Höfum við tapað stríðinu?
28.6.2024 | 17:45
Hver orrustan af annarri tapast, hjá okkur sem berjumst gegn áformum um vindorku á landinu okkar fagra.
Nú er orðið ljóst að Landsvirkjun ætlar að ríða á vaðið í eyðingu landsins, með vindorkuveri sem á að telja 30 vindtúrbínur. Staðsetningin er ekki af verri endanum, við innganginn að hálendinu þar sem ferðamenn sækja í að skoða ósnortna náttúru og hinar fögru víðáttur. Ekki víst að erlendu ferðafólki hugnist að sækja okkur heim þegar þeirri upplifun hefur verið eytt.
En, sem sagt, Landsvirkjun ætlar að reisa þarna 30 túrbínur. Segir hæð þeirra verða um 100 metrar á hæð, en tekur þó skýrt fram að það eigi hugsanlega eftir að breytast. Nú er vitað hverjar væntingar fyrirtækisins til orkuöflunar þessa vindorkuvers eru og samkvæmt því þarf hver vindtúrbína að hafa uppsett afl sem svarar a.m.k. 4MW. Ef skoðaðar eru heimasíður framleiðenda þessara mannvirkja kemur hins vegar í ljós að vindtúrbína með uppsett afl 3,6-4,2MW er nokkuð hærri en 100 metrar á hæð, reyndar töluvert hærri. 150 metrar eru nærri lagi, svo uppfylla megi vænta orkuframleiðslu hverrar þeirra. Þá á eftir að taka inn í reikninginn rekstrartími þessara túrbína. Hann stjórnast ekki bara af vindi heldur spilar viðhald þar einnig stórt inní. Við bestu aðstæður, meðan vindtúrbínur eru tiltölulega nýjar, má kannski gera ráð fyrir um 50% rekstrartíma, en það hlutfall lækkar skart eftir því sem líður á líftíma þeirra. Hávaðinn frá slíkum mannvirkjum er sagður jafngilda hávað frá þyrluflugi. Munurinn þó sá að þyrlan flýgur hjá en vindtúrbínan stendur kyrr með stögum hávaða.
Að segja opinberlega að þessi mannvirki verði "einungis" um 100 metra há, er því vísvitandi lygi!
Eftir að Landsvirkjun hefur byggt sitt vindorkuver verður erfiðara að standa gegn öðrum aðilum er vilja reisa hér slíkan óskapnað. Og ekki er vöntun á þeim. Eina skilyrðið er að viðkomandi fyrirtæki sé skráð innan ESB/EES ríkis. Annað þarf ekki til. Þá hafa þau jafnan rétt til að eyðileggja land okkar og Landsvirkjun og þar getur Alþingi ekkert sagt eða gert. Reyni stjórnvöld eða Alþing að setja sig gegn þeim vilja fyrirtækjanna, mun ACER úrskurða um málið. Sá úrskurður getur aldrei orðið nema á einn veg. Það er því ákvörðun sem tekin er í Lubljana í Slóveníu sem gildir!
En það er ekki bara landið okkar sem er undir, landgrunnið allt er komið til skoðunar. Þar eru reyndar Bretar sem mestan áhuga hafa, vilja gera Ísland að orkubanka fyrir sjálfa sig. Hvort Alþingi fái einhverju ráðið um þær áætlanir er svo spurning. Ekki þarf annað til en að skrá fyrirtækin í einhverju landi ESB/EES og þá verður Bretum þar allir vegir færir.
Einn er sá þáttur þessara fyrirætlana allra sem gæti sett strik í reikninginn, en það eru sveitarfélög landsins. Þau hafa skipulagsvaldið. Því miður virðist auðvelt að kaupa stjórnir þeirra til fylgilags. En þar er þó okkar eina von úr þessu, þó veik sé.
Sveitarstjórnir eru einstaklega sveigjanleg ef erlendir aðilar sækja þær heim. Kikna í hnjánum fyrir þessum erlendu mikilmennum. Ef ég vil byggja mér smá garðhýsi í garðinum mínum má það að hámarki vera 2,5 metrar í hæsta punkt og ef mannvirkið mikla er nær lóðamörkum en 3 metrar, þarf skriflegt samþykki frá nágranna og skiptir þar engu þó sá nágranni sé í öðru sveitarfélagi. Skriflegt samþykki SKAL liggja fyrir, alltaf!
Hins vegar hafa sum sveitarstjórnir leyft sér að skipuleggja vindorkuver með vindtúrbínum nærri 200 metrum háar á lóðamörkum bænda, án þess að þeir fái þar eitthvað um að segja og ef viðkomandi bóndi er í öðru sveitarfélagi er hann ekki einu sinni virtur viðlits. Sagt að þetta komi honum bara alls ekkert við! Svolítið undarleg stjórnsýsla. Í byggingareglugerð, sem á að ná yfir allar byggingar í Íslandi kemur skýrt fram að allar framkvæmdir skuli fá grenndarkynningu, utan smáhýsi sem eru innan við 2,5 metra há og fjær lóðamörkum en 3 metrar. Allar aðrar framkvæmdir þurfa skriflegt samþykki nágranna. Engar undantekningar eru á þessu í reglugerðinni, utan þess er áður er sagt.
Því verður maður svolítið sorgmætur. Ekki einungis eru sum sveitarfélög einstaklega eftirlát erlendum öflum, heldur virðast þau ekki hika við að brjóta þær reglugerðir er þeim er ætlað að starfa eftir, til þóknunar þessum öflum. Og um leið og eitt sveitarfélag kemst upp með slík brot er víst að erfitt verður fyrir önnur að standa í lappirnar.
Því er svo að sjá að stríðið sé tapað, að lokaorrustan hafi þegar farið fram. Reyndar má segja að þetta stríð hafi tapast fyrir nokkru, eða þegar Alþingi samþykkti orkupakka3, jafnvel enn fyrr, eða þegar Alþingi gekkst að því að orkan okkar væri vara og þannig hluti af EES samningi. Þar voru fyrstu mistökin gerð en þau síðan fest enn frekar í sessi með samþykkt op2 og svo endanlega með samþykkt op3. Orkupakki 4, sem Alþingi hefur ekki enn samþykkt liggur á borðinu. Reyndar áhöld um hvort yfir höfuð þurfi að samþykkja hann, þar sem hann hafði þegar tekið gildi innan ESB er Alþingi samþykkt op3. ACER starfar samkvæmt op4 og getur ekki annað og Ísland samþykkti op3 sem fjallar einmitt um að ACER skuli hafa endanlegt vald um öll orkumál. Vissulega eigum við orkuna okkar enn, en ráðum í raun litlu um hana.
Orkan okkar er ekki vara. Vara er eitthvað sem hægt er að höndla. Orkan okkar er hluti innviða landsins okkar. Því átti orkan okkar aldrei neitt erindi inn í EES samninginn. Þessu má enn breyta. En til þess þarf kjark, kjark sem ekki er til staðar á Alþingi í dag.
Maður spyr sig; hvers vegna var barist fyrir sjálfstæði landsins ef við síðan afhendum erlendum öflum yfirráð yfir gullkistu okkar? Hver vegna var barist við Breta um landhelgi okkar, ef við síðan ætlum að færa þeim landgrunnið á silfurfati?
Það sorglega við þetta allt er að þeir tveir stjórnmálaflokkar sem stofnaðir voru fyrir tíma sjálfstæðisins, standa að því að fórna landi okkar á altari Mammons!! Að það skuli vera sömu flokkar og áttu stærstan þátt í að við fengjum sjálfstæði, skuli vinna harðast að því að fórna því!!
Náttúra okkar er einstök. Erlendir ferðamenn sækja okkur heim til að njóta þess að skoða perlurnar okkar. Þetta hefur gefið okkur gjaldeyri, gjaldeyri sem við getum síðan eytt í ferðir til erlendra landa. Eftirspurn byggir alfarið á náttúru okkar. Verði af þeim vindorkuverum sem áætlað er að byggja, mun sú eftirspurn ekki lengur verða til staðar.
Þegar hefur verið tekin ákvörðun um að eyðileggja inngönguna inn á hálendið, með vindorkuveri við Búrfell. Þangað mun færri sækja. Enginn un hafa áhuga á að ganga á Grábrók, ef hvínandi vindorkuver verða komin þar umhverfis, bæði í austri og norðri. Stuðlagil og hálendið norðan Vatnajökuls verður lítt eftirsóknarvert ef áform um byggingu vindorkuvers á Fljótsdalsheiði raungerist. Hin mikla gróska í ferðaþjónustu og fuglaskoðun í Meðallandinu mun hverfa, verði af áætlunum um vindorkuver í landi Grímsstaða. Reyndar mun sú virkjum hafa enn víðtækari áhrif, sökum þess flatlendis sem þar er. Hið einstaka fuglalíf Breiðafjarðar mun verða fyrir miklum áföllum, verði af öllum virkjanaáformum fyrir botni hans. Svona má lengi telja. Jafnvel verður ekki eins gaman að ganga um götur Reykjavíkur, ef vindorkuver verður reyst á Hólmsheiðinni.
Það er viljandi verið að fórna náttúru okkar, fyrir skammvinnan gróða örfárra erlendra aðila. Eftir sitjum við svo með land sem er mengað af örplasti, geislavirkri olíu og ónýtum vindorkuverum. Mannvirkin munu síðan grotna hægt og rólega niður, því ekki höfum við peninga til að rífa þau og erlendu peningapungarnir flognir burtu. Allir steypuhnallarnir sem mynda undirstöður undir þessi mannvirki verða um aldir í jörðu hjá okkur.
Ef þjóðin lifir þetta af munu afkomendur okkar ræða þetta tímabil Íslandsögunnar sem það skelfilegasta af öllum. Móðharðindin verður sem hégómi í samanburðinum. Menn munu um aldir velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum þetta gat skeð, hvað hafi farið úrskeiðis. Hvers vegna í ósköpunum ekki var gripið í taumana meðan hægt var!!
Náttúruhamfarir eru eitt, hamfarir af mannavöldum allt annað og alvarlegra!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 17:55 | Facebook
Athugasemdir
Þeir sem vega og meta, ákvarðanir taka og ráða, eru víst ekki að taka mikið mark á ykkur stríðsmönnunum sem aðallega eru vopnaðir rangfærslum, ýkjum og bulli. Þið fræknu fótgönguliðar ranghugmyndana eru því dæmdir til ósigurs frá upphafi.
Vagn (IP-tala skráð) 28.6.2024 kl. 18:18
Rangfærslurnar eiga sér reyndar stað hjá andstæðingum okkar Vagn. Þarf ekki annað en að lesa hinar fjölmörgu skipulagstillögur sem komnar eru fram um vindorkuhugmyndir hér á landi. Skipulagstillögur sem eru samdar af verktökum þeirra er vilja virkja. Bera þær síðan saman við raunveruleikann. Hann liggur allt í kringum okkur. Þá má horfa til reynslu annarra þjóða varðandi vindorkuna, þjóða þar sem orkuverð er mun hærra en hér. Þar er allt að fara til fjandans, vegna þess að styrkjakerfið hefur ekki undan að greiða í hítina.
Gunnar Heiðarsson, 28.6.2024 kl. 21:43
Allar þessar hugmyndir um vindorkuver eru sorgleg og ótrúlegt að hugsa til þess að fólk sem mótmælti Kárahnjúkavirkjun skuli ekki láta í sér heyra. Skemmdir sem eru algerlega óafturkræfar þykja í lagi. Svo sorglegt að manni setur hljóðan.
Rúnar Már Bragason, 29.6.2024 kl. 01:35
Mjög góður pistill hjá þér,Gunnar.Íslensk stjórnvöld og sama hver er í stjórn virðast aldrei horfa til annars landa,sem hafa reynsluna,eða sérfræðinga innanlands.Ekkert hlustað á einn eða neinn.Hver mistökin og vitleysan afætur annarri. Innflytjenda og flóttafólks mál,borgar línan,Landeyjahöfn,rafbila og loftslags mál og svona má lengi telja áfram Allt er þetta á kostnað skattgreiðanda í landinu.
Haraldur G Borgfjörð, 29.6.2024 kl. 09:31
Hvað rekur ráðherra Sjálfstæðisflokksins til að haga sér þvert á almenna skynsemi og vilja fólksins í landinu? Þeim er andsk. sama þótt fylgið hrynji svo lengi sem þeir hanga enn við völd og geta keyrt í gegn frumvörp sem byggjast á því að afsala fullveldi þjóðarinnar til ESB svo sem fjölmiðlafrumvarpið, kolefnisgjaldið, þriðja orkupakkann og Bókun 35 við EES-samninginn. Er þetta hreinn undirlægjuháttur gagnvart ESB eða þröngir eiginhagsmunir og einkavinavæðing? Ég þekki mjög marga innmúraða sjálfstæðimenn en fæstir þeirra geta hugsað sér að kjósa XD í næstu kosningum. Undarlegur haugur!
Júlíus Valsson, 29.6.2024 kl. 15:03
Eitt stykki Þóríumver myndi leysa orkuvandann á landinu næstu hundrað árin. Kjörið að staðsetja það á grundartanga við hlið álversins. Og ég er ekki að grínast.
Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 30.6.2024 kl. 08:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.