Lenging í hengingarólinni
16.6.2022 | 07:50
Forstjóri SS boðar "methækkun" afurðaverðs til bænda í haust. Vissulega er þarna um mikla hækkun að ræða, ef mið er tekið af verðlagningu afurðaverðs undanfarin ár, en fjarri því að þetta muni bjarga bændastéttinni. Og að sjálfsögðu verður að þakka forstjóranum fyrir kjarkinn til að leiða þessa hækkun.
Ef skoðað er afurðaverð til bænda síðastliðin ár verður þó að telja þetta skammt gengið. 2016 lækkaði afurðaverð um 10% og ári síðar reið forstjóri SS á vaðið og boðaði 26% lækkun, sem reyndar endaði á bilinu 30-35% lækkun, hjá flestum afurðarstöðvum. Síðan þá hafa hækkanir á afurðaverði vart haldið í við verðbólgu. Bændur hafa því þurft að ganga á höfuðstól sinn, þegar hann var uppurinn urðu þeir að ganga á laun sín og að lokum var svo komið að bændur þurftu að leita sér vinnu utan búsins. Í dag er staðan sú að bændur þurfa að afla tekna utan bús til að hafa í sig og á og þurfa að vinna utan bús til að greiða niður kostnað við búin. Höfuðstóllinn er enn jafn tómur og áður. Þarna erum við að tala um ástandið eins og það var áður en Pútín réðst inn í Úkraínu, með tilheyrandi hækkunum á öllum aðföngum. Það er sér kapítuli.
Því er ástandið nú komið á það stig að fjöldi bænda mun leggja upp laupana í haust. Þar munu ungu bændurnir verða fyrstir til að flýja okið, en hinir eldri koma fljótlega á eftir. Heilu sveitirnar munu því leggjast í eyði og heilu kaupstaðirnir fylgja á eftir. Landið verður fátækara.
Úkraínustríðið flýtir þessu auðvitað. Hækkanir á öllum aðföngum hefur margfaldast. Svokallaður spretthópur var stofnaður og lagði hann til að 2.5 milljarðar yrðu settir inn í landbúnaðinn vegna þessa. Þetta er eingreiðsla, aðeins fyrir þetta ár. Hvað svo? Afleiðingar stríðsins eiga eftir að vara lengi, jafnvel þó hægt væri að ljúka því strax í dag. Þessir tveir og hálfur milljarður dugir skammt fyrir þær hækkanir sem þegar eru komnar, hvað þá framhaldinu!
Því verður vart séð að metnaður stjórnvalda til að bjarga bændastéttinni sé mikill og ekki heldur séð að forstjóri SS geri ráð fyrir að fyrirtæki hans verði starfandi mikið lengur. Ef engir bændur eru, þá er heldur ekkert SS.
Vandi bændastéttarinnar er mikill. Of langt væri að telja hann allan upp en nefna má dæmi. Afurðaverð er langt undir því sem tíðkast í viðmiðunarlöndunum, svo munar um 80%. Það er auðvitað stærsti vandinn. Annað sem er svolítið undarlegt að kálfum sé slátrað nánast við fæðingu, engum til gagns, til þess eins að rýma fyrir innflutningi á erlendu kjöti á okkar örmarkað. Það er auðvitað galið og vart í anda þeirrar stefnu að minnka kolefnislosun! Svona mætti lengi telja, stjórnun og hugur stjórnmálastéttarinnar fer ekki saman.
Erlendis þykir sjálfsagt að bændur hafi laun sem hægt er að lifa af og engar deilur eru um það meðal þeirra þjóða. Þar þykir líka sjálfsagt að ríkið komi til hjálpar þegar áföll skella á, eins og stríð með öllum þeim afleiðingum sem því fylgir. Eftir fall Loðvíks 15 í Frakklandi, áttuðu stjórnmálamenn sig á því að fólk þarf mat, og eftir tvær heimstyrjaldir á síðustu öld áttuðu stjórnmálamenn sig á mikilvægi þess að hver þjóð væri sér sem mest sjálfbær í sinni matvælaframleiðslu. Erlendis býr stjórnmálastéttin enn að þessum vísdóm, meðan sú íslenska virðist sem fyrr, telja sig vita betur!
Þessar aðgerðir, spretthópsins og forstjórans, munu sjálfsagt leiða til þess að einhverjir bændur munu fresta brottför úr stéttinni, þá helst eldri skuldlausir bændur. En þetta er þó ekkert annað en lenging í hengingaról bændastéttarinnar. Landið mun leggjast í eyði að stórum hluta.
![]() |
SS boðar methækkun á afurðaverði til bænda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:55 | Facebook
Athugasemdir
Góð samantekt Gunnar á glórulausri landbúnaðarstefnu, og því má bæta við að alltaf verður erfiðara að gera fjallskil vegna fámennis.
Það hefur verið unnið ötullega að því að leggja landið í auðn og stúta matvælasjálfbærni þjóðarinnar fyrir milliliði innflutningsins. Þetta á eftir að hefna sín.
Magnús Sigurðsson, 16.6.2022 kl. 13:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.