Íslenskur her
17.3.2025 | 13:41
Umræða um stofnun hers hér á landi hefur verið nokkuð mikil síðustu daga og nú farið að tala um íslenska leyniþjónustu. Þetta er svo sem ekki ný umræða, alltaf verið til aðdáendur James Bond og Pattons hér.
Það sem er hinsvegar nýtt núna er að ráðamenn okkar eru farnir að gefa þessari umræðu undir fótinn og auðvitað gripa haukarnir gæsina. Fyrir nokkrum árum impraði þáverandi ráðherra sjalla á þessari hugmynd og allt ætlaði um koll að keyra í fjölmiðlum. Nú eru viðbrögðin önnur, enda sjallar fjarri góðu gamni. Nú eru flokkar sem eru vinveittir fjölmiðlum við stjórn. Þá er allt í lagi að tala um her og leyniþjónustu.
Meðan við getum ekki rekið Landhelgisgæsluna með sóma er tilgangslaust að tala um stofnun hers. Meðan við getum ekki rekið heilsugæsluna með sóma, er tilgangslaust að ræða stofnun hers. Meðan unglingar útskrifast úr skyldunámi án þess að vera skrifandi eða læs, er til lítils að ræða stofnun hers.
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að við erum svo fámenn þjóð að jafnvel þó allir vinnandi menn væru teknir úr verðmætasköpun, til að sinna hergæslu, væri sá her svo lítill að hann næði ekki stærð minnsta herfylkis þeirra landa sem minnstan her hafa. Og ef ætti að manna leyniþjónustu með hæfu menntuðu fólki, mun geta okkar til að mennta ungmenni landsins verða enn minni og má það nú ekki minna vera.
Frá síðari heimstyrjöldinni höfum við verið undir verndarvæng annarra þjóða, þegar að vörnum landsins kemur, lengst af verndarvæng Bandaríkjanna en hin síðari ár einnig annarra Nato ríkja. Við eigum að efla þau samskipti, bæði til austurs sem vesturs. Þó nú um stundir sé ruglað gamalmenni við stjórn í vestri og hart unnið að eyðingu vinaþjóða okkar í austri, er það tímabundið ástand. Því mun ljúka. Við megum ekki láta einhverja eina eða tvær persónur, með völd til skamms tíma, skemma þá vináttu.
Okkar hlutverk ætti frekar að vera að bera klæði á þær tímabundnu deilur. Að vinna að því að Evrópa og Bandaríkin nái aftur saman. Þannig tryggjum við okkar varnir best.
Hitt er svo annað mál að Landhelgisgæsluna þarf að efla, rétt eins og heilsugæsluna og menntakerfið. Meðan við vorum fátæk þjóð gátum við rekið öfluga Landhelgisgæslu, með mörgum skipum, við vorum með sjúkrahús um landið þvert og endilangt og börnin okkar komu læs og skrifandi úr skyldunámi. Hvers vegna ekki núna, þegar þjóðin er margfalt auðugri?
Við höfum hins vegar ekkert við her að gera, höfum ekki efni á að reka slíka peningabræðslu og eigum ekki mannskap til að fórna í slíka endaleysu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Löggæsla, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning