa af kuldatímabil eins og var síðustu ár litlu ísaldar, hvað þá að fá slíkt kuldatímabil í nokkrar aldir. Lítið yrði þá um raforkuframleiðslu og spurning hversu lengi hitaveitur gætu gengið, þar sem þeirra nýtur. Aðföng sjóleiðina yrðu einungis að sumri til, þ.e þegar það væri hægt.
Ef það er afneitun að skoða söguna og spá í hana skal ég glaður kallast afneitunarsinni. Hins vegar er í mínum huga frekar þeir sem ekki vilja skoða söguna og ekki vilja læra, afneitunarsinnar.
Gunnar Heiðarsson, 1.4.2025 kl. 11:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.