Vanhæf sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar

Transition Labs (TL) er alþjóðlegt fyrirtæki. Þetta fyrirtæki á aftur nokkur undirfyrirtæki sem sinnir ýmsum störfum. Þau sem við kannski þekkjum best, af þeim fyrirtækjum sem TL á eru Runnig Tide (RT) og Röst auk minna þekkts fyrirtækis er nefnist Transition Park og er það sagt í sameign með Akranesbæ.

RT þekkja flestir, enda saga þess hreint með ólíkindum. Óþarfi er að tíunda þá sorgarsögu hér. Transition Park er aftur eitthvað sem fæstir þekkja og spurning hvort það tengis sorgarsögu RT eða hvort það er angi af Röst.

Þessi pistill er aftur fyrst og fremst um Röst og áætlanir þess til að dæla vítissóda í Hvalfjörðinn.

Ekki kemur fram á heimasíðum TL eða Rastar hvenær Röst var stofnuð en með nokkurri leit má sjá að fyrstu fréttir í fjölmiðlum af því fyrirtæki eru þegar tilkynning um ráðningu forstjóra þess kemur fram, eða undir lok febrúar 2024, fyrir rétt rúmu ári síðan.

Litlar fréttir eru af þessu fyrirtæki framanaf, en þó einhverjar. Það er ekki fyrr en grein um áætlanir þessa fyrirtækis kemur í blöðin, skrifuð af leigutaka Laxár í Kjós, sem alþjóð fær að vita um hvað málið snýst. Að menga eigi Hvalfjörðinn með vítissóda.

Saga þessa fyrirtækis, þó stutt sé, er hreint með ólíkindum og sýnir vel hvernig fyrirtæki vinna sem ætla að gera eitthvað sem ekki getur með nokkru móti talist eðlilegt eða skynssamlegt. 

Forstjórinn er sóttur til Landverndar, oddvita Hvalfjarðarsveitar er boðin stóll í stjórn Rastar og það fyrirtæki sem á að standa vörð um hafsvæðin okkar og hafa eftirlit með að því sé ekki ógnað, er keypt til að gera umhverfismat um málið. Þannig telur fyrirtækið sig vera búið að binda alla þá enda sem hugsanlega gætu raknað upp í þeirra áætlunum. Sennilega lært eitthvað af RT ævintýrinu.

Þann 24. apríl 2024, er lagt fram erindi til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá TL um boð til setu í stjórn Rastar. Ekki kemur fram í erindi TL að dæla eigi vítissóda í Hvalfjörðinn, einungis talað um að basa, sem vissulega er fallegra orð á sama hlut. Ekki er víst að allir hafi kveikt á hvað þarna var raunverulega verið að tala um. Alla vega var samþykkt samhljóða tillaga oddvitans um að tilnefna sjálfa sig í stjórn Rastar. Þar með er sveitarstjórnin búin aðð gera sig vanhæfa til að fjalla frekar um málefni Rastar eða ætlanir þess fyrirtækis.

Næst er rætt um þetta fyrirtæki á vettvangi sveitarstjórnar þann 26. febrúar 2025. Þar er tekið fyrir umsagnarbeiðni um leyfisveitingu utanríkisráðuneytisins til Rastar á rannsóknarleyfi. Sem fyrr er sveitarstjórn samhljóða um þá leyfisveitingu. En nú vanhæf.

Hafrannsóknarstofnun er sú stofnun sem á að sjá til þess að verja hafsvæðið umhverfis landið okkar, vera eftirlitsaðili með að því sé ekki ógnað. Eftir sem áður gerði það tilboð í rannsóknir á Hvalfirðinum, fyrir einkafyrirtækið Röst. Fyrir lá hverjar hugmyndir fyrirtækisins voru og rannsóknin miðaði að því. Röst segist hafa "valið" Hafró til verksins, en auðvitað var það gert til að losna undan afskiptum þeirra á síðari stigum. Fyrir þessa keyptu skýrslu fékk Hafró greitt 100 milljónir króna, í tvennu lagi. Eftir gerð skýrslunnar réði Röst starfsmann frá Hafró til sín.

Þarna er Hafrannsóknarstofnum einnig búið að gera sig vanhæft til að fjalla um málið, fyrst með því að taka að sér þessar rannsóknir, en ekki síður fyrir að taka háar fjárhæðir fyrir vikið.

En um hvað snúast þessar svokölluðu rannsóknir og hvers vegna hér á landi?

Röst ber því við að Hvalfjörðurinn henti sérstaklega vel til verksins vegna strauma og lífríkis. Rannsóknin á að fara fram innst í firðinum, þar sem straumur er einna minnstur. Hvað lífríkið varðar þá er hellst að sjá að tilraunin snúist um hversu mikið af því skaðist við losun vítisódans. Þessi rök halda því vart miðað við að sagt er að þetta muni ekki hafa nein áhrif á lífríkið og straumur nánast enginn innst í firðinum. Auðvitað hefði verið hægt að gera þessa tilraun hvar sem er í heiminum, en ekki víst að kostnaður við að kaupa velvildina og leyfin væru jafn ódýr og hér. Þægilegir stólar og 100 milljónir myndu duga skammt ytra.

Um sjálfa rannsóknina er erfitt að ráða. Fyrstu tölur sem nefndar voru sögðu okkur að sleppa ætti allt að 30 tonnum af 4,5% vítissódablöndu, eða um 1,35 tonni af hreinum vítissóda. Nú er rætt um 200 tonn af 4,5% vítissódablöndu, eða um 9 tonnum af hreinum vítissóda! Hvað verður þegar á hólminn er komið er enn óvitað.

Kannski gerir fólk sér ekki grein fyrir þessu magni, en svona til að setja það í smá samhengi þá er um að ræða sem svarar um 20 olíubílum fullum af blönduðum vítissóda eða sem svarar 15 áburðapokum af hreinum vítissóda. Þetta magn er því líkt að ekki er með nokkru móti hægt að fullyrða að það hafi ekki áhrif á lífríkið, reyndar nokkuð víst að stór skaði mun hljótast af.

Röst setur nokkurn varnagla fyrir þessu á heimasíðu sinni. Þar er sagt að magnið sem á að sleppa af vítissódanum í fjörðinn sé talið fyrir neðan þau mörk að það hafi áhrif á lífríkið. Það er ekki fullyrt heldur talið. Það er semsagt ekki vitað - ennþá.

Einnig kemur fram á heimasíðu Rastar að fyrirtækið sjálft ætli að sjá um vöktun, meðan rannsókn fer fram og eftir hana. Því mun sein fréttast ef eitthvað fer úrskeiðis og svo þegar skelfingin uppgötvast er bar hægt að segja   "sorrý".

Það sem eftir stendur er að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar er með öllu vanhæf til að fjalla um mál Rastar. Þar veldur sú ótrúlega heimska sveitarstjórnar að samþykkja setu oddvita í stjórn fyrirtækisins.

Náttúrunni verður ekki bjargað með því að eyða henni.

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og tólf?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband