Þá hefst baráttan um háu stólana
28.9.2021 | 08:26
Jæja, þá er kosningum lokið. Að loknum kosningum þykjast auðvitað allir vera sérfræðingar í að lesa úr vilja þjóðarinnar. Ekki ætla ég að vera eftirbátur annarra á því sviði, þó kannski mínar skýringar séu lítt skárri en annarra.
Einfaldast skýringin er að kjósendur völdu að hlusta á kosningaloforð í stað þess að skoða verk stjórnmálamanna. Eitt elsta trix í stjórnmálum lifir því vel, jafnvel hægt að nýta sömu kosningaloforðin aftur og aftur, kosningar eftir kosningar, kjósendur falla alltaf á prófinu. Þetta er sorgleg staðreynd.
Ljóst er að engin vinstri sveifla kemur út úr þessum kosningum, VG, Samfylking og Píratar tapa allir í kosningunum, sem segir einnig að þjóðinni er annt um sjálfstæði sitt og vill ekki hálendisþjóðgarð.
Flokkur fólksins vann stórsigur og það segir okkur að þjóðin vill að betur sé hugað að öldruðum og öryrkjum. Sennilega flestir sem átta sig á að það góðæri sem stærsti hluti þjóðarinnar býr við, var skapaður af því fólki sem nú er skammtað úr hnefa. Að þeir sem skópu hagsældina, með svita og tárum, fá ekki notið hennar.
Undarlegast er þó það tap sem Miðflokkurinn varð fyrir. Þar má sennilega um kenna að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, ásamt reyndar Flokki Fólksins, voru dugleg að taka í sín kosningaloforð verk Miðflokksins á þingi, jafnvel þó skort hafi á samvinnu við hann um málin þegar umræðan um þau stóðu á alþingi. Má þar til dæmis nefna hálendisþjóðgarðinn, orkupakkamálið og ýmis mál er snúa að sjálfstæði okkar og yfirráðum yfir landinu. Þar stóð Moðflokkurinn einn vörð þjóðarinnar í verki. Nú reynir á að þessir flokkar standi við kosningaloforðin, þó framferði þeirra á því sviði hingað til, geri mann ekki bjartsýnan.
Það má túlka þessar kosningar um ýmis önnur málefni, t.d. svokallaða "nýja stjórnarskrá". Lítill vilji virðist til að fylgja því máli eftir. Fleiri mál má nefna en læt þetta duga - í bili.
Og eftir kosningar heft svo rifrildið um stólana, þessa háu. Allir vilja jú snúa á móti þingmönnum í sal alþingis, að ekki sé nú talað um fínu og flottu skrifstofurnar sem þeim stólum fylgir. Og aðstoðarmennirnir, maður minn! Það er ekki ónýtt að geta látið einhvera vini fá væn embætti, vel launuð embætti!
Þetta kristallast í þeirri frétt sem þetta blogg er hengt við. Ríkisstjórnin hélt vissulega velli, en misjafnt var hvernig stjórnarflokkarnir voru kjósendum þóknanlegir. Þetta breytir auðvitað valdahlutföllum stjórnarflokkanna. Framsókn græddi 5 þingmenn meðan VG tapaði 3. Því hlýtur að þurfa nýjan stjórnarsáttmála, sem endurspeglar þennan vilja þjóðarinnar. Þau málefni sem VG stendur fyrir hljóta að vega minna en áður og að sama skapi hljóta málefnin sem Framsókn lofaði að vega þyngra. Ekkert virðist þó vera farið að ræða þessar staðreyndir, alla vega ákaflega lítið. Hins vegar er byrjað að rífast um stólana. SIJ vill auðvitað fleiri ráðherrastóla, Bjarni er tilbúinn að gefa eftir fjármálaráðuneytið, en einungis með vænni ábót. þ.e. 2 fyrir 1.
Það er svo sem ekki nein ástæða fyrir Sjalla og Framsókn að gefa neitt eftir, geta í raun myndað þriggja flokka stjórn með hvaða flokki sem er, jafnvel Miðflokki. Vandinn er kannski að ansi margir stjórnmálamenn á vinstrikantinum voru með stórkallalegar yfirlýsingar fyrir kosningar, sögðust ekki geta unnið með hægri flokkunum. Jafnvel formaður Viðreisnar fullyrti slíkt, jafnvel þó sá flokkur sé kannski sá flokkur sem er lengst til hægri í íslenskri pólitík. Það er hætt við að hún býti í vörina á sér núna, þegar ljóst er að eini möguleiki hennar til ráðherraembættis er með samstarfi við sína fyrrum félaga í Sjálfstæðisflokki.
Samantekið, miðað við kosningaloforð og niðurstöður kosninga:
Ekki ESB eða evra
Ekki hálendisþjóðgarð
Ekki op4
Ekki gjörbyltingu stjórnarskrár
Ekki byltingu sjávarútvegs í landinu
Minni áherslur á að reyna að breyta veðurfari með skattaálögum
Landsmenn vilja auka hag aldraðra og öryrkja
Landsmenn vilja meiri framfarir, minna afturhald, enda eru framfarir eina leiðin áfram.
Stjórnin gefur sér út vikuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:31 | Facebook
Athugasemdir
Endurskoðun EES samningsins hvað varðar kjötinnfluttning.(Framsókn að láni frá Miðflokki)
Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 28.9.2021 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.