Algerlega í rusli
15.1.2021 | 16:34
Í Bændablaðinu, eina alvöru fréttablaði landsins, er grein um rusl, eða öllu heldur förgun á því. Svo virðist vera sem stjórnvöld hafi flotið sofandi að feigðarósi í þessum málaflokk og að tími til aðgerða sé á þrotum.
Talað er um tvær leiðir til förgunar sorps, að flytja það úr landi eða setja upp brennslu hér á landi. Urðun er ekki til umræðu og hefði í raun átt að vera fyrir löngu hætt þeirri starfsemi. Sorp er í sjálfu sér eldsneyti, rétt eins og t.d. Svíar hafa sýnt. Því er víst að ekki gangi illa að koma því til förgunar erlendis. Þar er það brennt í háhitaofnum og flokkaða plastið nýtt til að fá þann hita sem þarf til að mengun verði lítil sem engin. En er einhver glóra í að flytja rusl um langan sjóveg? Er það í raun ásættanleg lausn?
Eins og ég sagði hafa Svíar um nokkuð langt skeið brennt sorp. Varmann nýta þeir til upphitunar á vatni, sem fyrst er látið framleiða rafmagn en síðan upphitunar húsa. Þetta er hagkvæm lausn til lengri tíma, þó stofnkostnaður sé nokkuð hár. Þetta mætti nota sem fordæmi hér á landi.
Þær hugmyndir sem hér eru, eru þó nokkuð undarlegar. Þar er talað um að byggja einn stórann ofn fyrir allt landið og staðsetningin á auðvitað að vera sem næst höfuðborgarsvæðinu, þar sem rafmagn er hvað stöðugast á landinu og nægt heitt vatn. Að vísu fellur mest til af rusli á því sama svæði. Hér á landi er fjöldi svokallaðra kaldra svæða, þ.e. ekki um að ræða hitaveitu. Saman liggur með þeim svæðum yfirleitt óstöðugra rafmagn. Því væri eðlilegra og á allan hátt þjóðhagslega betra að byggja kannski tvo ofna, einn á köldu svæði á vesturhluta landsins og annan á köldu svæði á þeim eystri. Flutningur á ruslinu yrði þá kannski eitthvað meiri en nýting orkunnar margfalt meiri, auk þess að fækka köldum svæðum eitthvað.
Flokkun á rusli má auðvitað vera betri. Þó er erfitt eða útilokað að flokka plast meira en þegar er gert. Staðreyndin er að plasti er skipt upp í 7 flokka. Sumir flokkar eru auðendurvinnanlegir meðan aðra er erfitt að endurvinna. Útilokað er að flokka allt heimilisplast eftir þessari skilgreiningu, þar sem merkingar eru litlar. Sem dæmi getur venjulegur plastpoki verið gerður úr a.m.k tveim þessara flokka eða jafnvel báðum. Þá á eftir að taka til greina þá poka sem gerðir eru úr einhverskonar gerviplasti, sem sagt er eyðast hratt. Ef við tökum gosflösku þá er flaskan sjálf gerð úr PET plasti eða flokki 1, en tappinn aftur úr HDPE flokki 2. Raunveruleg endurvinnsla úr plasti, þ.e. að það verði aftur að plastvöru, verða því einungis gerð með endurvinnslu á plast frá stórnotendum. Netarusl, rúlluplast og fleira í þeim dúr er tiltölulega auðvelt að safna saman og endurvinna. Svo merkilegt sem það er, þá er slík endurvinnslustöð í gangi hér á landi.
En endurvinnsla á plast getur einnig verið á annan hátt, svona eins og ég nefndi áður að Svíar gera. Þ.e. að nýta það sem eldsneyti á ruslaofnana. Þar getur plast frá heimilum skilað miklum árangri. Því flokkum við áfram plast frá öðru rusli, eins og við höfum gert. Þurfum einungis eina tunnu undir plastið, í stað sjö.
Eins og ég sagði áður hafa verið uppi hugmyndir um útflutning á ruslinu. Þar bíða ákveðnir aðilar í startholunum enda um mikla hagsmuni að ræða. Daglega má ætla að til falli rusl hér á landi sem fyllir um 15 vel troðna gáma á dag! Það er því ekki skrítið að aðaleigendur eins stærsta ruslsöfnunarfyrirtæki landsins tali máli þess að flytja ruslið úr landi. Því miður stefnir allt í að það fyrirtæki muni njóta ávaxtar aumingjaskapar og getuleysis stjórnvalda, með tilheyrandi mengun fyrir heimsbyggðina.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Suðurnesjamenn eru mjög ánægðir með sorpbrennsluna á Reykjanestánni.
Guðjón E. Hreinberg, 15.1.2021 kl. 16:56
Auðvitað er eina vitið að nýta og brenna öllu þessu rusli okkar hér á landi, í stað þess að senda vikulega þessi þrjú til fimm hundruð tonn af eldsneyti í dönsk eða sænsk "varmeværk" og líklega borga þar fyrir utan fyrir ómakið.
En það er bara því miður þannig hér í spillingunni, að þrátt fyrir óhagræðið og tap lýðsins eða með öðrum orðum skattgreiðenda, þá eru alltaf einhverjir útvaldir sem hagnast á spillingunni.
Hver urðu örlög t.a.m. allra þeirra þjóðhagslega hagkvæmu fyrirtækja sem rausnarlegt framlag Marshall styrksins fjármagnaði í þeim tilgangi að koma fótunum undir lýðveldið unga?
Jónatan Karlsson, 16.1.2021 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.