Þegar hljóð og mynd fara ekki saman

Mikill brestur er á því að hljóð og mynd fari ekki saman hjá stjórnmálafólki, einkum skömmu fyrir kosningar. Nú eru til dæmis flestir flokkar sammála um að stórefla þurfi aðgerðir gegn svokallaðri loftlagsvá, en ekki hægt að sjá að lausnir sem þeir nefni muni neitt hjálpa þar til. Því síður er hægt að sjá að gerðir þeirra hingað til hafi mikið hjálpað, í sumum tilfellum beinlínis gert ástandið verra.

Vegagerð um Kjalarnes er eitt skýrt dæmi þar sem hljóð og mynd fara ekki saman. Þörf framkvæmd en mun sennilega vera sú framkvæmd sem mest mun auka losun co2 út í andrúmsloftið. Þvert á orð stjórnmálamanna, sem þó tóku þá ákvörðun um þessa framkvæmd.

Þarna er nú verið að leggja svokallaðan 2+1 veg, þ.e. tvær akreinar í aðra áttina og eina í hina. Auk þess verður lagður nýr vegur, svokallaður tengivegur með einni akrein í hvora átt, meðfram aðalveginum, sumstaðar beggja vegna hans. Því er nú verið að leggja allt í allt frá fimm akreinum upp í sjö akreinar um Kjalarnesið. Mikil og kostnaðarsöm framkvæmd, sem maður skildi ætla að skilaði af sér betri samgöngum og kannski umfram allt minni mengun. En því fer fjarri.

Samgöngur um Kjalarnesið munu verða tafsamari en áður, verri samgöngur. Það skapast af því að þrenn hringtorg verða þarna sett á þjóðveg eitt. Hringtorg hafa þann leiðinlega ágalla að verulega þarf að hægja á umferð gegnum þau. Akstur um þjóðvegi miðast við 90 km/klst, en í gegnu hringtorg er ekki komist á meiri hraða en kannski 25 km/klst, hægar fyrir stóra bíla. Þetta leiðir af sér gífurlega mikla aukningu á mengun frá bílum. Rafbílar eru að vísu að taka yfir fólksbílamarkaðinn, þannig að mengun frá þeim mun í framtíðinni ekki verða svo mikil, þar verður fyrst og fremst um að ræða tafsama umferð. En vöruflutningabílar munu aftur á móti áfram verða á olíu í einhveri mynd, alla vega svo langt sem séð er. Og þar mun einmitt mengunin aukast mest. Það þarf mikla orku til að hægja 40 tonna bíl frá 90 niður í nánast ekki neitt og margfalt meiri orku til að ná þeim aftur upp í 90. Þarna erum við að tala um alvöru mengunar aukningu.

Þegar matsáætlun fyrir þessa framkvæmd er skoðuð sést að auk þessara þriggja hringtorga er gert ráð fyrir fimm undirgöngum undir sjálfan þjóðveginn og a.m.k. ein þeirra eru ætluð akandi umferð. Þá spyr maður; hvers vegna var ekki hægt að gera þrenn mislæg gatnamót á þennan veg og sleppa hringtorgunum. Áætluð undirgöng hefðu þá sameinast þessum mislægu gatnamótum. Ef hljóð og mynd hefði farið saman, þegar ákvörðun um framkvæmdina var tekin, hefði væntanlega verið litið þannig á að þó að einhver aukakostnað hlytist af mislægum gatnamótum, í stað hringtorga að annarra undirganga, væri sá kostnaður réttlætanlegur í nafni minni mengunar. En mynd og hljóð fóru ekki saman þarna, ekki frekar en í svo mörgum öðrum ákvörðunum stjórnmálamanna.

Það er mörg framkvæmdin á sviði gatnagerðar undarleg innan marka Reykjavíkurborgar, í nafni þess að auka eigi almenningssamgöngur. En þó Kjalarnesið tilheyri Reykjavík, er þessi framkvæmd á vegum ríkisins. Því ætti aðkoma borgarinnar ekki að þurfa að menga þessa vegaframkvæmd. Þarna fara fáir sem geta nýtt sér almenningssamgöngur, jafnvel þó strætó sé þarna með ferðir um svæðið. Skipulag þeirra er með þeim hætti að fáir geta nýtt sér þær, ekið er þarna um á stórum hálftómum bílum sem fara fáar ferðir yfir daginn. Þá er þjónusta þessara vagna á tiltölulega þröngu svæði og margir þeir sem um Kjalarnesið fara algerlega utan þjónustu þeirra. Þungaflutningar eru miklar um Kjalarnesið og þar mun mengun aukast mest. Ef mislæg gatnamót hefðu verið gerð, í stað hringtorga, hefði umferð batnað verulega og mengun minnkað, jafnvel þó um 2+1 veg væri að ræða. 

En það má taka fleiri dæmi þar sem hljóð og mynd fara ekki saman. VG leggur sennilega mestu áherslu á aðgerðir til bjargar andrúmsloftinu. Þó vill þessi flokkur öðrum fremur taka stóran hluta landsins undir þjóðgarð og útiloka okkar helstu leið til hjálpar jarðkringlunni á þessu sviði, með framleiðslu á endurnýtanlegri og mengunarlausri orku, til að framleiða það sem heimsbyggðin þarf. Þarna er fjarri því að hljóð og mynd fari saman, líkast því að þögul kvikmynd frá upphafi framleiðslu þeirra yrði talsett með tali úr nýjustu kvikmyndum.

Stjórnmálamenn lögðu blessun sína yfir að erlendir aðilar keyptu upp jörð hér á landi, í þeim tilgangi að flytja þaðan út malarefni til Evrópu og Ameríku. Sagt að þetta sé til framleiðslu á "vistvænni" steypu! Þvílík steypa, hversu vistvæn getur steypa orðið þegar efni í hana er ekið á stórum flutningabílum yfir hálft landið og síðan siglt yfir hafið á svartolíu brennandi skipum?! Að ekki sé talað um þann skaða sem landið okkar hlýtur af. Stjórnmálamenn tala um að landið eigi að vera í eigu Íslendinga, að verja eigi landið gegn skaða og minnka eigi mengun. Allt er þarna brotið og hljóð og mynd fjarri hverju öðru.

Þá er ekki annað að sjá en að stjórnmálamenn séu búnir að sannmælast um að Ísland verði paradís vindmillubaróna, sem hingað geti komið og plantað niður risastórum vindmillum á hvaða hól sem þeim dettur í hug og þurfi síðan ekki að þrífa eftir sig skítinn þegar ævintýrinu lýkur. Vindmillur eru sennilega einna mest mengandi orkugjafar veraldar og allra óhagkvæmastar. Þarna sækjast menn eftir skammtímagróða en ætla öðrum eftir skítinn og tapið.

Það má halda áfram endalaust með slík dæmi, þar sem hljóð og mynd stjórnmálamanna fer ekki saman. Við þekkjum þetta svo sem, enda ekki verið að kjósa hér á landi í fyrsta sinn. Það sem kannski er breytt er að á loftlagssviðinu eru flestir flokkar sammála í hljóðinu en myndin er nokkuð mismunandi og hjá sumum þeirra er enga mynd að sjá.

Einn flokkur hefur bent á að skoða þurfi málið í stóru samhengi, þ.e. á heimsvísu. Þannig gætum við lagt mikið til þessara mála með því að bjóða öðrum þjóðum að koma hingað og framleiða sínar vörur hér á landi, með endurnýtanlegri og hreinni orku. Þarna fer hljóð og mynd saman. Aðrir flokkar virðast ekki sjá lengra en á tær sér!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband