" Er ekki bara best að selja þetta"
30.10.2021 | 00:36
Það hefur ótrúlega lítil umræða átt sér stað um nýjustu vendingar Íslandspósts. Einhvern veginn eins og enginn þori.
Íslandspóstur hefur gefið út nýja verðskrá, þar sem hækkanir eru allt að 102% fyrir veitta þjónustu. Meðaltalshækkun eitthvað minni. Þegar þessi verðskrá var tilkynnt var því haldið fram að fyrirtækinu væri skylt að láta verðskrá sína endurspegla kostnað við þjónustuna. Þetta er svo sem gott og gilt, en aðferðafræðin sem notuð var er hins vegar galin.
Það liggur auðvitað fyrir að ódýrast er að bera út póst næst flokkunarstöð Íslandspóst, enda fer allur póstur þar í gegn, hvaðan sem er á landinu. Bréf sem sent er milli húsa á Ísafirði þarf að eiga viðkomu í þessari flokkunarstöð fyrirtækisins í Reykjavík. Það er væntanlega af því að þessi flokkunarstöð var dýr í uppsetningu, er reyndar nokkuð fullkomin og getur sinnt margfalt stærri markaði en til er hér á landi, en dýr framkvæmd. Því var sú regla sett hjá póstinum að öll flokkun á pósti skuli fara fram í Reykjavík. Það þarf jú að nýta fjárfestinguna, sem stór spurning er hvort var nauðsynleg.
Í nýju verðskránni er landinu skipt upp í fjögur svæði, hvert með sinni verðskrá. Höfuðborgarsvæðið, í þrengsta skilningi þess orðs, er á svæði eitt. Svæði tvö tekur yfir flesta stærri kaupstaði á landinu, svæði þrjú yfir minni kaupstaði og einstaka þorp. Svæði fjögur nær síðan yfir allt annað, þ.e. sveitir landsins og sum minni þorp. Ekki verður séð hvaða skilgreiningu pósturinn notast við þegar þorp eru valin, hvort þau falli undir svæði þrjú eða fjögur, einna hellst að sjá að þar ráði hendingin ein.
Þessi skilgreining getur ekki og mun ekki geta endurspeglað kostnað við póstburðinn. Það er t.d. vandséð að hægt sé að rökstyðja það að ódýrara sé að senda pakka frá Reykjavík til Ísafjarðar eða Egilstað, en að senda sama pakka á sveitabæ á Kjalarnesi. Að kostnaðarmunur þar á milli sé nærri 65%, Kjalarnesinu í óhag. Þannig mætti lengi bera saman ruglið í þessari verðskrá Íslandspósts, en megin málið er að fjarri er að hægt sé að halda því fram að hún endurspegli á einhvern hátt kostnað við þjónustuna. Þarna fer fyrirtækið af stað með dulbúna ástæðu til að stór hækka þjónustu sína, auk þess sem dregið er úr henni. Til dæmis ekki lengur bornir út pakkar á það svæði sem skilgreint er sem svæði fjögur, fólk verður að sækja þá á næstu póststöð. Þetta hvoru tveggja bitnar mest á landsbyggðinni, eins og svo gjarnan.
Hafi Alþingi sett lög um að gjaldskrá póstsins skuli taka mið af kostnaði við póstburð, átti einfaldlega að reikna landið sem eina heild og leggja flata hækkun á allt landið. Alþingi og fulltrúar okkar þar, hafa verið gjarnir á að tala um að bæta þurfi aðstöðumun landsbyggðarinnar. Því getur vart verið að sett hafi verið lög um að auka misréttið á þessu sviði.
Annað mál, sem reyndar var heldur meira rætt í fjölmiðlum, var salan á Mílu úr landi. Kaupandinn, franskur fjárfestingasjóður, hefur sagt að ekki sé ætlunin að hlera búnað Mílu, að ekki muni koma til verðhækkana á þjónustu fyrirtækisins og jafnvel að innspýting verði í þjónustu þess. Ja, mikið andskoti er Míla öflugt fyrirtæki, ég segi ekki annað. Ef hægt er að leggja fram yfir 70 þúsund milljónir til kaupa á því, halda gjaldskránni niðri og auka þjónustuna, hlýtur þetta fyrirtæki að vera hrein gullkú. Þegar fjárfestingasjóður, sem að eðli sínu er stofnaður til þess eins að ávaxta fé sitt og ekkert annað, getur lofað slíku, er ljóst að stór mistök voru að selja fyrirtækið.
Sá ráðherra sem með þessa málaflokka fer, póstburð og fjarskipti, er formaður Framsóknarflokks, að hans sögn eina "samvinnuflokks" landsins. Það er nokkuð langt frá því að samvinnuhugsjónin ráði þarna gerðum, hvort heldur er gjaldskrá Íslandspósts eða salan á Mílu. Þó leggur þessi ráðherra blessun sína yfir þessar gerðir og brosir bara!
Það er spurning hvort slagorð Framsóknar fyrir síðustu kosningar, "Er ekki bara best að kjósa Framsókn" hefði ekki átt að vera "Er ekki bara best að selja þetta".
Fyrir ekki margt löngu voru bæði póstsamgöngur og fjarskipti talin til grunnþjónustu landsins og þannig er það víðast um heim. Einungis ESB hefur skilgreint þetta sem vöru og vara skal vera sett á markað. Gegnum EES samninginn erum við föst í vef ESB og ráðum lítt hvernig hlutir hér á landi eru skilgreindir. Ef ESB segir að eitthvað sé vara, þá verður Alþingi okkar að breyta lögum til samræmis við það. Það styttist í að menntamál og heilbrigðismál og reyndar allt sem nöfn ná yfir, verður skilgreint sem vara innan ESB. Að eini málaflokkurinn sem teljist til grunnþjónustu verði hinn nýi Evrópuher.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.