Við lifum svarta tíma.
28.2.2022 | 01:01
Enn aukast líkur á heimsstyrjöld, af þeirri tegund sem áður er óþekkt. Pútín virðist gjörsamlega hafi glatað vitinu og hótar nú beitingu kjarnavopna. Hvar þeim skuli beitt er ekki vitað, en líkur eru á að það muni ekki vera nærri Rússlandi, ekki í Úkraínu. Hundar skíta sjaldan nærri bæli sínu.
Nú hafa vestrænir stjórnmálamenn loks áttað sig á hvað virkilega er í gangi, að verið er að hernema fullvalda ríki með hervaldi og mannfórnum. Aðgerðir þeirra eru ágætar, svo langt sem þær ná. Aðstoð með hervopn mun vissulega hjálpa Úkraínu, en alls ekki nóg til að hrekja Pútín til baka. Viðskiptaþvinganir bitna fyrst og fremst á óbreyttu fólki, innan og utan Rússlands. Þær munu ekki vinna þetta stríð.
Beiti Pútín kjarnorkuvopnum er spurning hvar það verður. Hann segir það svar við "fjandsamlegum" aðgerðum vesturvelda, svo líklega mun hann hugsa þau sem skotmörk. Hvað ætla vesturveldin að gera þá? Skjóta kjarnorkuflaugum til baka? Það stríð vinnur enginn!
Á vesturlöndum hefur fyrst og fremst verið horft til að byggja upp varnir gegn tölvuhernaði, að þaðan stafaði mesta ógnin. Nú sést að það var skáldskapur. Hvorki gat Pútín nýtt sér þá aðferð gegn Úkraínu, né hafa vesturveldin getað stoppað hann af í sinn árárás, eftir tölvuleiðum. Enn er stríð framið með mannfórnum. Á meðan vesturlönd einblína á tölvur, hafa bæði Rússar og Kínverjar byggt upp heri sína. Nú er svo komið að sjóher Kína er orðinn stærri en sjóher Bandaríkjanna, bæði er varðar fjöld hermanna og skipa. Því lítið mál fyrir Xi að fylgja fordæmi Pútíns og yfirtaka Taívan. Reyndar miklar líkur á að hann muni gera það.
Það eru svartir tímar framundan. Af aumingjaskap var einum kexrugluðum harðstjóra leift að ráðast með her inn í fullvalda ríki og slátra þar íbúum. Það var ekki fyrr en þeir áttuðu sig á að þessi ruglaði maður horfði einnig í átt til þeirra sem einhverjir vöknuðu. En það var of seint. Mannslífum hefur verið fórnað af óþörfu.
Ekki verður séð hvernig allsherjarstríði verður afstýrt. Eina leiðin er að fella Pútín af stóli. Það tekur tíma. Hins vegar tekur það hann ekki nema eitt símtal að senda kjarnorkuflaugar af stað. Hvar Ísland lendir í því stríði er algerlega óljóst.
Við lifum svarta tíma.
Kjarnorkusveitir Rússa í viðbragðsstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.