Að sníða sér stakk eftir vexti
1.4.2023 | 08:24
Fjölmiðlar, þeir sem enn lifa, gera miklar fréttir af falli Fréttablaðsins, Vissulega nokkur frétt en fjarri því að vera einhver ógn við land og þjóð. Reyndar er nokkur aðdragandi að þessu falli og ætti ekki að koma nokkrum á óvart. Eftir að hætt var að bera blaðið í hús, að húseigendum forspurðum og lesendur hvattir til að sækja sér blaðið á næsta "safnstað", sem gjarnan voru matvöruverslanir, var ljóst að í vandræði stefndi. Þá kom einnig í ljós hversu raunverulegur lestur blaðsins var lítill.
Formaður Blaðamannafélagsins tók stórt til orða í viðtali í sjónvarpi. Taldi þetta ógnun við "frjálsri" blaðaútgáfu og sagði einnig að "sumum stjórnmálamönnum þætti stafa ógn af frjálsri blaðamennsku". Síðar ummælin eru auðvitað ekki svaraverð, svo fráleit sem þau eru, jafnvel þó öflug atlaga hefði verið gerð að ráðherra í fréttum stöðvar 2 um það efni. Hitt er hins vegar nokkuð umhugsunarvert, þetta með frjálsu blaðamennskuna.
Enginn fjölmiðill á Íslandi er frjáls. Þeir eru allir há pólitískir, hver á sinn veg. Mest fer fyrir þeim fjölmiðlum er teljast til vinstri í pólitík og þar beitt hinum ýmsu ráðum við fréttaflutning. Saklausir menn jafnvel gerðir sekir til að svala þrá fréttamann eftir lestri. Svo mikið vald hafa þessir miðlar að það er farið að lita almenna umræðu í landinu og jafnvel svo að þeir sem ekki eru á sama máli láta frekar kjurt liggja en að tjá sig. Þá er útilokað að tala um frjálsa fjölmiðla sem er reknir fyrir styrki af almannafé.
Þegar fyrirtæki fer á hausinn stafar það auðvitað af því að tekjur duga ekki fyrir kostnaði. Þegar svo er komið að flestir eða allir fjölmiðlar eru komnir á vonarvöl, jafnvel þó vel sé til þeirra skaffað af almannafé, hlýtur eitthvað að vera að í kostnaðarhliðinni í íslenskri fjölmiðlun. Þegar tekjur lækka, þarf að lækka kostnað á móti. Annað leiðir til glötunar..
Fjöldi fjölmiðla segir ekki til um frelsi þeirra, þó auðvitað ekki megi færa allan fréttaflutning á einn stað. Reyndar er það svo að í dag eru fjölmiðlar sífellt að leita frétta af kollegum sínum, apa fréttir upp hver af öðrum. Fagleg fréttamennska er fátíð. Hins vegar hafa þessir miðlar verið notaðir í pólitískum tilgangi, eins og áður segir.
Auglýsingartekjur hafa nokkuð komið til umræðu í sambandi við þessar fréttir. Þar er gagnrýnt að ruv skuli vera á auglýsingamarkaði og sú gagnrýni svo sem skiljanleg, enda tekjur stofnunarinnar úr mörkuðum skatttekjum nægar til að reka hana, þ.e. ef menn sníða sér stakk eftir vexti. Einnig hefur verið nefnt að erlend stórfyrirtæki séu orðin umsvifamikil á auglýsingamarkaði og séu að "stela" auglýsingum frá fjölmiðlum.
Almennt séð eru auglýsingar stórlega ofmetnar. Fáir fara eftir auglýsingum, leita sér freka upplýsinga eftir öðrum leiðum. Þegar flett er blaði eða lesinn miðill á netinu, er fljótt flett yfir auglýsingarnar. Öllu verra er að forðast þær á ljósvakamiðlum, en gerlegt ef vilji er til. Einna undraverðast er þó þegar íslensk fyrirtæki taka upp á að auglýsa á erlendu vefmiðlum. Slíkar auglýsingar skila akkúrat engu.
Meginmálið er þó það að fjölmiðlar hér á landi eru kannski ekki of margir, heldur hitt að þeir telja sig stærri en þeir raunverulega eru. Þeir þurfa að sniða sér stakk eftir vexti. Í sjálfu sér er ekkert að því þó pólitísk öfl styrki fjölmiðla og komi þar sínum málum á framfæri. Það á þó ekki að fela undir merkjum frelsi fjölmiðla. Að ætla að auka enn frekar á styrki til fjölmiðla úr sameiginlegum sjóðum okkar, sem eru ekki sérlega beisknir í dag, er aftur eins vitlaust og frekast getur talist. Hugsanlega mætti þó nota það fé sem hver skattskyldur einstaklingur greiðir sem nefskatt til fjölmiðlunar og skipta þeim peningum á annan veg en nú. Að tekið sé eitthvað af fé ruv og því deilt á aðra fjölmiðla. Hvernig slík skipting getur átt sér stað, svo allir séu sáttir, átta ég mig ekki á. Kannski einfaldast að skattgreiðandinn velji sjálfur einhvern eða einhverja fjölmiðla á skattframtali sínu.
Áhyggjur af yfirvofandi gjaldþroti Torgs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Útvarp, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.