Til eflingar kerfisins.
9.1.2020 | 22:32
Lög um Ferðamálastofu kristalla kerfi sem búið er til í þeim eina tilgangi að viðhalda eða efla kerfið.
Í þessum lögum er tiltekið hvert hlutverk stofunnar skal vera og eftirlitsstarf. Í stuttu máli má segja að hlutverkið sé fátæklegt og eftirlitsstarfið enn fátækara, einna helst þurfa verkefni og eftirlit að vera með þeim hætti að sem minnst þurfi að gera og alls ekki að stíga fæti út í raunheima.
Jú Ferðamálastofa úthlutar leyfum til ferðasala. Til að öðlast slíkt leyfi þarf ekki mikið. Viðkomandi þarf að búa innan ESB/EES, vera lögráða, hafa skráð starfsemina hjá ríkisskattstjóra og hafa gilda tryggingu innan ESB/EES. Svo mörg voru þau orð. Ekkert spáð í getu eða trúverðugleik viðkomandi, starfsfólk hans eða búnað. Reyndar bætist við ein kvöð eftir að leyfi hefur verið gefið út og kallast það öryggisáætlun. Hún má vera á rafrænu formi og engin frekari krafa gerð um trúverðugleik þeirra áætlunar né hvernig henni er við haldið. Ekki er heldur gerð krafa um að þessi áætlun sé kynnt starfsfólki, eða það þjálfað á neinn hátt og enn síður að ferðamanninum komi hún eitthvað við.
Um sviptingu leyfis er enn færra. Í raun ekki hægt að svipta ferðasala leifi nema hann gerist brotlegur við einhver ofantalinna atriða. Ef brotið er á ferðamanninum, líf hans eða limir lagðir í hættu, varðar það ekki sviptingu leyfis. Og jafnvel þó einhver ofantalinna atriða eru brotin, hefst ákveðið ferli sem tekur nokkurn tíma að fara, áður en til lokunar getur komið.
Þessi lög eru því ekki til að þjóna ferðafólki, einungis gerð til þess eins að efla kerfið og gera það örlítið flóknara.
Krafa um tryggingu ferðasala er sjálfsögð og svo ætti einnig að vera um trúverðugleik og framkvæmdir. Öryggisáætlun ætti að vera megin grunnur undir starfsemi sem snýr að ferðum með fólk og henni þarf að viðhalda og vera starfsfólki kunn.
Frosti vill að ferðamaðurinn kaupi tryggingu fyrir björgun. Eðlilegra væri að ferðasalinn kaupi slíka tryggingu og rukki ferðamanninn. Það ferli væri mun gagnsærra og auðveldara á allan hátt. Í það minnsta þarf að breyta kerfinu gagnvart björgunarsveitum landsins. Að hver galgopi geti ætt út í hvað sem er og treyst á sjálfboðaliða til björgunar úr ófæru, getur ekki gengið til lengdar. Næg eru verkefnin þó, fyrir þessar hetjur okkar.
Geta til sviptingar leyfis á að vera sterk, þannig að ferðasalar vandi sig. Hvert það atvik sem stefnir ferðafólki í hættu ætti að varða tafarlausri sviptingu, þar til mál hefur verið rannsakað og niðurstaða fengin. Allt annað er út í hött.
Og auðvitað á sá aðili sem veitir leyfið að hafa heimild til að afturkalla það.
En Ferðamálastofa var auðvitað ekki stofnuð til að sjá um ferðamál, henni er ætlað það hlutverk að efla og viðhalda kerfinu. Þar má auðvitað ekkert útaf bregða!
Verði skylt að kaupa björgunartryggingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.