Ríkið á nægt land undir rafstrengi
18.12.2019 | 09:35
Það er auðvitað slæmt að landeigandi skuli geta stöðvað lagningu rafstrengja í jörð. En er það svo? Á því eru fleiri hliðar.
Landeigandi er jú landeigandi, en þetta eiga sumir erfitt með að skilja. Rarik hefur einhliða búið til samning sem landeigendur skulu samþykkja. Þessi samningur setur verulega kvöð á það land sem strengur er lagður um og gerir það næsta ónothæft fyrir eigandann. T.d. er ekki hægt að rækta á því skóg, illmögulegt og stundum útilokað að nýta það til túnræktar og að auki þarf landeigandinn að afsala sér með öllu yfirráðarétti um hver fer um það land. Það er skiljanlegt að sumir séu ekki tilbúnir að ganga að slíkum afar kjörum.
En það er til önnur leið, leið sem kallar ekki á breytingu laga eða reglna. Þannig hagar til að þegar vegir eru lagðir kaupir ríkið það land sem þeim þarf að tilheyra, af landeiganda. Náist ekki samningur er málið gjarnan leyst með eignaupptöku og bótum. Ríkið á því það land sem undir vegi fer og að auki 24 metra út fyrir vegkant á stofnbrautum og um 12 metra út fyrir vegkant á tengibrautum. Með því að leggja rafstrengina um þetta land, sem ríkið á, þarf ekki að semja við neinn landeiganda.
Þetta þýðir auðvitað að leggja þyrfti eitthvað lengri strengi en ella en það munar þó ekki miklu. Vegir eru jú yfirleitt lagðir sem styðstu leið. Á móti þarf Rarik ekki að eyða tíma sínum í samningagerð við landeigendur, getur einbeitt sér að lagningu rafstrengja í jörð. Auðvitað á þetta fyrst og fremst við um dreifikerfi Rarik, 66kV eða minni. Dreifikerfi Landsnets, 132kV byggðalínan og 220kV línurnar til stóriðjunnar, eru kannski örlítið flóknari. Þó er líklegt að hægt væri að færa stóran hluta af byggðalínunni, 132kV, í jörð í landi ríkisins, meðfram vegakerfinu.
Það eru í raun þrír þættir sem raforkukerfinu stendur ógn af, mikill vindur, ísing og selta. Þegar tveir þessara þriggja þátt koma saman er nánast öruggt að að rafmagn fer af. Mikill vindur samhliða ísingu þyngir raflínur svo að staurar gefa sig og línur slitna. Selta, sem kemur samfara miklum vindi af hafi, veldur því að einangrar hætta að virka og útsláttur verður. Því má útiloka áhrif ísingar með því að setja línur í jörð, en áhrif vinds og seltu stendur eftir og þau áhrif eru oftast mun víðtækari, spennuvirki sem dreifa orkunni um stór svæði, verða óstarfshæf. Þetta sást vel í byrjun óveðursins í síðustu viku, þegar spennuvirkið í Hrútatungu sló út. Vestfjarðarlína og stór hluti Húnavatnssýslna varð rafmagnslaus. Reyndar sló þessu tengivirki ótrúlega fljótt út, nánast strax og vindur tók að aukast, löngu áður en vindur náði hámarki sínu. Það bendir til að fyrirbyggjandi viðhaldi sé ábótavant, að einangrarar virkisins hafi verið óþrifnir áður en veðrið skall á.
Auðvitað þarf viðhald orkumannvirkja að vera gott, sér í lagi meðan kerfið er svo berskjaldað og feyskið sem nú. Þar hefur hvorki Rarik né Landsnet neina afsökun. Það er hins vegar hægt að bæta þetta. Hægt væri að byggja yfir þessi spennuvirki og hlýtur það að vera stefnan. Þar til það er klárað má hugsa sér einhverskonar skermingu frá þeirri átt sem selta er líklegust. Og auðvitað að þrífa einangrara reglulega, fyrir veturinn og yfirfara þá sérstaklega þegar von er á veðri er getur skapað hættu á mikilli seltu.
Raforkukerfið mun því ekki verða viðunandi á landinu fyrr en búið er að setja allt dreifikerfið í jörð, efla eða jafnvel tvöfalda stofnkerfið og verja spennuvirkin fyrir seltu. Þangað til þarf að stór efla fyrirbyggjandi viðhald, þannig að þetta laskaða kerfi okkar geti hangið inni sem lengst. Það er með öllu óviðunnandi að eitt spennuvirki, fyrir stóran hluta landsins, skuli slá út nánast um leið og spáð er einhverjum vindi af hafi!
Forstjóri Rarik ætti að hætta að reyna að koma sök á aðra, hana á hann sjálfur. Ríkið á nægt land um byggðir landsins til að leggja jarðstrengi, það þarf ekki að setja landeigendum einhverja afarkosti, þarf ekki einu sinni að ræða við þá!
Grundvallaratriði að sama gildi fyrir alla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þótt óveður felli raflínur má það ekki verða til þess að virðing fyrir eignarréttinum sé látin lönd og leið. Og samningar sem kveða á um kvaðir til eilífðarnóns eru nú ekki álitnir góður pappír af almennilegum lögfræðingum, enda verulegur vafi á að slíkt standist lögfræðilega.
Annars ættu rafstrengir í jörðu að vera notaðir miklu meira og það er einkennilegt að í nýrri skýrslu um þessi mál sé jafnstraumsjarðstrengjum, sem margir sérfræðingar telja að muni taka við af riðstraumsloftlínum, sé ýtt út af borðinu í upphafi skýrslunnar. Þannig vinnubrögð eru ekki til þess fallin að skapa traust.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.12.2019 kl. 10:35
Það er auðvitað rétt Þorsteinn, það á ekki að útiloka neinn kost.
Nú þekki ég ekki kostnað við búnað til að breyta jafnstraum í riðstraum. Verið getur að hann sé svo hár að hagurinn af jafnstraumsköplum hverfi. En þá eiga menn líka að rökstyðja það, ekki útiloka í einni setningu.
Gunnar Heiðarsson, 18.12.2019 kl. 12:15
Skýrslan er aðgengileg á vef stjórnarráðsins og það er frestur út janúar til að gera athugasemdir við hana. Mikilvægt að þeir sem til þekkja geri það.
Þorsteinn Siglaugsson, 18.12.2019 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.