Hatursorðræða
1.2.2021 | 09:35
Það er auðvitað graf alvarlegt mál þegar menn ganga um bæi eða borgir, skjótandi út í loftið. Hingað til hefur Víkingasveitin verið kölluð til í slíkum málum og handtekið þann skotglaða, jafnvel þó einungis hafi sést til manns með eitthvað sem líktist byssu. Einhverra hluta vegna tókst þó einhverjum að skjóta á bækistöðvar stjórnmálaflokka og á bíl borgarstjórans án þess að nokkur yrði var við, fyrr en eftir á. Virðist sem að baki liggi eingöngu skemmdarverk, að ekki hafi verið ætlunin að skaða líf eða limi nokkurs manns. Engu að síður er þetta óafsakanlegt verk og ekki hægt að ætla annað en að þarna hafi verið um andlega veika persónu að ræða.
En stjórnmálin eru söm við sig og sumir gripið þetta atvik til að upphefja sjálfa sig og úthúða andstæðingnum. Ásakanir í garð stjórnmálaflokka voru fljót að spretta upp, ekki síst frá þeim er standa næst borgarstjóra. Sjálfur hefur hann verið duglegur að nýta þetta og leikið fórnarlamb af miklum móð, jafnvel þó víst sé að líf hans hafi aldrei verið í hættu. Þá er reynt að kenna svokallaðri "hatursorðræðu" í fjölmiðlum um þessi atvik og haldið fram að stjórnmál í dag séu svo óvægin.
Stjórnmál er í eðli sínu óvægin og þeir sem velja að feta inn á þann völl verða að sætta sig við að fórna stórum hluta persónufrelsi sínu. Oft hafa menn verið orðljótir, steytt hnefa og jafnvel gengið að andstæðingi sínum í þingsal og lamið í öxlina. Hin síðustu ár hefur heldur dregið úr slíku ofbeldi og sýnist sitt hverjum um það. Sumir segja það merki um deyfð, doða og almennan aumingjaskap stjórnmálamanna, að þeir hafi ekki lengur kjark til að standa á sinni skoðun. Víst er að stjórnmál voru skemmtilegri hér áður fyrr, þegar menn skiptust á skoðunum, stundum með kannski full stórum orðum. Í dag er bara sagt það sem "má" segja og varla það.
Svokölluð hatursorðræða er eitthvað sem erfitt er að skilgreina. Ekki er þó hægt að halda fram að hún sé stunduð milli stjórnmálamanna, þó ansi tæpt hafi stundum verið á því innan borgarstjórnar, einkum þegar ákveðnir fulltrúar þar hafa ráðist gegn oddvitum þeirra flokka sem eru í minnihluta. Þó verður sennilega frekar að flokka þær árásir á barnaskap þeirra er fluttu. Heilbrigð gagnrýni getur aldrei flokkast sem hatursorðræða, jafnvel þó stór orð falli og jafnvel þó kannski sé ekki allt nákvæmlega eftir sannleikanum. Hvenær hefur stjórnmálamaður sagt allan sannleikann? Hins vegar eru ummæli sem falla í athugasemdum fréttamiðla oft þess eðlis að hægt er að tala þar um hatursorðræðu. Þar er þá einkum um að ræða truflað fólk sem ekki hefur kjark til að rita undir eigin nafni. Það sem sammerkt er með þeim ummælum er að þau snúast einkum gegn tveim stjórnmálaflokkum, Sjálfstæðisflokki og Miðflokki og þeim sem þar eru í ábyrgðarstöðum. Þetta má uppræta með því einu að hafna öllum skrifum frá þeim sem ekki hafa kjark til að setja nafn sitt við þau.
Umræðan um meinta hatursorðræðu er komin á hættulegt stig. Stjórnmálamenn eru farnir nýta sér þetta hugtak í auknum mæli til að þagga niður í andstæðingum sínum. Farið er að tala um að setja ströng lög gegn meintri hatursorðræðu. Þarna erum við komin út á hættulegt svið og stutt í að tjáningarfrelsið falli og þá um leið lýðræðið. Verst er þó að þeir sem hæst kalla eftir böndum á meinta hatursorðræðu, eru í flestum tilfellum þeir sem kannski nálgast mest þau mörk í sínum málflutningi.
Það er hverjum ljóst að enginn stjórnmálaflokkur á aðild að þessum skotárásum, hvorki beint né óbeint. Vissulega eru sumir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn duglegri en aðrir í aðhaldi gegn valdhöfum og ekki vanþörf á. Það er engum valdhafa hollt að geta unnið án gangrýni, þó flestir sem í slíka stöðu komast kjósa það hellst. Slíkt er fyrsta skref í afnámi lýðræðisins.
Að andlega vanheill maður skuli geta gengið um borgina, skjótandi á dauða hluti í þeim eina tilgangi að eyðileggja, er graf alvarlegt mál. Hvar er lögreglan? Hvar eru samborgararnir? Er það virkilega svo að hægt sé að stunda slíkan verknað án þess að nokkur verði var fyrr en löngu seinna? Eru ekki eftirlitsmyndavélar um alla miðborgina? Hvernig má þetta vera? Enn alvarlegra er þegar stjórnmálamenn vilja láta slíkan atburð snúast um sig og jafnvel vilja kenna andstæðingum í pólitík um. Er það ekki hatursorðræða?
Ekki fara á límingunum! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Löggæsla, Stjórnmál og samfélag, Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 09:37 | Facebook
Athugasemdir
Stórkostleg grein og orð í tíma töluð. Ég er algjörlega sammála því að orðið "HATURSORÐRÆÐA" verði skilgreint almennilega. Ég fæ ekki betur séð að ef menn hafa ekki "réttar" skoðanir sé það skilgreint sem "HATURSORÐRÆÐA". Ég var að hlusta á endurtekningu á þætti á Útvarpi Sögu í morgun og þar talaði Kolfinna Baldvinsdóttir um að fólk hefði "hræðilegar" skoðanir, sem það setti fram á samfélagsmiðlum og athugasemdarkerfum netmiðlanna. En hver ákveður hvaða skoðanir eru "hræðilegar"og hverjar ekki?????
Jóhann Elíasson, 1.2.2021 kl. 12:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.