Verð raforku
26.10.2022 | 19:23
Það er með ólíkindum að erlendir fjármálamenn skuli vilja nota sitt fjármagn til uppbygginu vindorkuvera á Íslandi. Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að af norðurlöndum er raforkuverð langlægst á Íslandi.
Raforkuverð í Noregi, meðalverð, er 40% hærra en hér á landi. Enn meiri munur ef tekið er viðmið af suður og vestur hluta Noregs, eða þeim hluta er tengist meginlandi Evrópu.
Raforkuverð í Finnlandi er 60% hærra en hér á landi.
Raforkuverð í Svíþjóð er 100% hærra en hér.
Og raforkuverð í Danmörku 440% hærra en hjá okkur.
Hvers vegna leita þessir erlendu fjármálamenn ekki með sitt fé í byggingu vindorkuvera þar sem verðin eru hæst? Það er engin hætta á þeir séu að stunda einhverja þegnstarfsemi fyrir okkur Íslendinga, menn græða lítið á því. Það er ekki nema ein skýring, þeir vita að hingað mun verða lagður sæstrengur, frá meginlandi Evrópu. Þeir vita að þá mun orkuverð hér hækka verulega, þrefaldast eða fjórfaldast. Þeir vita líka að að þegar starfsmenn ACER hér á landi hafa komið á markaði með orkuna, munu þær reglur gilda að jaðarverð mun ráða orkuverðinu, þ.e. sá orkukostur sem dýrastur er mun verða leiðandi í raforkuverði.
Þá ættu menn að skoða hvernig hlutfallsleg vindorkuframleiðsla er í hverju af þessum löndum og bera saman við orkuverðin í þeim. Þar eru Danir með langmestan hluta af sinni orkuframleiðslu í vindorku, Svíar koma þar næst og síðan Finnar. Jafnvel þó sprenging hafi orðið í vindorkuframleiðslu í Noregi er hlutfall hennar enn lítið af heildarorkuframleiðslu þeirra.
Því er ljóst að markaðskerfi ESB á orku, sem ACER stjórnar, mun eitt og sér hækka orkuverð hér á landi með tilkomu vindorkuvera, því fleiri þeim mun meiri hækkun. Það dugir þó ekki þessum erlendu fjármálamönnum, þeir verða að rjúfa einangrun landsins frá orkumarkaði Evrópu, með sæstreng. Einungis þannig er einhver glóra í því að reisa hér vindorkuver, með risastórum vindtúrbínum.
Rafmagnið langódýrast á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Manni hefur stundum sýnst að það skipti meira máli en rekstrargrundvöllurinn, hvar hægt sé að komast í auðfengið fjármagn.
Þegar maður flettir í gegnum málatilbúnað vindbarónanna kemur í ljós að þeir eru reiðubúnir til að leifa innlendum fjárfestum að koma að ævintýrinu.
Og þá myndi ég veðja á lífeyrissjóðina.
Magnús Sigurðsson, 26.10.2022 kl. 20:32
Það er ekki ólíklegt að stjórnir lífeyrissjóðanna láti plata sig í þessu, Magnús. Fór á kynningafund Vestanvind, en það kallast félagsskapur fjögurra vindorkuvonbiðla á vesturlandi og ekki vantaði glærusýningarnar hjá þeim. Samkvæmt þeirra útreikningum mun drjúpa smjör af hverju strái hér vestanlands, bara ef við íbúarnir stöndum nú með þeim í að flýta afgreiðslu stjórnvalda á nýrri rammaáætlun og sjáum til þess að þau verði nú hliðholl vindorkuverum.
Það vantaði ekki stórlaxana til framsögu á þessum fundi. Fyrrverandi háskólarektor, fyrrverandi bankagangster ásamt fleirum. Kunnugleg andlit frá frá árunum fyrir hrun. Þessir menn sem settu landið á hausinn ætlast til að við treystum þeim núna fyrir náttúrunni okkar. Ja, svei!
Því skyldi engan undra þó lífeyrissjóðirnir komi að þessari svikamillu, rétt eins og fyrir hrunið. Eru kannski þegar komnir á kaf í skítinn!
Gunnar Heiðarsson, 26.10.2022 kl. 21:43
Blessaður Gunnar.
Fyrir utan að hér er allt satt og rétt sagt frá, sem er fylgifiskur pistla nöldrarans þó vissulega megi takast á við skoðanir hans, enda í eðli skoðana að þær á að ræða sem og takast á um þegar fólk telur sig hafa aðrar skoðanir, þá hegg ég eftir þú sagðir Dana hafa 440% hærra raforkuverð en við hérna á Íslandi sem ennþá er varið fyrir markaðskerfi ESB, vegna þess að við erum ekki tengd við raforkumarkaðskerfið.
Þar eru Danir sér á pari, en á sama tíma hafa þeir náð miklum árangri í að beisla vindinn til að sjá sér fyrir orku.
Það er eins og þeir hafi ekki heyrt af því að það er jafnvel stundum logn á Reykjanesinu, stundu oftar á Akranesi, en sjaldnar á Langanesi. Þann skort á logni má skýra með Norður-Atlantslægðinni sem næstum því stöðugt gengur yfir Ísland, þegar hún er til friðs, þá kemur strengur frá Jan Mayen, Grænlandi, Síberíu, Norðurskauti, logn er hér eiginlega sjaldgæfara en fellibylir í Danmörku.
Skil áhuga vindbarónanna, en skil ekki þá visku Dana að veðja á vind til að sjá heimilum og atvinnufyrirtækjum fyrir orku.
Á hvaða tímapunkti vitið hvarf, veit ég ekki,veit hins vegar að það hefur horfið víðar, sem og ég veit að hið vitgranna fólk á beinan aðgang að fjölmiðlum auðmanna, sem og fylgimiðla þeirra eins og Ruv er hérna hjá okkur.
Vissulega Gunnar deilum við um orsakavaldinn, en við deilum ekki um að sú heimska að færa hagkerfi Vesturlanda aftur fyrir iðnbyltingu er ekki lausnin, hver svo sem vandinn er sem menn vilja leysa.
Sú deila hefur hins vegar veikt andstöðuna við ásælni orkubarónanna, flestir sjá ekki þá ásælni, en þeir sem sáu, og vörðust Orkupakka 3, þeir hafa flestir tvístrast, til dæmis í forheimsku afneitunar á alvarleik kóvid veirunnar, í að ganga í takt við Pútín, svo dæmi séu tekin.
Eða það sem þú þekkir svo vel Gunnar, afneitað hlýnun jarðar.
Gífuryrði fá ekki breytt því varnarleysi, orkubarónarnir sækja fram því skotgrafir þjóðarinnar eru ekki mannaðar.
Hver skyldi bera ábyrgð á þeim ruglanda??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.10.2022 kl. 17:02
Árið 2035 verður sýnd mynd á Rúv sem ber heitið; Gone with the vind og fjallar um stærsta umhverfis og fjármálaslys íslandsögunnar.
Verður hún sýnd kl: 03:30 25 des 2035
Góða skemmtun.
Loncexter, 27.10.2022 kl. 17:05
Það er rétt hjá þér Ómar, að skoðanir eru oft skiptar og því þarf að ræða þær. Ég held hins vegar að skoðanir okkar á milli séu oftar nær en þú telur. Og vissulega er það slæmt að sumir þeirra sem vilja verja landið gegn ásókn erlendra vindbaróna, skulu einnig hafa tekið ranga afstöðu til sumra annarra mála. Það á þó ekki að veikja samstöðuna um það sem menn eru sammála um.
Í svari mínu við athugasend Magnúsar, hér fyrir ofan, nefni ég fund sem talsmenn þessara vindbaróna héldu hér á Akranesi. Það var einnig haldinn annar fundur, þeirra sem vilja verjast ásókn erlendu vindbarónana. Þar héldu framsöguræður fólk þvert á stjórnmálaflokka. Einnig það fólk sem tók til máls eftir framsögur. Þarna hafði fólk vit á því að horfa á kjarna málsins, óháð skoðunum annarra á öðrum málum.
Það er einmitt það sem þetta snýst um, að þjóðin sameinist um að verja landið árásum þessara erlendu fjármálaafla. Hvaða skoðun samherjinn í þeirri baráttu, hefur í öðrum málum, þarf fólk að hafa vit á að sleppa, í þeirri baráttu. Verum stærri en svo að blanda einverjum aukaatriðum saman við umræðuna um aðalatriðin.
Ég ætla ekki að karpa við þig um vindstyrk, enda sé ég ekki hvaða máli hann skiptir. Málið snýst um að verja landið okkar, náttúru þess og gildi.
Gunnar Heiðarsson, 27.10.2022 kl. 18:15
Það skildi þó ekki vera, Loncexter
Gunnar Heiðarsson, 27.10.2022 kl. 18:16
Enda var ég ekki að karpa um vindstyrk Gunnar, það eina sem ég veit að það framleiðist lítið í logni, og á þá að setja allt á hold??
Mikið rétt að þegar skotgröfin er varin, þá skiptir annað ekki máli, málið og meinið er að það verður oft lítið um varnir þegar það dugar að hlæja að varnarliðinu.
Það er þegar baráttan er háð með orðum en ekki skotum.
En verja þarf samt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.10.2022 kl. 08:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.