Vetur
9.9.2022 | 20:21
Nú síðustu daga hefur verið óvenju hlýtt hér á suð-vestur horni landsins. Hiti jafnvel skriðið upp undir 20 gráðurnar á stöku stöðum. Þetta er vissulega ánægjulegur sumarauki, eftir einstaklega kalt og leiðinlegt sumar, þar sem tveggja stafa tala á hitamælinum var fátíð og skýjahulan náði oftar en ekki til jarðar og var þaulsetin.
En nú eru breytingar. Lauf trjánna er farið að skipta litum, sannindi þess að sumri er farið að halla. Og nú í kvöld líkur sumrinu endanlega og vetur tekur völdin. Boðberi vetrar, kulda og eymdar, Gísli Marteinn kominn á skjá landsmanna, enn eitt árið. Þá verður ekki lengur um villst, veturinn leggst með þunga yfir land og þjóð.
En það er hins vegar gott hversu vel með á nótunum RUV "okkar allra" er og hversu vel þeir fóðra okkur á helstu og mestu fréttum heimsins hverju sinni. Fyrir tveim dögum sögðu þeir okkur frétt af mexíkóskri mær, sem nú býr í borg englanna í Bidenlandi, þar sem sumarið er allt árið. Mær þessi kallar sig Mapamota, stundar þar lögbrot hverja nóttu og þykir takast það með eindæmum vel. Það fer um mann hrollur að hugsa til þess að kannski hefði maður misst af þessari stórfrétt. En þökk sé RUV, sem stendur ætíð vaktina fyrir okkur, fylgist með facebook og tinder svo þjóðin fái nú örugglega nýjustu og "áreiðanlegustu" fréttir, hverju sinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.