Maður verður hugsi

Maður verður nokkuð hugsi við lestur þeirrar fréttar er tengjast þessu bloggi.

Í fyrsta lagi er ánægjulegt að ráðamenn skuli átta sig á að orkuskipti kalla á aukna raforkuframleiðslu, enda erfitt að átta sig hvernig hætta skuli innkaupum á orku án þess að samsvarandi orka sé til staðar í landinu.  Í öðru lagi má einnig gleðjast yfir að ráðamenn átta sig á að nýsköpun kallar einnig á aukna orkuframleiðslu í landinu.  Og í þriðja lagi gleður að vita að í rammaáætlun eru nægir kostir til þessarar aukinnar orkuframleiðslu.

Hitt er ekki eins ánægjulegt að sjá, að stjórnvöld skuli vera búin að ákveða vindorka skuli skipa stóran sess í orkuframleiðslu framtíðarinnar, hér á landi. Við búum við þann lúxus að eiga nægar uppsprettur orku, hér á landi, aðrar en vindorkuna. Því ætti vindorkan ekki að vera til umræðu hér á landi, a.m.k. ekki á þessari öld.

Ráðherra talar væntanlega fyrir munni ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það hlýtur því að vera búið að afgreiða það innan hennar, þó Alþingi sé ekki upplýst um það ennþá. Ráðherrann telur vindorku skapa litlar breytingar á landi. Það er þó sennilega engin orkuframleiðsla sem hefur meiri umhverfisáhrif en einmitt vindmillur, hvort heldur er í nærumhverfi þeirra eða fjær. Að reisa eina vindmillu, af þeirri stærð sem menn vilja reisa hér á landi, veldur óafturkræfum skaða á landinu og umhverfi þess. Fyrir hverja eina vindmillu þarf að lágmarki 1000 rúmmetra af steypu með áður óþekktri stærð af járnabindingu. Þetta er áður en upp úr jörðu er komið. Þar ofaná er síðan reyst stálrör upp á fleiri hundruð tonn, nærri 140 metra upp í loftið. Ofaná þennan turn er síðan plantað rafstöðvarhúsi á stærð við einbýlishús og á það síðan settir spaðar sem verða um 80 metrar á lengd. Hæð þessa mannvirkis verður, með spaða í hæstu stöðu, komin á þriðja hundrað metra frá jörðu! Þá eru ótaldar allar vegaframkvæmdir vegna þessara ófreskja og annað rask. Olíumengun frá þessum vindmillum er vandamál sem enn er óleyst, en þó er kannski stærst vandamálið örplastmengun frá spöðum þeirra. Enn hefur ekki tekist að vinna bug á þeim vanda að spaðarnir endast ekki nema hálfan líftíma vindmilla, þá er þeim skipt út. Óþarfi á að vera að þurfa að nefna sjónmengun, lágtíðnimengun og fugladrápið.

Það hafa orðið nokkrar framfarir í smíði vindmilla á síðustu árum. Þær framfarir snúa að því einu að auka afl þeirra og hefur verið leyst með þeirri einföldu aðferð að stækka þær. Allir aðrir agnúar vindmillna er sá hinn sami og í upphafi, einungis aukist í takt við aukna stærð þeirra.

Vindmillur eru ein óáreiðanlegasta aðferð við framleiðslu á raforku. Jafnvel sólorkuframleiðsla er áreiðanlegri kostur. Þegar ekkert annað er í boði má skoða vindorkuframleiðslu og þá einungis nærri þeim stað er orkan skuli notuð. Svo óáreiðanleg orkuframleiðsla sem vindorkan er, má alls ekki við því að bæta þar ofaná orkutapi vegna flutnings orkunnar um lengri veg. 

Forstjóri Landsvirkjunar lætur mikið með að staða lóna hafi verið slæm í byrjun vetrar. Ekki ætla ég að deila við hann um það. Hitt má ljóst vera að hafi sú staða verið uppi má vart kenna veðurguðunum um. Þar er ástæðan einfaldlega sú að orkusalan er komin yfir framleiðslugetu fyrirtækisins. Forstjórinn, stjórn fyrirtækisins og stjórnvöld landsins hafa sofið á verðinum, eða öllu heldur ekki þorað að tala um augljósan hlut. Tabú segir ráðherrann og vissulega má samþykkja það. En hvers vegna er það tabú? Eiga stjórnvöld hverju sinni ekki að sjá til þess að grunnþjónustan sé til staðar? Ef það er tabú að ræða þessi mál, geta stjórnvöld sjálfum sér um kennt. Þau hafa leift umræðunni að þróast á þann veg og eiga fulla skömm fyrir!

 

 


mbl.is Segir umræður um virkjanir vera „tabú“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ágætis yfirferð á vindmyllu vitleysunni Gunnar, svo má bæta því við að sprengjusveit Landhelgisgæslunnar átti í megnustu vandræðum með að sprengja niður það sem upp úr jörðu stóð af þessum tveim vindmyllum sem hafa ekki urðu til annars en gjaldþrota vandræða á Íslandi.

Magnús Sigurðsson, 11.3.2022 kl. 22:20

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Við tölum nú ekki um ósköpin Magnús  :)

Gunnar Heiðarsson, 12.3.2022 kl. 13:37

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hamrað hefur verið á þeirri síbylju oft í hverjum fréttatíma að undanförnu að það þurfi að meira en tvöfalda orkuframeiðsluna til þess að rafvæða bílaflotann.  Þetta þýðir gróflega að fara úr tæplega 3000 uppsettum megavöttum núna upp í um 6000 megavött!  

Það er hægt að reikna það óyggijandi á marga vegu hve mikið rafbílaflotinn taki, í mesta lagi 200 megavött. 

Nú þegar notar stóriðja í eigu útlendinga sem flytur ágóðann úr landi, meira en 80 prósent af orkuframleiðslu landsins, og heimili landsmanna nota aðeins 5 prósent. 

Sýnir galna heildarsýn. 

Ómar Ragnarsson, 12.3.2022 kl. 18:36

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það þarf ekki að deila um að auka þarf raforkuframleiðslu fyrir orkuskipti bílaflotans, Ómar. Hversu mikið geta menn deilt um. Ef eingöngu er talað um einkabílaflotann er þörfin kannski ekki svo mikil, en ef allir landflutningar, skipaumferð og jafnvel loftför eru talin með, er ljóst að þörfin er töluverð. 

Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að þjóðin stækkar ört, með tilheyrandi orkuþörf og atvinnuþörf, sem einnig  kallar æ aukna orku.

Minn pistill var þó fyrst og fremst um aðferðafræðina við þessa orkuöflun. Þar virðast stjórnvöld vera búin að ákveða stór aukningu í vindorkuframleiðslu, án aðkomu Alþingis. Það er nokkuð magnað að þeir sem mest hafa barist gegn því að rafmagnmöstur séu reyst til að flytja orkuna milli landshluta, virðast vera hlyntir vindmillum, í það minnsta heyrist lítil gagnrýni þaðan. Það kallast hræsni. 

Gunnar Heiðarsson, 13.3.2022 kl. 09:25

5 Smámynd: Hörður Þormar

Eitt sinn heyrði ég virtan náttúrufræðing segja að sennilega væri besta aðferðin til að vernda Gullfoss sú að virkja hann.

Fossar eru sífellt að breytast og sennilega lítur Gullfoss allt öðruvísi út nú í dag heldur en á landnámsöld. Með því að gera göng framhjá fossinum mætti stjórna rennsli hans og draga úr þessum breytingum.

Ekki þori ég að nefna nafn þessa ágæta fræðimanns og því síður að hafa skoðun á þessum ummælum hanswink.

Hörður Þormar, 13.3.2022 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband