OHF

Eitthvað undarlegasta rekstrarform sem þekkist er ohf, eða opinbert hlutafélag. Þetta rekstrarform er búið að kosta þjóðina mikla peninga án þess að skila í raun nokkru til baka, umfram það sem var áður en rekstraforminu var breytt. Í sumum tilfellum hefur þjónustan minnkað verulega svo vart er hægt að tala um að þjónustan sé yfir höfuð lengur til staðar. Þetta á við um Póstinn ohf. Þar eru sumir landshlutar orðnir nánast án þjónustu. 

En þetta á vissulega ekki við um öll fyrirtæki sem rekin eru undir ohf. Sum hafa haldið þjónustustigi sínu nokkuð vel, jafnvel aukið það. Vart er þó hægt að sjá að það hafi gerst vegna þessa rekstrarfyrirkomulags. Mestar líkur á að þar hefðu komið til sama þróun hvort heldur þau fyrirtæki hefðu áfram verið rekin af hinu opinbera eða þau einfaldlega seld á markaði.

Framanaf var þetta rekstrarfyrirkomulag sett á fyrirtæki sem annað hvort stóð til að leggja niður eða selja. Með því að gera þau að opinberu hlutafélagi komust stjórnmálamenn hjá því að taka lokaákvörðunina. Hún fór í hendur stjórnar þessara fyrirtækja. Þar með voru stjórnmálamenn búnir að koma vandanum af sér. Það má telja mörg opinber fyrirtæki sem voru komin í fjárhagslegan vanda, oftar en ekki vegna skuldbindinga ríkisins, s.s. í lífeyrismálum starfsfólks. Rekstur þeirra settur undir ohf, og þau síðan annað hvort lögð niður eða seld fyrir slikk. Skuldbindingarnar voru ætíð færðar yfir á ríkissjóð. Læt duga að nefna eitt fyrirtæki  sem dæmi, Sementsverksmiðju Ríkisins. Enginn stjórnmálamaður þurfti að láta fés sitt við gjörninginn, hann var ákveðinn af andlitslausum stjórnum þessara ohf fyrirtækis.

Hin síðari ár hafur hins vegar borið nokkuð á því að fyrirtæki sem rekin eru undir rekstrarfyrirkomulagi ohf, hafi sýnt af sér mikla vangetu til rekstrar. Telja sig geta sótt fé í ríkissjóð eftir sínu höfði og sinnt þeirri þjónustu sem þeim ber, illa eða ekki. Enga ábyrgð virðast þessi fyrirtæki bera og stjórnendur þeirra haga sér oft sem kóngar í ríki sínu. Hef áður nefnt Póstinn ohf, en einnig mætti nefna Ísavía ohf. Bæði þessi fyrirtæki hafa sýnt einstaka vangetu til að reksturs, bæði ganga í ríkissjóð nánast eftir eigin höfði og bæði hafa skert svo þjónustu sína út á landsbyggðinni að vart er hægt lengur að segja þau í eigu landsmanna, þrátt fyrir mikla fjármuni sem til þeirra hefur verið ráðstafað.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að halda undir eigu landsmanna þeim fyrirtækjum er sinna grunnþjónustu. Kannski er kominn tími til að setjast niður og fara yfir öll þau ehf sem starfandi eru í landinu, með því markmiði að leggja af það rekstrarfyrirkomulag. Að taka þau fyrirtæki og stofnanir sem reknar eru undir þessu formi og þykja vera hluti af grunnþjónustunni og landsmönnum nauðsynleg, aftur undir ríkisrekstur. Önnur fyrirtæki sem rekin eru sem ohf og ekki teljast til grunnþjónustunnar, verði hins vegar einfaldlega seld, eða lögð niður ef enginn kaupandi finnst.

Ekki er með nokkrum hætti hægt að benda á eitthvað ohf fyrirtæki sem er betur rekið en áður, hins vegar má nefna mörg sem eru okkur landsmönnum þyngri en áður samfara minni þjónustu. Við kjósendur höfum hins vegar ekkert lengur um það að segja hvernig þessi fyrirtæki eru rekin, ólýkt því sem áður var, er stjórnmálamenn þurftu að svara fyrir rekstur þeirra, í kosningum.

Eitt örlítið dæmi um hvernig Pósturinn er rekinn. Keypt var öflug flokkunarstöð fyrir bréf og pakka, svo öflug að hálfa væri nóg. Til að sýna fram á eins mikla nýtingu vélarinnar og kostur var, var sú ákvörðun tekin að allur póstur á Íslandi færi gegnum vélina. Það segir að ef sá er sendir jólakort til nágrannans í næsta húsi og setur það í póst, þá fer jólakortið í gegnum þessa vél. Hvort heldur viðkomandi býr á Ísafirði eða Vopnafirði. Jólakortið þarf þá að fara fram og til baka yfir landið, til þess eins að sýna fram á að einhver allt of stór talningavél í Reykjavík hafi tilverurétt. Ruglið er með eindæmum og gæti aldrei orðið svo nema fyrir tilstilli þess rekstraforms sem fyrirtækið er rekið á.


mbl.is Vilja úttekt á póstlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband