Röng mælistika
23.3.2023 | 09:13
Hvers vegna er ekki notuð sama mælistika hér á landi og notuð er í okkar samanburðarlöndum, við mælingu verðbólgu? Það er til samræmd mæling verðbólgu sem öll lönd Evrópu nota, nema Ísland. Þó erum við að bera okkur saman við þessi lönd á flestum sviðum. Hvernig er hægt að bera saman verðbólgu ef ekki er notuð sama mælistika?
Nú mælist verðbólga hér á landi 10,2%, ekki alveg hæsta verðbólga í Evrópu en mjög nærri því. Ef sama mælistika er notuð hér og þar ytra, mælist verðbólga hins vegar ekki nema 8,8% og við komin á það plan að vera með nánast meðaltalsverðbólgu í Evrópu. Í Svíþjóð mælist hún 9,7% og í Noregi mælist verðbólgan 8,3%. Hins vegar eru stýrivextir í Svíþjóð einungis 3% og í Noregi 2,75%. Hér á landi eru stýrivextir hins vegar 7,5% og samkvæmt ummælum seðlabankastjóra munu þeir hækka enn frekar. Stefna þá í að verða hærri en verðbólgan mælist, samkvæmt samræmdri mælistiku. Þetta er auðvitað glórulaust.
Þessi sér íslenska mæling á verðbólgu er auðvitað arfur þess tíma er öll lán til húsnæðiskaupa voru verðtryggð. Þetta leiðir til þess að enginn hagur er af því að taka vaxtalán, jafnvel hættulegt. Afborganir slíkra lána er fljót að fara yfir greiðslugetu fólks, þegar vextir stökkbreytast. Því verður að afnema þessa sér íslensku aðferð við mælingu verðbólgu og taka upp sömu mælistiku og okkar samanburðarlönd nota. Mælistiku sem er talin gild og góð um alla Evrópu, utan Íslands. Einungis þannig er hægt að tryggja að fólk sem tekur lán í góðri trú, miðað við efnahag, geti staðið skil þeirra. Einungis þannig mun verða hægt að afnema verðtryggingu lána, sem einnig er sér íslensk.
Það er einstakt að stjórnmálamenn vilji ætíð mála skrattann á vegginn, að gera meira úr hlutum en tilefni er til. Vissulega er 8,8% verðbólga slæm en 10,2% er margfalt verri. Eins og áður segir er 8,8% verðbólga nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja. Það er engin krísa að geta haldið Íslandi nærri meðaltalsverðbólgu Evrópuríkja, reyndar bara ágætis afrek, miðað við ástandið í heiminum. En, nei, íslenskir stjórnmálamenn vilja mála ástandið enn verra. Mætti halda að þeir væru illa haldnir af "Stokkhólmseinkenni".
Fyrir nokkrum dögum hvatti seðlabankastjóri fjármagnseigendur til að mótmæla á götum úti, þar sem raun innvextir væru í mínus. Reyndar man ég ekki til að hafa nokkurn tíman fengið raunvexti af innistæðu og er þó kominn á efri ár. Ástæða þess að maður geymir nokkrar krónur í banka er ekki til að ávaxta þær, keldur til að minnka skaðann af því að hafa þær undir koddanum. Að fá einhverja vexti í stað engra. Þetta var náttúrulega svo absúrd hjá seðlabankastjóra að engu tali tekur. Ef hann hugsar sé að hækka stýrivexti svo að innlánsvextir banka verði jákvæðir, þarf hann að hækka þá nokkuð ríflega, þar sem vaxtamunur bankanna er mjög mikill. Hefur ætíð verið mikill en hin síðari ár keyrt úr hófi fram. Þetta mun auðvitað leiða til þess að öll útlán bankanna falla í vanskil, þar sem enginn getur borgað af lánum sínum. Afleiðingin er að bankarnir sjálfir falla. Hvað þá um innistæðurnar, með háu vöxtunum?
Bankastjóri seðlabankans segist vera í einkabaráttu við verðbólguna. Því þurfi hann að hækka vexti og mun hækka þá þar til verðbólgu lægir. Það mun sennilega verða seint, enda hækkun stýrivaxta sem fóður fyrir verðbólgudrauginn. Hækkun vaxta leiðir af sér að flest fyrirtæki verða að hækka verð á sinni vöru eða þjónustu. Flest fyrirtæki eru háð lánsfé, skammtímalánum eða lánum til til lengri tíma.
Þá eru auðvitað flest heimili landsins skuldsett, sum mikið önnur minna. Lán til húsnæðiskaupa eru þar umfangsmest. Hækki vextir svo að fólk geti ekki staðið skil á sínum lánum, mun verðbólga auðvitað lækka, lækka svo að við förum beinustu leið í kreppu!
Ég viðurkenni að seðlabankastjóri hefur það lögbundna hlutverk að halda verðbólgu niðri. Til þess hefur hann ýmis verkfæri. Hann virðist þó hafa einstakt dálæti á einu þeirra, hækkun stýrivaxta. Annað verkfæri væri þó sennilega enn betra, að auka bindiskyldu bankanna. Það leiðir til þess að bankar draga úr útlánum. Aðgerð sem ekki kemur í bakið á fólki, heldur hefur það val.
Það er eitt atriði sem ég get ekki með nokkru móti skilið og útilokað er að geti haft áhrif á verðbólguna, en það er hækkun vaxta á þegar tekin lán. Hækkun vaxta á lán sem fólk sækist eftir er aftur skiljanlegt. Hækkun vaxta á þegar tekin lán, lán sem fólk tekur í góðri trú og samkvæmt sinni greiðslugetu, munu einungis leiða til greiðslufalls. Hækkun lána á ótekin lán gefa lántaka val og mun að öllum líkindum draga úr verðbólgu.
Seðlabankastjóri starfar samkvæmt lögum. Þau lög eru sett á Alþingi. Það er því stjórnmálamanna að grípa í taumana þegar í óefni stefnir. Svo er nú. Annað tveggja fer seðlabankastjóri offari eða hitt að hann fer eftir lögum. Líklega er síðari kosturinn réttur og þá þarf að breyta lögunum. Annað getur ekki gengið.
En fyrst og fremst þarf að breyta mælistikunni, að færa hana til samræmis við það sem aðrar þjóðir nota. Einungis þannig er hægt að tala vitrænt um verðbólgu hér á landi og haga aðgerðum samkvæmt því.
Algjört forgangsmál að ná verðbólgu niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.