EGO borgarstjórnar reynist landanum dýrkeypt

Íslenskir fjölmiðlar eru pólitískir í sínum störfum, um það verður ekki deilt. Sumir stjórnmálamen og stjórnmálaflokkar eiga hægara með að koma sínum málum á framfæri en aðrir, það á einnig við um ýmsa hópa í samfélaginu. Fréttamenn eru fljótir til að flytja hvaða vitleysu sem er, ef það kemur úr hálsi "réttra" manna og þegar sum málefni eru til umfjöllunar eru tilkallaðir "sérfræðingar" sem styrkja fréttir fjölmiðla. Aðrir stjórnmálamenn komast ekki að, jafnvel þó þeir komi fram með málefni sem rík þörf er fyrir þjóðina að fá fréttir af.

Síðastliðinn þriðjudag (31/1) steig þingmaður í pontu Alþingis og lagði spurningar fyrir innviðaráðherra. Þær spurningar sneru að borgarlínu og samgöngusáttmála Alþingis við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, um þá staðreynd að nú þegar hefðu áætlanir um þau verkefni hækkað um 50 milljarða króna og að einn einstakur liður þeirra hækkað úr 2,74 milljörðum upp í 17,72 milljarða, eða um 15 milljarða, Það gerir að sá einstaki liður áætlunarinnar hækkar um 650%. Enginn fjölmiðill, ekki einn einasti, hefur flutt fréttir af þessari umræðu á Alþingi, enda viðkomandi þingmaður ekki í náð fréttamiðla.

Um fyrirspurnina og fátækleg svör ráðherra má lesa í tenglum hér að neðan, en kannski það sem mest kom á óvart var að það virðist sem búið sé að færa fjárveitingarvaldið frá Alþingi yfir til Betri samgangna og einhvers stýrihóps sem í sitja ráðherrar og forsvarsmenn sveitarfélagana á svæðinu. Að sá hópur geti sóað fjármunum ríkissjóðs að eigin vild, án afskipta Alþingis. Sumir segja stjórnarskránna ónýta, en þar kemur þó skýrt fram að fjárveitingarvaldið liggur hjá Alþingi og engu fé megi eyða úr sjóðum ríkisins nema með samþykki þess.

Einhverjum kann að finnast þetta lítil frétt, sérstaklega vegna þess hver stingur á kýlinu. En þetta er engin smáfrétt. Fyrir utan þann augljósa sannleik að Vegagerðin er stórkostlega fjársvelt, getur ekki haldið við vegakerfinu um landið, svo börn sem keyrð eru til skóla vítt um landið mæta þangað ælandi eftir torfærur ferðarinnar, nefni sem dæmi Vatnsnesveg, þá er 50 milljarða hækkun borgarlínuverkefnis ekki nein smá upphæð. Munum að í fyrstu var talað um að kostnaður yrði um 70 milljarðar.

Það er ekki eins og ríkissjóður sé að springa undan peningum og ekki eru sveitarfélögin betur sett, sér í lagi sjálf höfuðborgin. Því verður að sækja þessa peninga með einhverjum hætti til landsmanna. Ef við gefum okkur að þessari upphæð yrði bara skipt jafnt á hvert mannsbarn í landinu, mun þessi kostnaðarauki þýða kostnað fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu upp á rúmlega hálfa milljón króna. Upphæðin yrði töluvert hærri ef einungis íbúar höfuðborgasvæðisins tækju hana á sig en það verður auðvitað ekki. Þetta eru ekki neinir smáaurar!

Þessi frétt á fullt erindi í fjölmiðla og þeir verða að hætta sínu dekri við pólitíkina. Fjölmiðlar eiga að flytja fréttir. Þar er auðvitað ruv sekast, þar sem sá fréttamiðill er í eigu landsmanna og rekinn fyrir fé sem hvert mannsbarn þarf að greiða, hvort sem vilji er til eða ekki. Aðrir fjölmiðlar eru reknir á öðrum grunni og kannski viðkvæmari fyrir þeirri hönd sem fæðir þá.

Hér má svo sjá umræðuna:

Fyrirspurn 

Svar ráðherra 

Svar við svari ráðherra


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband