Enn gala vindhanar
5.11.2022 | 00:54
Ég hef áður ritað nokkuð um aðkomu fyrrverandi rektors á Bifröst að vindorkumálum og þá fylgispekt sem hann hefur tekið við erlenda fjármálamenn á því sviði. Nú lætur lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri heyra í sér og ekki að sjá annað á hans orðum en að hann sé einnig orðinn fylgismaður þessara erlendu afla. Þegar tveir háttmetnir menn innan menntakerfisins tjá sig á þennan veg, vaknar vissulega upp sú spurning hvar menntakerfið klikkaði. Hvar eða hvenær auður væri eingöngu mældur í spesíum.
Í frétt á ruv er rætt við lektor Háskólans á Akureyri. Hugmyndi hans eru vægast sagt óhuggulegar fyrir lands og þjóð. Hann vill taka 10% af landinu undir vindorkuver, svo hægt verði að senda megnið af þeirri orku um sæstrengi til Evrópu. Telur að með því megi "hjálpa" Evrópu í við orkuskiptin. Þessar hugmyndir eru svo fjarstæðukenndar að engu tali tekur.
Jöklar Íslands þekja um 10% af landinu, með allri sinni tign og fegurð. Fæstir vilja hafa vindmillur nærri byggð og ef taka á önnur 10% af landinu undir stór og ljót vindorkuver, er ljóst að ansi lítið verður eftir af ósnortinni náttúru hálendis Íslands. Á þessu landsvæði telur lektorinn að hægt verði að framleiða allt að 150 teravattstundir af orku, eða sjö komma fimm sinnum meiri orku en nú er framleidd hér á landi. Til að framleiða 150 teravattstundir af orku með vindorkuverum þarf gott betur en 10% af Íslandi, en látum þá skekkju lektorsins liggja milli hluta.
En hvað segja 150 teravattstundir í orkuþörf Evrópu. Það er eins og dropi í hafið, dugar rétt til að halda við aukinni orkuþörf álfunnar og alls ekki til orkuskipta þar. Sem dæmi hefur ESB litið hýru auga til vesturstrandar Afríku, til vindorkuvera. Þar er gert ráð fyrir að framleiða allt að 1000 teravattstundum af orku og er það talið sem smá hjálp við orkuskipti Evrópu, alls ekki lausn þeirra.
Vissulega er rétt að við núverandi orkuverð í Evrópu mætti fá ágætis tekjur fyrir 150 teravattstundir af rafmagni. Þær tekjur færu þó að mestu í vasa erlendra auðjöfra, lítið til okkar landsmanna. Hins vegar eru tvær hliðar á hverju máli og tapið sem við yrðum fyrir í staðinn margfalt meira en ágóðinn.
Fyrir það fyrsta mun ferðaiðnaður hrynja, ekki lengur hægt að bjóða upp á ósnortna náttúru Íslands. Litlar líkur á að erlendir ferðamenn hafi mikinn áhuga á að koma hingað til að skoða stórmengað land af vindorkuverum og örplasti.
Í öðru lagi mun með tengingu landsins við Evrópu, virkjast að fullu orkupakki 3, og væntanlega op 4 einnig. Það mun leiða til þess að orkuverð á raforku hér á landi mun fylgja markaðsverði á hinum enda strengsins. Það mun leiða til þess að öll fyrirtæki landsins munu ekki geta átt í samkeppni við erlend fyrirtæki og leggja upp laupana, með tilheyrandi atvinnuleysi.
Það liggur fyrir að allur kostnaður við tengingu vindorkuvera við landsnetið og lagning þess að fyrirhuguðum sæstrengjum, mun falla á almenna landsmenn, samkvæmt op 3.
Þessi sýn er ljót en raunsæ, reyndar svo fjarstæðukennd að furðu þykir að hugmyndin komi úr ranni lektors við háskóla. Hann virðist einblína á eina stærð en horfa að öllu leiti framhjá öllum öðrum. Ekki beint vísindaleg nálgun.
Hitt er svo spurning, hvenær vísindasamfélagið gerir athugasemd við vindorkuverin, í þeirri mynd sem nú er. Það liggur fyrir að mengun frá þessum orkuverum er gífurleg, jafnvel meiri en frá gasorkuverum. Það liggur fyrir að nú þegar eru stór landsvæði tekin undir urðun ónýtra spaða vindorkuvera, en af þeim fellur til gífurlegt magn nú þegar. Það liggur fyrir að örplastmengun frá spöðum vindorkuvera er mikil, mjög mikil. Nýlega var sagt frá rannsókn á hvölum og tiltekið ótrúlegt magn af örplast sem þeir innbyrða. Það liggur fyrir að í Þýskalandi er farið að mælast stór aukið magn af SF6 gasi í andrúmslofti og sú mengun rakin til fjölgunar vindorkuvera. Það liggur auðvitað fyrir að sjónmengun vindorkuvera er gífurleg og flökt frá spöðum talið skaðlegt. Það liggur fyrir að hljóðmengun frá vindorkuverum er mikil, rétt eins og á rokktónleikum að sögn framleiðenda þessara túrbína. Það liggur hinsvegar ekki fyrir hver áhrif vindorkuver hafa á vindstrauma. Ekki enn verið opinberaðar rannsóknir á því sviði. Því er ekki spurning hvort heldur hvenær vísindasamfélagið setur sig gegn vindorkuverum í þeirri mynd sem nú er. Þar mun ráða fjármagnið sem það fær greitt.
Það eru til aðferðir til virkjunar vindsins án vindtúrbína með spöðum. Aðferðir sem þurrka út flesta galla hefðbundinna vindtúrbína, þó sérstaklega örplastmengunina. Þessar aðferðir byggja helst á því að vindur verði virkjaður sem næst notkunarstað orkunnar. Þá eru menn að komast yfir þann þröskuld sem hefur staðið gegn byggingu þóríum orkuvera, en af þóríum er nægt magn til á jörðinni.
Vísindasamfélagið út um allan heim, nema kannski á Íslandi, vinnur hörðum höndum að lausn orkuvanda jarðar. Hugsanlega mun á næstu árum koma eitthvað alveg nýtt fram til þeirrar lausnar, eitthvað sem fáum eða engum dettur til hugar í dag. Víst er að hefðbundin og gamaldags vindorkuver eru ekki þar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Umhverfismál, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:56 | Facebook
Athugasemdir
Allt í kringum vindmyllur, mun ,,vinda" upp á sig og ef menn halda ekki rétt á ,,spöðunum" fer þetta allt út í veður og ,,vind" ! !
En það verður sjaldan lognmolla í kringum vindmyllur. En stjórnmálamenn láta mötrökin sem ,,vindumeyruþjóta" en ekki hvað.
Loncexter, 6.11.2022 kl. 10:14
Thakka godan pistil. Vid erum algerlega a somu linu i thessum malum.
Kvedja ad sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 6.11.2022 kl. 16:58
Þakka þér pistilinn Gunnar, mér kemur reyndar ekki rörsýni sérfræðingasamfélagsins á óvart.
Eins og ég hef sag áður þá er gott að einhver bendir á hvað er í húfi, í raun og veru aðdáanlegt, því það er við ramman reip að draga.
Magnús Sigurðsson, 6.11.2022 kl. 18:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.