Vindorkuver í Fljótsdalshreppi

Til umsagnar hjá skipulagsstofnun er matsáætlun um vindorkuver í Fljótsdalshreppi.

Mat þetta er á margan hátt illa unnið og í sumum tilfellum rangt. Þá er staðreyndum hnikað svo áhrif vindorkuversins geti talist minni en þau í raun eru. Ekki er tekið á öllum þáttum sem fylgja vindorkuverum.

Þarna er áætlað að byggja vindorkuver með 50 vindtúrbínum, hverri með allt að 7 MW uppsett afl, samtals uppsett afl upp á 350 MW.  Hæð hverrar vindtúrbínu er sögð um 200 metrar miðað við spaða í efstu stöðu. Því er ljóst að sjónmengun mun verða töluverð. Í skýrslunni er hins vegar gert lítið úr þessari sjónmengun og einna líkast að matið hafi farið fram bak við tré. Þó verður að segja að erfiðara er að átta sig á að á Egilsstaðaflugvelli, þar sem einn matsstaður sjónmengunar er, skuli sjónmengun vera talin lítilsháttar. Á milli vindorkuversins og þess staðar eru engin tré, einungis fallegur Lögurinn. Fleira má nefna í þessum dúr, þar sem minna er gert úr áhrifum en raun verður, enda stór hluti skýrslunnar lagður undir þetta atriði. Þá er haldið þeim möguleika að hægt verði að auka afl vindorkuversins upp í 500 MW. Ekki sagt með hvaða hætti en þar koma tveir möguleikar til. Annar er að fjölga túrbínum úr 50 í 72, eða að velja stærri túrbínur, með uppsettu afli upp á 10 MW. Þær eru auðvitað mun hærri og að öllu leyti umfangsmeiri. Þar sem þessi möguleiki er nefndur og miðað við að þetta verði innan þess virkjanasvæðis sem skýrslan fjallar um er ljóst að síðari kosturinn er líklegri. Hvor kosturinn sem valinn verður, þá er þessi skýrsla marklaus.

Á mynd 3.2 er klassísk fölsun á stærðarhlutföllum sett fram. Þar er teikning af vindtúrbínu, húsi fyrir safnstöð og bíl. Ef vindtúrbínan á þeirri mynd er 200 metra há, eins og skýrslan gerir ráð fyrir, er þetta einnar hæða hús um 8 metrar á hæð og bíllinn fyrir utan það3,5 metrar á hæð. Reyndar má ætla að hlutföllin séu enn skakkari, þar sem að á myndinni er hægt að sjá að húsið og bíllinn er nokkuð fjær en sjálf vindtúrbínan. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona rangfærslur eru settar fram, virðast frekar regla en undartekning.

Varðandi sjálfa framkvæmdina er ljóst að áætlanir um fjölda þungaflutninga er vanáætlaður, jafnvel þó hvert æki er talið geta orðið allt að 150 tonn. Ekki er tiltekið hversu miklir flutningar verða vegna steypu í undirstöður, einungis að þær muni verða um 600 m2 undir hverja vindtúrbínu. Samkvæmt heimasíðum vindtúrbínuframleiðenda þarf sökkullinn að vera að minnsta kosti 4 metra djúpur, fyrir túrbínur af þessari stærð. Það gerir því 2000 m3, eða 5000 tonn af steypu undir hverja túrbínu. Þetta segir að það fara um 16,600 steypubílar, einungis í undirstöðurnar. Akstur þeirra má auðvitað takmarka með því að setja upp steypustöð á svæði, þó ekki sé minnst á þá lausn, en engu að síður þarf þá að aka hráefnum að þeirri stöð. Þannig mætti minnka það magn sem þarf að aka á svæðið úr 250.000 tonnum niður í 200,000 tonn, vegna steypunnar. En þessi kostur er ekki nefndur í skýrslunni.

Það er því ljóst að gífurlegir þungaflutningar munu liggja inn veg 931, sem er einungis sveitavegur. Hann er fjarri því að bera þennan þunga, reyndar engir vegir á Ísandi færir um það. Því þarf, ef þessi framkvæmd á að geta orðið, að endurbyggja veg 931 frá grunni. Hver á að gera það? Vegagerðin? Á að taka fé úr sveltandi ríkissjóð til að hægt sé að reisa vindorkuver sem liggur fyrir að muni aldrei getað borgað sig? Lítið er um þetta rætt í skýrslunni, einungis talað um að gera þurfi mat á því hvort vegurinn geti borið þessa umferð. Það má spara þann pening, það er víðs fjarri að að sá vegur geti borið þann þunga sem talað er um eða þá miklu umferð sem tengist þessari framkvæmd.

Í skýrslunni kemur fram að orkan sem þetta vindorkuver er ætlað að framleiða er ætluð til framleiðslu á rafeldsneyti. Sú verksmiðja þarf 250 MW stöðuga orku. Hvaðan á sú orka að koma, þegar rómaða lognið leggst yfir Fljótsdalinn? Ekki getur Fjarðarál verið stuðpúði fyrir það ástand og ekki er nein umframorka til í kerfinu. Því verður væntanlega að virkja vatnsorku einhversstaða svo þessi verksmiðja geti orðið að veruleika. Sú virkjun verður að getað skaffað a.m.k. 250 Mw. Engu breytir að fjölga vindtúrbínum á fljótsdalnum, sama hversu margar þær verða eða stórar. Þær stoppa allar ef ekki blæs! Það er eiginlega óskiljanlegt að einhverjum detti til hugar að ætla að byggja verksmiðju sem rekin verður á ótryggri orku. Þarna hlýtur eitthvað annað að búa að baki.

Lítið er rætt um áhrif vindorkuversins á dyralíf á svæðinu, einungis sagt að skoða þurfi betur þá þætti. Það hefði kannski verið betra að einmitt þeir þættir hefðu verið skoðaðir vandlega, áður en þessi skýrsla er lögð fram. En sennilega treysta verkkaupar skýrslunnar á að svo langt verði komið í ferlinu, þegar loks verður séð hver þau áhrif verða, að ekki verði aftur snúið. Það ætti ekki að vera mikið mál að afla upplýsinga erlendis frá um þessi áhrif. Það er t.d. vitað að það féll dómur í Noregi um loka skyldi vindorkuveri vegna áhrifa þess á hreindýr. Þá er einnig vitað að vilt dýr forðast að vera í nálægð vindorkuvera, einkum vegna lágtíðnihljóða frá þeim, hljóða sem mannseyrað nemur ekki en fjöldi annarra dýra er berstrípuð fyrir.

Það sem ekki er sagt.

Nýlega varð slys í nýlegri vindtúrbínu í Noregi. Gírkassinn tók að leka og fóru um 450 l af olíu niður í arðveginn. Hvernig er okkar viðkvæma náttúra, þar sem gróður berst við náttúruöflin, í stakk sett til að takast á við slíka ábót? Staðreyndin er að spaðar vindtúrbínu er látnir snúast sem næst 15 hringjum á mínútu. Þessu er stýrt með skurði blaðanna og ef vindur fer yfir ákveðin mörk er túrbínan stöðvuð. Þetta virðist ekki mikið, en þegar spaðarnir eru orðnir yfir 80 metrar á lengd er hraði þeirra við ytri enda orðinn geigvænlegur. En rafallinn þarf að ná a.m.k. 1800 snúningum á mínútu. Til að það sé gerlegt er notast við risastóra gírkassa, sem auka hraðann frá spöðum að rafal. Þessir gírkassar þurfa olíu og skipta þarf þeirri olíu út reglulega. Ef slys verður, annað hvort við skipti á olíunni eða ef gírkassinn sjálfur fer að leka, sér lögmál Newtons um hvert olían fer. Þá má ekki gleyma því að í hverri vindtúrbínu er spennir og hann þarf einnig olíu. Vandinn við þá olíu er að hún getur orðið geislavirk. Það er því ljóst að olíumengun frá vindtúrbínum er til, reyndar nokkuð algeng. Ekkert er minnst á þetta í skýrslunni.

SF6 gas, eða Sulfur hexafluoride, er gas sem er notað til kælingar á rofum í vindtúrbínum. Frá því vindorkuverum tók að fjölga verulega í Þýskalandi hefur orðið töluverð hækkun á mældu gildi þessarar gastegundar þar. SF6 gas er talið 26000 sinnum öflugri gróðurhúsagastegund en t.d. lífsandi okkar, Co2. Auk þess er endingatími SF6 einhver þúsund ár. Það er ekki neitt talað um þetta í skýrslunni, hvorki sjálfan vandann né hvort til standi að vakta þessi gildi. Reyndar er vöktun svo sem ekki neitt annað en að vitneskja um að skaðinn er skeður, kannski betra að láta hann ekki verða.

Nefndi áður lágtíðnihljóð frá vindorkuverum. Rannsóknir sýna að það hefur ekki einungis áhrif á þær skepnur sem heyra það, heldur getur það verið hættulegt mannskepnunni einnig. Áhrif þess hafa mælst um 15 km frá orkuveri. Þetta er orðið mikið vandamál t.d. í Hollandi, þar sem fólk er farið að flýja hýbýli sín. Ekkert er minnst á þetta í skýrslunni.

Það sem þó kemur mest á óvart er að hvergi er minnst á örplastmengun frá vindtúrbínum. Sumir reyna að gera lítið úr þeirri mengun en í þessari skýrslu er hún ekki nefnd. Örplastmengun er einhver hættulegasta mengun sem herjar nú á heimsbyggðina. Af þeirri ástæðu var t.d. skylda að festa alla plasttappa við flöskur og fernur, svo þeir skiluðu sér aftur í endurvinnslu. Spaðar vindtúrbína er að mestu gerðir úr trefjaplasti, þ.e. glertrefjar eru bundnar saman með epoxy plasti og húðaðar með sérstakri plasthúð. Þetta plast eyðist af með tímanum, misjafnt eftir veðurálagi, uns komið er inn í glertrefjarnar. Reynslan erlendis er að þetta taki kringum 10 ár, en þá er spöðum skipt út fyrir nýja. Einhver misskilningur er að glertrefjarnar séu hættulegastar. Vissulega eru þær hættulegar meðan þær eru enn glertrefjar, en síðna brotna þær niður og verða að sinni upphaflegu mynd, sandi. Það er hins vegar epoxyið og varnarlagið sem er hættulegt. Það er pjúra plast og trosnar af sem ósýnileg mengun er fellur ekki bara næst vindorkuverinu, heldur getur fokið langan veg uns það lendir. Þar fer það inn í flóruna, samlagast vatninu og skepnur og menn innbyrða það með ófyrirséðum afleiðingum.

Það verður alltaf ljósara og ljósara hversu mikill skaðvaldur vindorkuver eru fyrir náttúruna. Sjónmengun er auðvitað hlutlæg en hefur sannarlega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu. Fasteignaverð lækkar þar sem slík orkuver rísa og fleira má nefna er tengist sjónmenguninni.  Olíumengun er eitthvað sem menn setja ekki í samhengi við vindorkuver, en er þó töluverð í þeim bransa. SF6 mengun er einhver hættulegasta mengun fyrir andrúmsloftið og ekki nein leið að sjá fyrir endann á henni. Örplastmengun er einhver mesta vá er mannkynið stendur frammi fyrir og miklir fjármunir lagðir til að reyna að vinna bug á henni. Ekkert er þó öflugra að vinna gegn okkur á því sviði en einmitt vindorkan. Ekki einungis meðan spaðar eru í notkun, heldur ekki síður þegar þeim er fargað. Ekki hefur fundist raunhæf leið til endurvinnslu þeirra. Allar þær leiðir sem reyndar hafa verið byggja á enn meiri mengun, bara á öðrum sviðum. Því hefur sú leið verið valin að urða þá, þar sem plastið úr þeim leysis smám saman upp og verður að örplasti sem fer inn í lífskeðju heimsins.

Því má segja að fáar ef nokkra aðferðir til að vinna raforku sé jörðinni skaðlegri en vindorka og kannski réttnefni að tala um örplastverksmiðjur.

 

Við björgum ekki náttúrunni með því að fórna henni!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Már Bragason

Takk fyrir góða samantekt um þessa skaðræðisgripi.

Það eru sumir sem halda að hægt sé að taka þetta niður og endurheimta landslag. Nægir í því samhengi að sé keyra Fagradal þá má auðveldlega sjá gömlu vegstæðin.

Hvernig sér þetta fólki ekki að búið er að rústa landinu þar sem þessi óskapnaður er settur niður?

Rúnar Már Bragason, 26.10.2024 kl. 21:05

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Rúnar

Ég sendi þennan texta sem athugasemd til skipulagsstofnunar sem athugasemd við matsáætlunina.

Gunnar Heiðarsson, 26.10.2024 kl. 21:55

3 Smámynd: Júlíus Valsson

"Það gerir því 2000 m3, eða 5000 tonn af steypu undir hverja túrbínu. Þetta segir að það fara um 16,600 steypubílar, einungis í undirstöðurnar." Þetta er hryðjuverk gegn íslenskri náttúru. Nú þurfa menn að vera duglegir að mótmæla í Skipulagsgátt: https://skipulagsgatt.is/issues/2024/1259

Júlíus Valsson, 27.10.2024 kl. 10:08

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Frábær pistill Gunnar og vel rökstuddur.

Skyldi hann vera lesin af þeim sem taka endanlega ákvörðun.?

Eða er þetta eins og allt á Íslandi bara sýndarmennska því

búið er að ákveða þetta fyrirfram..?

Kemur ekkert á óvart miðað við spillinguna sem allt

er hér á landi að drepa.

Sigurður Kristján Hjaltested, 27.10.2024 kl. 17:13

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er spurning Sigurður. Hef verið nokkuð iðinn við að senda inn umsagnir til Skipulagsstofnunar, undan farin misseri. Fæ alltaf svar strax um að umsögnin hafi verið móttekin og gefin málsnúmer. Því lofað að öllum umsögnum verði svarað eftir að búið er að fara yfir þær. En síðan ekki söguna meir.

Hvort það er vegna þess að neikvæðum umsögnum sé kastað strax í ruslafötuna, einungis afgreiddar þær jákvæðu. Að þegar sé búið að ákveða niðurstöðuna, veit ég ekki.

Mun þó halda þessu áfram.

Gunnar Heiðarsson, 27.10.2024 kl. 18:13

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta er góð samantakt. Láttu mig vita ef ég á að reyna af veikum mætti að vekja athygli blaðamanna á þessum skrifum.

geirag 'hjá' gmail.com

Geir Ágústsson, 27.10.2024 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband