Gjörningur um aðgerðaráætlun

Fjórir ráðherrar héldu einskonar gjörning í gær. Tilefnið var stiknun jarðar.

Tók mig til og horfði á myndband af sýningunni. Það tók nokkuð á og þurfti einbeitingu til að halda þræðinum, enda þarna saman komnir einhverjir leiðinlegustu ráðherrar landsins, þessa stundina. Ekki var ég þó miklu nær eftir boðskapinn, minnti nokkuð á fyrirtæki eitt sem nýlega hefur geispað golunni, bæði hér á landi sem og í heimalandi sínu (sjá myndband í frétt).

Kolefnislosun er gjarnan mæld miðað við höfðatölu hvers lands. Þessi mælikvarði er okkur Íslendingum mjög óhagstæður. Erum fámenn þjóð í stóru landi og ef landhelgin er talin með er yfirráðasvæði okkar gífurlega stórt. Þar sem verið er að tala um mengun á heimsvísu væri auðvitað eðlilegra að mæla hana við yfirráðasvæði hverrar þjóðar. En það er annað mál og kom auðvitað ekki fram í boðskap ráðherrana okkar.

Boðskapurinn er einfaldur; við skulum vera búin að minnka losun um 41% miðað við losun 2005 fyrir árið 2030, eða eftir sex ár. Og við eigum að verða kolefnishlutlaus tíu árum síðar. Kolefnishlutleysi næst auðvitað aldrei, eða við skulum vona ekki. Það myndi þíða dauða fyrir jörðina. Og sex ár er stuttur tími, rétt um eitt og hálft kjörtímabil. Kannski skilja stjórnmálamenn slíkan mælikvarða betur.

Nú eru komin fram um 200 markmið til að ná þessum áföngum, markmið sem reyndar eru mun færri þar sem svo virðist sem sum sömu markmið séu nokkuð oft endurnýtt og kannski sú endurnýting sem best gengur hjá okkur. Hvað um það, það vantar ekki hugmyndaflug ráðherrana. Enn tönglast á hlutum sem þegar hefur verið bent á að ekki gangi.

Nýir orkugjafar (vindorka ráðherranna), endurheimt votlendis og fleiri kunnugleg hugtök. Aukin skógrækt til bindingar á co2 og einhverjar aðrar ótilgreindar aðgerðir. Flísasleppingin Runnig Tide klikkaði reyndar, en sjálfsagt munu einhverjir erlendir aðilar koma með enn fráleitari hugmyndir. Og svo eru það auðvitað bændurnir okkar, þ.e. hinn hefðbundni landbúnaður. Hér eins og í Evrópu eru þeir taldir vera mestu umhverfissóðarnir og nánast réttdræpir.

Það var vægast sagt nokkuð ruglingslegt að hlusta á matvælaráðherra. Annað hvort hefur hún ekki hundsvit á þessum málum eða hún vísvitandi ruglar til þess eins að ná athygli. Hún ræddi prump og viðrekstur jórturdýranna og úrganginn frá þeim. Taldi þetta hina mestu vá, enda er þetta víst bráðhættulegt eiturefni sem kallast metangas. Í næstu setningu talaði hún um að endurheimta þurfi votlendi í enn stærra mæli en hingað til, svo minnka megi losun co2 í andrúmsloftið..

Endurheimt votlendis hefur að mestu verið lagt niður, enda ljóst að þar gæti Running Tide verið á góðum heimavelli. Mat á áhrifum landþurrkunar er ekki bara rangt, heldur kolrangt.

Áætluð áhrif hvers skurðar er metin allt að 75 metra til beggja átta. Flestir skurðir voru hins vegar grafnir með um 40 metra millibili eða minna, þannig að áhrifasvæði þeirra getur aldrei orðið meira en 20 metrar til hvorrar hliðar. Ef lengra bil var milli skurða, í blautu landi, náðu þeir ekki að þurrka upp alla spilduna á milli. Varð bleyta og stundum ófært tækjum um hana miðja. Þarna er fyrsta skekkjan og hún ekki neitt smáræði.

Í öðru lagi þá voru flestir skurðir grafnir fyrir 1980, eða fyrir um hálfum fimmta áratug síðan. Eftir þann tíma er skurðir einungis grafnir til að viðhalda eða endurnýja tún og akra.

Í þriðja lagi þá endast skurðir til þurrkunar votlendis ekki nema í mesta lagi tuttugu ár, nema hreinsað sé úr þeim reglulega. Því eru flestir skurðir sem ekki hafa beinan tilgang til ræktunar, orðnir fullir og því skaðlausir að þessi leyti.

Í fjórða lagi þá veldur það rask sem til verður við fyllingu skurða mikilli losun co2. Tekur sennilega mörg ár að jafna sig. Þá er erfitt og stundum ekki hægt að loka gömlum skurðum í votlendi, þar sem land er orðið svo blautt vegna gagnsleysis þessara skurða. Því hafa menn gripið til þess ráðs, í anda Running Tide, að velja skurði í vallendi til verksins. Þar endurheimtist ekki votlendi. Einungis lokað skurðum með tilheyrandi aukinni losun co2!

Í fimmta lagi þá er það svo að ef tækist að loka skurðum í votlendi og endurheimta það, þá mun aukast losun á co2 vegna rasksins en einnig mun þá stór aukast losun á metani, sem fyrst og fremst á sinn uppruna í votlendi! Þetta gas sem ráðherrann telur svo banvænt fyrir jörðina okkar! Þarna talar hún í kross og gerði það reyndar margítrekað á fundinum.

Í sjötta lagi er ljóst að þurrlendi gefur af sér meiri grænblöðunga og grænblöðungar eru ein afkastamesta jurt til ljóstillífunar. þ.e. að vinna kolefnið úr co2 og skila af sér súrefninu.

Eina markverða sem matvælaráðherra gaf frá sér var aukin áhersla á skógrækt. Ekki svo sem í fyrsta skipti sem ráðamenn nefna þetta og óvíst hvort efndir verða betri nú en áður. Skógrækt gerir landið fallegra og skjólsælla. Það er næg ástæða til að auka skógrækt, þó vissulega fara þurfi varlega á þessu sviði, a.m.k. meðan við erum og getum boðið erlendu ferðafólki til okkar. Það kemur ekki hingað til að skoða skóga.

Þar sem þessi fundur var bæði leiðinlegur og litlar upplýsingar að fá, fór ég að ráði umhverfisráðherra og skoðaði síðuna sem hann benti fólki á, co2.is Þvílík steypa sem þar birtist og þarf langan tíma til að komast gegnum þann frumskóg. Þvælt fram og til baka um akkúrat ekki neitt. Hver linkurinn af öðrum svo manni sundlaði. Þarna mátti þó finna einstakar tölur, svona innan um skrúðmælið. T.d. kemur fram að landnotkun losi mest, eða um 7757 þ.t.co2 ígildi. Næst kemur svo það sem kallast samfélagsleg losun, um 2762 þ.t.co2 ígildi og loks stóriðjan og flug um 2300 þ.t.co2 ígildi. Þetta gerir samtals um 12.824 þ.t.co2 ígildi. Eins og áður segir þá er losun vegna landnotkunar hressilega ofreiknuð. Hvort hinar tölurnar standast raunveruleikann skal ósagt látið. Hitt er ljóst að matvælaráðherra hefur miklar áhyggjur af sóðaskap landbúnaðarins. Ekki einungis vegna þessarar ofreiknuðu tölu vegna landnotkunar, heldur einnig vegna þeirra 618 þ.t.co2 ígildislosunar sem kemur fram í samfélagslosuninni. Væntanlega búið að umreikna prumpið og ropið yfir í co2 ígildi, þó það sé reyndar metan.

Ríkisstjórnin ætti að stökkva til og ráða til sín "sérfræðingana" sem misstu vinnuna hjá Running Tide. Þeir ættu ekki vandræðum með að redda þessu smámáli. Þeirra markmið var að bjarga heiminum svo varla mikið mál fyrir þá að redda nokkrum tonnum fyrir okkur Íslendinga. Gulli þekkir þá, gæti bara slegið á þráðinn.

Skelfilegast við þetta allt eru þó þær hugmyndir að leggja hér landið í rúst til að þjóna erlendum vindbarónum. Þetta kom ekki fram á fundinum en mátti skilja á viðtali við matvælaráðherra eftir fundinn. Við vitum að þar fara saman hagsmunir a.m.k. tveggja ráðherra ríkisstjórnarinnar og því spurning hver tilgangur þessarar sýningar var.

 


mbl.is Bjartsýnn á að ná loftslagsmarkmiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband