Matvælaöryggið
22.3.2023 | 08:22
"Að Ísland verði sjálfbært í matvælaframleiðslu". Hversu oft höfum við ekki heyrt þennan frasa frá stjórnmálamönnum? Sér í lagi þegar þeir telja einhverja bændur heyra til. Þá hefur þessi frasi verið vinsæll í undanfara kosninga.
En það kostar að framleiða mat. Tvær leiðir eru til að fá þann kostnað greiddan, úr vösum þeirra er neyta matarins eða hin leiðin, sem flestar vestrænar þjóðir nota, að greiða niður framleiðslukostnaðinn og tollvarnir gegn innflutningi. Það er augljóst að ef neytendur eigi að greiða allan kostnað við matvælaframleiðsluna þarf að hækka laun verulega. Því má segja að þær niðurgreiðslur til matvælaframleiðslu, er vestræn ríki hafa valið, sé til þess gerðar að halda launakostnaði almennings niðri. Inn í þetta spilar svo byggðastefna, en sumar þjóðir líta hana ekki síður mikilvæga en að halda niðri launakostnaði. Fyrir bóndann sjálfan skiptir ekki máli hvaðan aurarnir koma, svo fremi hann geti rekið bú sitt.
Erlendis þykir sjálfsagt og eðlilegt að halda innlendri matvælaframleiðslu þannig að ætíð sé til lágmarks matvæli í landinu. Að ætíð sé framleitt meira en þörf er á og litið svo á að umframframleiðslan sé fórnarkostnaður, jafnvel þó lítið fáist fyrir þá framleiðslu. Þetta skapast auðvitað vegna þeirrar staðreyndar að langan tíma tekur að ala skepnur upp í sláturstærð og því útilokað að framleiða nákvæmlega það sem markaðurinn þarf hverju sinni.
Hér á landi hafa verið öfl sem vinna gegn þessari stefnu og svo komið nú að bændum fækkar verulega. Niðurgreiðslur til matvælaframleiðslu hafa minnkað að raungildi meira hér á landi en í nokkru öðru vestrænu ríki, síðustu áratugina. Tollvernd, sem aðrar þjóðir beita í stórum stíl, t.d. nánast útilokað að flytja matvæli til ESB ríkja eða Bandaríkjanna, þykir af hinu illa hér á landi. Þar hefur verslunin farið fremst í flokki, enda sér hún sér hag í því.
Að óbreyttu mun landbúnaður leggjast af hér á landi, fyrr en síðar. Þá er víst að aðrar þjóðir séu ekki tilbúnar að niðurgreiða þau matvæli sem við þurfum, að upp komi sú staða að við verðum að borga raunverð fyrir öll matvæli. Hætt er við að þá þurfi að hækka laun hér nokkuð. Það er staðreynd að kostnaður við matvælaframleiðslu hér á landi er hærri en erlendis, en sá kostnaðarauki er þó ekki meiri en svo að flutningur yfir hafið mun sennilega eyða honum, með tilheyrandi kolefnislosun og ekki má heldur gleyma álagningu sísvangrar verslunarinnar.
Ef stjórnmálamenn meina eitthvað með þeim frasa sem fram kemur í upphafi þessa pistils, þurfa þeir að fara að vinna að málinu, ekki síðar en strax. Þar hafa þeir tvo kosti, að gera ekkert og gefa innflutning frjálsan, eða hitt að auka niðurgreiðslur og herða tollvarnir gegn innflutningi matvæla. Ef fyrri kosturinn er valinn er það ávísun á mikla hækkun á matvælum, stór aukinn launakostnað og að stærsti hluti landsins leggist í eyði. Seinni kosturinn býður hins vegar upp á matvælaöryggi, lágat matvælaverð og blómlega byggð um landið.
Þetta þarf að gerast strax. Bændum hefur fækkað gífurlega síðustu ár og mun fækka mikið ef fram fer sem horfir. Þeir sem eftir standa hafa reynt að stækka við sig bústofninn, eftir getu. Það virðist þó vera að það sé sama hversu stórann bústofn menn hafa, útilokað er að láta búin borga sig.
Í viðhengdri frétt nefnir Steinþór að afurðastöðvar séu of margar í landinu og nefnir sem dæmi að í Danmörku sjái tvær slíkar um alla slátrun svína þar í landi. Ekki ætla ég að dæma þessi orð forstjórans, en bendi á að litlar einingar eru stundum hagkvæmari í rekstri en stórar. Meðan sláturhúsin voru mörg og smá var afkoma bænda af smáum búum vel viðunandi. Það væri gaman ef hann gæti nefn hvernig þetta snýr að sauðfjárslátrun í Noregi, en þar þykir stórt bú, sem ber sig að fullu, með einungis 300 vetrarfóðraðar ær. Hér á landi er virðist sama hversu margt vetrarfóðrað fé menn halda, jafnvel þrisvar til fjórum sinnum fleira, útilokað er að láta það borga sig.
Fyrir skömmu gerði ASÍ könnum á kostnaði "matarkörfunnar". Kom í ljós að matvæli hafi hækkað nokkuð. Ekki kom fram í fréttum hvernig skipting þessarar hækkunar var, með tilliti til innlendra og innfluttra matvæla. Hér fara fjölmiðlar hamförum þegar lambakjötið hækkar um einhverjar krónur, en enginn segir neitt þegar kókópuffs, séríos eða önnur innflutt matvæli hækki um tugi prósenta. Það væri einnig veglegt verkefni fyrir ASÍ að skoða hversu stór hluti af launum fer til kaupa á innlendum atvælum og bera saman við hvernig sú þróun hefur verið síðustu þrjá til fjóra áratugi. Það væri sannarlega fróðleg lesning.
Stefnir í kjötskort á innlendum markaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:28 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gunnar. Þegar talað er um matvælaöryggi af umrenningunum við Austurvöll þá er átt við "innflutt" matvælaöryggi.
Magnús Sigurðsson, 22.3.2023 kl. 17:10
Sæll Magnús
Held reyndar að starfsmenn okkar við Austurvöll hafa ákaflega litla þekkingu á orðinu "matvælaöryggi", annað en að það fellur vel að eyrum okkar kjósenda, sér í lagi fyrir kosningar.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 23.3.2023 kl. 07:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.