Þvílíkur hroki og yfirgangur
16.8.2019 | 21:13
Það verður að segjast eins og er að nokkurn tíma tók að jafna sig eftir lestur þeirrar fréttar sem hengd er við þessi skrif, svo frámunalegt sem innihald hennar er. Hvað halda þingmenn eiginlega að þeir séu? Alguðir? Er það virkilega orðið svo hér á Íslandi að gagnrýni á störf og gerðir þingmanna sé bönnuð? Held að þetta fólk ætti örlítið að líta í eigin barm og reyna að átta sig á fyrir hverja það vinnur, hverjir það eru sem veita þeim brautargengi til setu á Alþingi!!
Utanríkismálanefnd kallar fyrir sig dómara, til að fjalla um og segja sitt álit á innleiðingu tilskipunnar ESB. Þegar hann hefur lokið máli sínu og jafnvel meðan hann flytur það, er ljóst að nefndarmenn hafa þegar tekið ákvörðun og ætluðu ekki að hlusta á rök dómarans. Framkoma sumra fulltrúa nefndarinnar gagnvart þessum gesti hennar, er svo yfirmáta freklegur að erfitt er að finna sambærilegt dæmi. Það er ljóst að þeir kjósendur sem kusu Rósu Björk og Silju Dögg voru ekki að kjósa þær til setu á Alþingi til að fara fram með slíkum dónaskap! Þær hafa báðar skrifað sín lok sem alþingismenn!
Orkupakkamálið er komið á þann stað að ekki skiptir máli lengur hverjir geta fært fram sterkari rök fyrir skaðleysi eða skaðsemi þess máls. Andstaða þjóðarinnar gegn málinu magnast dag frá degi og gengur sú andstaða þvert á pólitíska sviðið. Þingmönnum hefur ekki tekist að sannfæra þjóðina og meðan svo er, er þeim ekki stætt að samþykkja þennan pakka. Slíkir einræðistilburðir eru bein ávísun á eitthvað sem ekki hefur áður sést hér á landi.
Jafnvel þó sú rökleysa sem pakkasinnar halda fram, að tilskipunin muni ekki hafa áhrif fyrr en sæstrengur verði lagður, haldi, eru þau rök gagnslítil. Einfaldlega af þeirri ástæðu að strengur mun koma, einhvern tímann í framtíðinni. Framtíðin nær lengra en til morguns. Þá er leik lokið!!
Á árunum fyrir hrun tóku nokkrir einstaklingar sig til og rændu þjóðina. Það gerðu þeir á þann hátt sem auðveldastur er, með því að kaupa bankakerfið, sem einungis var hægt að gera vegna veru okkar í EES. Þeir landsmenn sem lifðu þann gjörning af eru margir hverjir enn í sárum og sjá ekki fyrir endann á þeim þjáningum. Þó efnahagskerfi okkar sé komið á réttan veg, er það ekki Alþingi að þakka, þvert á móti tókst að rétta úr kútnum vegna samstöðu þjóðarinnar gegn Alþingi. Þarna var um að ræða fjárhagslegt tjón fyrir þjóðina, þó vissulega einstaklingar hefðu misst þar æru sína og sumir lífið. Fjárhagslegt tjón má bæta.
Nú á að ræna þjóðina aftur, ekki af siðlausum einstaklingum, heldur sjálfu Alþingi. Nú skal ein þýðingarmesta auðlind hennar sett að veði. Þetta skal gert af sömu rót og stóra bankaránið, vegna veru okkar í EES. Þar er verið að fremja rán sem mun skaða þjóðina um alla framtíð. Engin leið verður að vinna þjóðina upp úr þeirri skelfingu og ljóst að við, börn okkar og barnabörn munum líða fyrir!
Slíkt rán, um hábjartan dag, verður ekki liðið!!
Þetta er bara mjög móðgandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Þvílíkur hroki í þessum manneskjum að þykjast þekkja betur til laga heldur en dómari og lögmaður. Þetta minnir mig á hvað hann sagði úr monty python,
John Cleese on How “Stupid People Have No Idea How Stupid They Are” (a.k.a. the Dunning-Kruger Effect)
Halldór (IP-tala skráð) 16.8.2019 kl. 22:16
Já Halldór,svo merkilegar af því þær Rósa Björk og Silja Dögg eru kjörnir fulltrúar; tek undir með Gunnari þær hafa útskrifað sig sjálfar af Alþingi með falleinkunn.
Helga Kristjánsdóttir, 18.8.2019 kl. 00:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.