EES, hinn svarti samningur
27.1.2024 | 08:24
Nú virðist tíska að tala um gullhúðun EES laga og reglna, sem sá samningur gerir okkur skylt að taka upp frá ESB. Að þegar slíkar tilskipanir koma til samþykktar Alþingis sé búið að gera þær strangari en til stóð. Erfitt eða útilokað er fyrir þingmenn að fylgja eftir sínu lögskipaða eftirliti við upptöku þessara tilskipana, þar sem þær eru gjarnan afgreiddar á færibandi síðasta dag hvers þings. Því er auðvelt fyrir embættismenn, jafnvel án samþykkis ráðherra, að bæta í þessar tilskipanir. Eftir að viðkomandi ráðherra hefur síðan fengið tilskipun samþykkta, með þeim breytingum sem bætt var við, tekur hann gjarnan sumar reglugerðir og færir þær til "fagaðila" til frekari útlistunar. Oftar en ekki hefur viðkomandi "fagaðili" hag af því að gera reglugerðina enn þyngri.
Nú vilja ráðamenn breyta þessu, vilja að tilskipanir um lög og reglugerðir frá ESB séu teknar eins og þær eru gerðar í upphafi. Að ekki sé verið að bæta í þær hér á landi. Eina leiðin til þess er að hver tilskipun sé tekin til málefnalegrar umræðu á Alþingi, þar sem þingmönnum verði gert fært að sannreyna hvort íslenski textinn sé samhljóða þeim upphaflega. Það færi þá sennilega lítið fyrir öðrum störfum þingsins og landið enn stjórnlausara en það er og má þar vart á bæta.
Nú er það svo að oftar en ekki dettur einstaka þingmanni í hug að bera saman þessar tvær útgáfur, þá er samin er í Brussel og þá sem embættismenn kokka fyrir ráðherrann sinn, til fyrirlagningar þingsins. Þegar þeir benda á misræmið, nú eða hættuna við samþykkt viðkomandi laga eða reglugerða, er sá strax úthrópaður sem öfga hægrisinn, gamalmenni eða jafnvel enn ljótari orð notuð.
Hvernig á því stendur að einhverjum datt til hugar að kalla þessa svikastarfsemi gullhúðun er svo aftur sérstakt rannsóknarefni. Mun nær að tala um svertun eða kolun tilskipana frá ESB.
Þá mætti með sanni segja: EES, hinn svarti samningur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 08:26 | Facebook
Athugasemdir
Það eina sem er vitlaust hérna er vitleysan sem kemur frá þér um eitthvað sem þú augljóslega skilur ekki.
Það eru íslenskir ráðamenn sem eru að gera lög EES strangari en á að vera. Þá sérstaklega þingmenn og ráðherrar í framsóknarflokknum og sjálfstæðisflokknum. Þeir reyna að kenna öðrum um það sem þeir gera sjálfir.
Það er greinilega verið að veiða atkvæði með því að höfða til heimsku og þjóðernishyggju kjósenda sem eru hræddir við ekki neitt og vita ennþá minna um málefnið sem þeir eru hræddir við.
Jón Frímann Jónsson, 28.1.2024 kl. 05:52
Þú ert alveg ágætur Frímann minn.
Gunnar Heiðarsson, 28.1.2024 kl. 06:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.