Móðgun við landsmenn

Þegar talað er um kollefnishlutleysi er ætíð átt við að notkun jarðefnaeldsneytis skuli hætt. Það er auðvitað göfugt markmið að minnka notkun jarðefnaeldsneytis, enda mengun frá nýtingu þess nokkur. Öll mengun er slæm og ber að vinna að minnkun hennar eftir mætti. En það má þó ekki kosta aðra og verri mengun, má ekki kosta hvað sem er. Einhverra hluta vegna er það þó svo að einblínt er á eina tegund mengunar og jafnvel hvatt til stórfelldrar mengunar á öðrum sviðum, til þess eins að minnka þennan eina þátt. Slíkt leiðir einungis til glötunar. Rörsýni hefur sjaldn þótt vænleg.

Látum liggja á milli hluta deilur manna um hlýnun jarðar og áhrif co2 á hana. Hitt eru allir sammála um að mengun, hverju nafni sem hún nefnist, er slæm fyrir jarðarkringluna. Þegar horft er til þess að mannfjöldi á jörðinni er nánast kominn yfir þolmörk hennar, en mannfjöldi hefur aukist frá einum milljarði í upphafi tuttugustu aldar í átta milljarða í dag, er ljóst að verkefnið er ærið og krefjandi.

Við hér á Íslandi eru heppin, eigum gnógt af orku og fjölda kosta til að auka okkar orkuframleiðslu. Vatnsorkan er auðvitað sú allra hreinust og vandséð að hægt sé að framleiða hreinni orku. Gufuaflsvirkjanir eru einnig taldar nokkuð hreinar, þó að vísu nokkur brennisteinsmengun sé frá þeim. Hvort sú mengun aukist við að virkja orku úr gufunni, eða flæðir annar jafnt og þétt upp úr jörðinni, hef ég svo sem ekki þekkingu á. Hitt er kannski verra að tæplega er hægt að tala um sjálfbærni í virkjun gufuaflsins, a.m.k. ekki eins og að því er staðið í dag. Ofnýting gufunar er þekkt.

Og nú vilja sumir nefna vindinn sem hreina orku. Vissulega má segja að vindurinn er hrein orka, rétt eins og vatnið. Og gnægð er af vindi í heiminum, þarf ekkert að leita til Íslands eftir honum. Það er aftur þegar kemur að því að virkja þá hreinu orku, sem málið vandast. Þá er hreinleikinn fljótur að fjúka út í veðrið. Reyndar má segja að virkjun vindsins sé næst olíukynntum orkuverum í hreinleika, utan þess að mengun olíuvera er nokkuð einsleit meðan mengun frá vindorkuverum er ansi fjölbreytt og mun hættulegri. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að t.d. spaðar vindtúrbína eru úr plasti og plast er unnið úr olíu. Rímar ekki beinlínis saman við að hætta allri notkun jarðefnaeldsneytis.

En hver er þessi mikla mengun frá vindorkuverum. Að frátaldri fagurfræðinni, en hún er auðvitað persónubundin. Það sem einum þykir fagurt þykir öðrum ljótt. Vel getur verið að einhver sjái fegurð í vindorkuverum, þar sem saman koma allt að 100 vindtúrbínur, yfir 200 metrar á hæð og vildu gjarnan sjá sem flest slík orkuver, er ljóst að flestum ofbýður slík sýn.

Fyrir utan fagurfræðina má nefna að fyrir hverja vindtúrbínu þarf gríðarlegt magn af steypustáli auk þess sem stál er í sjálfu mastrinu. Til að framleiða stál þarf jarðefnaeldsneyti. Fyrir hverja vindtúrbínu þarf gífurlegt magn af steypu, til að halda þessum túrbínum á réttum stað og í réttri stöðu. Hver sökkull þarf að vera a.m.k. 30 metrar í þvermál og a.m.k. 4 metra þykkur, samkvæmt upplýsingum vindtúrbínuframleiðenda. Fólk er í dag hvatt til að byggja hús sín úr timbri vegna þess að steypa sé svo ofsalega mengandi fyrir andrúmsloftið.

Eins og áður segir eru spaðar þessara túrbína gerðir úr trefjaplasti og líftími þeirra talinn vera 10 ár. Það þarf því a.m.k. tvo ganga af spöðum á hverja túrbínu, á líftíma hennar. Reyndar er þessi líftími fundinn af reynslu annarra þjóða, þar sem vindtúrbínur eru bæði minni og og umhverfi betra. Hver líftími þeirra verður á fjöllum Íslands er ekki vitað en það er þó vitað að vindurinn hefur verið duglegur að slípa steina á kollum íslenskra fjalla. Og hvað er það sem veldur þessum stutta líftíma spaðanna? Jú, svarið við því er einfalt, þeir eyðast upp. Plastið í þeim eyðst og fýkur út í loftið. Fyrst sem svifryk en þegar slit þeirra nær ákveðnu marki fara að fljúga stærri plasthlutir af spöðunum. Við erum látin borga auka skatt ef við dirfumst að kaupa plastpoka í kjörbúðinni.

Auk þessa má nefna ýmsa aðra mengun frá vindorkuverum. Í Evrópu er farið að mælast óvenjulega mikið magn af gastegund sem kallast Sulphur hexafluoride, eða SF6. Gastegund þessi er notuð til einangrunar og kælinga í rafbúnaði og þessi aukna mengun er rakin til vindorkuvera. Hættan á losun þess er einkum þar sem stöðugleiki orkuframleiðslu er lítill, minni hætta þar sem stöðugleikinn er mikill, eins og í vatnsorkuverum. Talið er að sloppið hafi út í andrúmsloftið, frá vindtúrbínum, árið 2018, yfir 9000 tonn af þessari gastegund, sem svara til um 44 milljónum einkabíla eða að brennt hafi verið 103 milljón tonnum af kolum! SF6 gas er 23.500 sinnum hættulegra en co2, fyrir andrúmsloftið. Eyðingartími SF6 er talinn vera 3.200 ár!

Þá má nefna aðra og minni mengun frá vindorkuverum, s.s. olíumengun, en fyrir hverja vindtúrbínu þarf töluvert magn af olíu, á gíra hennar, til kælingar rafals og á spenna. Algengt er að þessa olía sleppi út og mengi jarðveginn umhverfis þær. Þetta gerist bæði þegar olíuskipti fara fram en einnig á búnaður til að bila. Hljóðmengun, sem sumir vilja gera lítið úr en hefur valdið kvölum hjá þeim sem hafa fengið slík mannvirki nærri sínum húsum. Skuggaflökt, eitthvað sem Gestapó þótti eitt sinn tilvalið til pyntingar á föngum sínum. Mikið jarðrask á byggingatíma, sem vandséð er að verði nokkurn tíma bætt í viðkvæmri íslenskri náttúru, margfalt verri en nokkur utanvegaakstur. Svona mætti lengi telja.

Það er því vandséð að nokkur geti mælt vindorkuverum bót, að minnsta kosti ekki ef hagur náttúru og loftlags á að vera til staðar. Ef engum öðrum kosti er til að dreifa, má segja að vindorkan sé hugsanlega réttlætanleg, umfram kolakynnt orkuver. Að öðrum kosti á ekki að horfa þennan kost til orkuframleiðslu.

Þegar svo er komið að öllum meðulum megi beita, til að minnka losun á co2, jafnvel menga margfalt meira, mengun sem er margfalt verri fyrir andrúmsloftið, er eitthvað stórkostlegt að.

Í viðtengdri frétt heldur forstjóri Landsnets því fram að tvöfalda þurfi raforkuframleiðslu í landinu. Engir útreikningar eða forsendur eru þó lagðar fram. Hvernig forstjórinn, sem stjórnar jú því fyrirtæki sem flytur orkuna um landið, ætlar að koma þeirri orku milli staða, þegar ekki einu sinni er hægt skammlaust að flytja þá orku sem þegar er framleidd hér, til notenda, er vandséð. Hann heldur því fram að virkja þurfi vindinn, framleiða með vindorku 2.500 MW. Þá þarf uppsett afl vindorkuvera að vera að lágmarki 5-6.000 MW, miðað við betri nýtingatíma en þekkist! Þetta gerir yfir 1.000 vindtúrbínur af þeirri stærð sem flestar hugmyndir eru um hér á landi! Og til að jafna álag frá 6.000 MW vindorku þarf jafn mikla eða meiri vatnsorku. Þar með fýkur út í vindinn hagkvæmni vatnsorkuveranna, en hún byggist fyrst og fremst á stöðugleika framleiðslunnar. Reyndar gefur forstjórinn í skyn að hægt sé að jafna þessa notkun á hinum endanum, þ.e. að salan geti fylgt sveiflum vindsins. Að halda því fram, jafnvel þó undir rós sé, að einhver sé tilbúinn að byggja hér upp einhvern iðnað sem þarf að reka eftir því hvernig vindur blæs, er ekki bara barnalegt, heldur beinlínis móðgun við landsmenn.

Hvernig er hægt að taka svona fólk trúanlegt!


mbl.is Gæti þurft að tvöfalda raforkuframleiðsluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver ber svo ábyrgð og kostnað af að hreinsa upp ónýtar vindmillur þegar notkun er hætt?  Rekstraraðili mögulega farinn á hausinn og hrofinn. Er sá kostnaður meðtalinn?

Bjarni Bjarnason (IP-tala skráð) 26.3.2023 kl. 18:02

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góð grein að vanda Gunnar, -takk fyrir að standa vaktina.

Það sem ætti kannski líka hafa í huga þegar talað er um að minka mengun er að auka ekki sóum samhliða.

Þú lýsir því ágætlega hvernig vindorkan eykur sóun og verður þess vegna ekki umhverfisvæn.

Landsnet hefur lengi farið hamförum vegna línulagnaleysis á Reykjanesi og í vetur þótt þeim komið nóg þegar þar varð rafmagnslaust.

Ekki það að það sé ekki framleitt rafmagn á Reykjanesi, heldur var málið, að mér skilst, að það þurftir að flytja rafmagnið frá orkuverunum á Reykjanesi svo hægt væri að regúlera það í Hafnafirði.

Ef það yrðu tvær línur um Reykjanes, sem yrðu báðar ónothæfar samtímis, væri þá ráðið að hafa þrjár línur? -eða kannski hundrað vindmyllur?

Magnús Sigurðsson, 26.3.2023 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband