Verðmæti eða verðmæti og siðleysi fjölmiðla
18.11.2023 | 09:40
Ég á engin nógu stór orð til hugganar Grindvíkingum.
Þó ekki hafi enn hafist gos á Reykjanesi er ljóst að þar hafa orðið miklar náttúruhamfarir, með tilheyrandi tjóni á mannvirkjum og innviðum. Margir eiga um sárt að binda, hafa tapað sínu heimili. Enn fleiri lifa í óvissu um framtíðina. Vita ekki hvort þeirra heimili mun einnig tapast, eða hvort yfirleitt verður aftur snúið í heimabæinn. Tap og missir eigna er skelfileg, enn verri er óvissan. Fyrir leikmann sem horfir þessa atburði úr fjarska, er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig Grindvíkingum líður. Mestu verðmætin, fólkið sjálft, hefur enn sloppið frá fjörtjóni og ber sannarlega að þakka það.
Sá sem fylgist með þessum hamförum úr fjarka á kannski auðveldara að meta hvernig til hefur tekist í stjórnun mála, vegna þessara skelfilegu atburða. Sem fyrr mæða verklegar athafnir mest á hjálparsveitum landsins. Stjórnunin er hins vegar í höndum stjórnvalda, með aðstoð frá Veðurstofunni og Almannavörnum. Verkleg stjórnun er í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum. Satt best að segja verður að segjast eins og er að þarna hafa hlutir þróast á misgóðan veg og hægt að gagnrýna margt. Ekki hjálparsveitarfólkið, það vinnur sína vinnu að alúð. Annað verður sagt um allar ákvarðanatökur og stjórnun.
Björgun verðmæta eru orð sem mikið heyrast í fréttum. En hvað eru verðmæti eða verðmætabjörgun? Peningaleg verðmæti eru mörgum ofarlega íhuga, en meiri verðmæti verður að telja persónulega hluti fólks, jafnvel þó lítið fengist fyrir þá á markaði. Minningar, myndir og hvað það sem tengir fólk við fortíðina eru mestu verðmætin og oftast ómetanleg. Járnarusl og annað, sem hægt er að fá peninga fyrir, má missa sig. Þau verðmæti er auðvelt að endurnýja.
Af aðgerðum stjórnvalda sést vel hvar hugur þeirra liggur, þegar að túlkun verðmæta kemur. Þar er aurinn metinn hærra en andinn. Fyrstu aðgerðir voru að byggja svokallaðan varnargarð um tvö einkafyrirtæki, sem hafa skilað eigendum góðum arði. Ekki er þó meiningin hjá stjórnvöldum að rukka eigendur þessara fyrirtækja um greiðslu á þessum framkvæmdum, heldur eigum við landsmenn að greiða þær. Það má ekki skerða arðgreiðslur fyrirtækjanna til sinna eigenda, eða spilar kannski þar inní að einn eigandi að öðru þessara fyrirtækja er gift ráðherra?
Þar næsta var að hleypa fyrirtækjum, nánast óheft, inn á hættusvæðið í Grindavík, til að bjarga veraldlegum eigum sínum. Þar fengu flutningabílar að athafa sig í tuga tali, við björgun á fiski og öðrum veraldlegum eigum fyrirtækjanna. Fyrirtækja sem einnig hafa verið drjúg í arðgreiðslum til sinna eigenda. Ekki var búið að bjarga málleysingjunum af svæðinu þegar flutningabílarnir birtust, í löngum lestum.
Íbúum var svo loks hleypt inn á svæðið í litlum skömmtum. Mátti dvelja þar örskamma stund, undir vökulum augum hjálparsveitarmanna. Þar var framkoman nokkuð önnur en við fyrirtækin. Enda lítil veraldleg verðmæti á flestum heimilum, þó kannski þau séu meiri hlutfallslega en hjá fyrirtækjunum. Andlegu verðmætin, þau sem tengja fólk við sínar rætur, eru hins vegar mikil. Þá hafa sumir fengið að heimsækja sín hús aftur og aftur, meðan aðrir fá ekki að koma nálægt svæðinu. Þar virðist sem frekjan og auðvitað ef fólk hefur getað sýnt fram á að það sé að bjarga einhverjum veraldlegum verðmætum, riðið baggamuninn.
Það er hreint til skammar hvernig stjórnvöld hafa staðið sig í þessu máli.
Fyrir það fyrsta er fráleitt að halda að einhverjir varnargarðar upp á þriggja metra hæð geti stöðvað framrás hrauns. Það þarf ekki annað en að skoða örlítið myndina sem sést í meðfylgjandi frétt til að átta sig á þeim öflum sem náttúran býr yfir. Bera saman hraunflákana á svæðinu við þessa örlitlu varnargarða. Þá er ekki víst hvort né hvar muni gjósa. Lengd garðanna er slík, væntanlega svo bjarga megi eigum ráðherrafrúarinnar, að vel gæti gosið innan þeirra. Þarna er um minnisvarða að ræða, sem fávískir stjórnmálamenn reisa sér til heiðurs, sem fyrr á kostanað almennings.
Í öðru lagi var forgangsröðun björgunar í Grindavík kol röng. Það fyrsta sem átti að bjarga voru málleysingjarnir. Þeir voru þarna lokaðir af, jafnvel án þess að þeir hefðu vatn eða mat. Síðan átti að leyfa skipulagða för íbúa, til að bjarga sínum verðmætum. Að lokum átt svo að leyfa fyrirtækjum aðgang að svæðinu. Þeirra verðmæti voru öll afturkræf.
Það verður ekki ritað um þessi ósköp án þess að nefna örlítið fjölmiðla og þeirra siðleysi. Meðan íbúar fengu skammtaðar örfár mínútur við björgun sinna verðmæta, fengu fréttamenn og þeirra fylgdarlið að valsa þarna um óáreitt, klukkustundum saman. Þeirra verk virtist fyrst og fremst vera að tefja fólk með fráleitum spurningum. Sumir gerðu tilraun til húsbrots, þó ekki tækist svo vitað sé. Reyndar var hvorki upplýst hvort myndefni eða myndavél hafi verið gerð upptæk, né að lögreglan hafi yfir höfuð skipt sér af málinu. Vel getur verið að viðkomandi hafi verið búinn að fara inn í einhver hús áður en hann varða svo "óheppinn" að lenda í upptöku myndavélakerfis.
Fjölmiðlar eru ævareiðir vegna þess að loks voru settar hömlur á ferðir þeirra inn á svæðið. Telja sitt verk að "upplýsa" almenning. Allar megin upplýsingar eru gefnar upp af viðbragðsaðilum, með fréttatilkynningum og fundum. Hlutur fjölmiðla er að dreifa þeim fréttum til landsmanna. Þeir þurfa ekki að mæta á staðinn til þess og enn síður að tefja fólk. Þá mættu fjölmiðlar örlítið huga að sálarheill fólks sem er í sorg og vanda. Ekki síst þegar sá vandi stafar af skelfilegum náttúruhamförum, þar sem fólk horfir upp á hús sín brotna undan átökum náttúrunnar. Sífelldar bjánalegar spurningar upplýsa ekki nokkurn mann en getur hæglega sært þá sem fyrir ógnaröflunum verða.
Yfir 400 skjálftar frá miðnætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Blessaður Gunnar.
Enn og aftur mælist þér vel, hafðu þökk fyrir það.
Ekki að ég vilji setja mig í spor þeirra sem stjórna á vettvangi, þeir eru undir ógnarþrýstingi ólíkra hagsmuna og sjónarmiða, en ég skildi þetta ekki alveg með málleysingjanna, horfði alltaf á köttinn minn hana Míu, þegar ég las um innilokaða heimilisvini, þeirra sök að tjá sig á öðru en mannamáli.
Sorglegt en rökrétt þegar menn óttuðust fyrirvaralaust gos, og enginn var á svæðinu, en þegar fólki var leyft að fara inná hættusvæðið, af hverju var það ekki í forgang að bjarga lífum, áður en öðru var bjargað??
En mannannaverk eru háð þeim ófullkomleik sem felst í mennskunni, en vonandi draga menn lærdóma, og verða betur undirbúnir fyrir næstu meintu hamfarir, sem betur fer þá var engum reynslubanka fyrir að fara.
En varðandi varnargarðanna þá vil ég segja ráðherrum til bóta að eigendur orkumannvirkja eru tryggðir, en almenningur ekki varðandi orkuöryggi, síðustu áratugi höfum við útfært kerfi okkar án varaafls og varaorku, því það jú kostar.
Samt á samfélag okkar að verða alfarið rafmagnsknúið.
Það er margt skrýtið í kýrhausnum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 18.11.2023 kl. 11:51
Takk fyrir innlitið Ómar.
Já, það er margt skrítið í kýrhausnum. Í mínu ungdæmi og reyndar fram á þennan dag, hefur orðið málleysingjar verið notað yfir skepnur, einkum húsdýr og heimilisdýr. Hvernig það er tilkomið veit ég ekki, enda margar skepnur mun skynugri en maðurinn. En við þetta er ég upp alinn. Ekki er víst að þessi málíska tíðkist um allt land, um það veit ég ekki.
Kveðja af Skaganum
Gunnar Heiðarsson, 18.11.2023 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.