Gæði verða aldrei mæld með magni
13.8.2019 | 21:06
Gæði verða aldrei mæld með magni og sama má segja um sveitarfélög, einhver tiltekinn fjöldi íbúa er ekki ávísun á betra eða sterkara sveitarfélag. Þar ráða svo fjölmargir aðrir þættir og fásinna að ætla að einn sé þar mikilvægari en annar. Svo er auðvitað stóra spurningin; af hverju 1000 íbúar? Af hverju ekki 500 eða 1500?
Við búum á Íslandi. Vegalengdir eru oft á tíðum langar og stundum er það erfitt landslag sem skilur milli byggðalaga. Erfiðir, jafnvel ófærir fjallvegir sem einangra eitt byggðalag frá öðrum. Fráleitt er að ætla að sameining sveitarfélaga yfir stór svæði, að ekki sé talað um svæði þar sem samgöngur liggja niðri um lengri eða skemmri tíma, sé til bóta. Hvorki fyrir íbúa þeirra svæða né samfélagið í heild sér.
Þá er auðvitað galið að ætla að gera slíkar sameiningar með valdboði. Það eru auðvitað íbúar hvers sveitarfélags sem best vita og mestu eiga að ráða um hvernig þeir vilja skipa þeim málum. Að ætla einhverjum blýantsnögurum í Reykjavík að ákveða slíkt er fásinna. Slíkar kommúnískar aðfarir hafa sannað sig ófærar og engu skila.
Skýrasta dæmið er kannski minnsta sveitarfélag landsins, Árneshreppur. Næsta sveitarfélag er Kaldrananeshreppur, sem reyndar er það fámennur að honum mun væntanlega verða ráðstafað og þá komum við að Strandabyggð. Það sveitarfélag nær frá suðurmörkum Bitrufjarðar og norður í Ísafjarðardjúp. Verði þessir tveir hreppar, Árneshreppur og Kaldrananeshreppur sameinaðir við Strandabyggð næst fram sveitarfélag sem telur um 665 íbúa, ekki nóg til að fylla kvótann.
Yfir sumartímann er svo sem ekkert stórmál fyrir íbúa Árneshrepps að sækja sér þjónustu á Hólmavík, einungis um 70 km að stærstum hluta á illa viðhöldnum malarvegi. Annað er um að ræða á veturna. Þá er ekkert vegasamband á frá þeim hrepp, einungis um flug frá Reykjavík að ræða. Því ætti Árneshreppur kannski frekar heima undir Reykjavík en Strandabyggð.
Hvað sem öllu líður er ljóst að með sameiningu Árneshrepps við annað sveitarfélag, hvort sem það er við það sem landfræðilega liggur næst eða hitt sem samgöngulega liggur næst, er ljóst að hreppsbúar munu verða fyrtir allri þjónustu. Ekkert annað sveitarfélag er tilbúið til að þjóna einhverju byggðalagi fjarri kjarna byggðarinnar. Hér tek ég einungis sem dæmi Árneshrepp, en fjölmörg önnur mætti telja. Þá má einnig finna fjölda jaðarbyggða sem þegar hafa gengist við sameiningu annarra sveitarfélaga þar sem þjónusta hefur skerst og líf íbúa gert erfiðara fyrir.
Ráðherra hefur gefið út að ætlunin sé að auka fjármagn til sveitarfélaga, sem kjósa sameiningu. Reyndar ekki komið fram hjá honum hvaðan það fé skal koma, en látum það liggja á milli hluta. Fjöldi smærri sveitarfélaga þarf ekki stórar upphæðir til að sinna sinni skyldu og hví þá ekki að efla fjárframlög til þeirra, hví er svo nauðsynlegt að sameina fyrst?
Öll sveitarfélög, stór sem smá, eru í samstarfi við nágranna sína á hinum ýmsu sviðum. Þar eru skólamál og málefni aldraðra gjarnan efst á blaði, enda þyngsti baggi flestra sveitarfélaga. Hvers vegna þau mál eru svo þung sveitarfélögum er svo önnur saga, sem gjarnan mætti ræða. Kannski er vanáætlun fjármagns frá ríki til þeirra mála þar stærsti orsakavaldurinn, ekki stærð sveitarfélaga.
Verði þessi ætlun ráðherra að staðreynd er ljóst að sveitir munu eyðast, að landið okkar verður fátækara.
Í lýðræðisþjóðfélagi, sem við viljum jú kenna okkur við, eru það íbúar sem eiga að ákveða hvort þeir vilji að sitt sveitarfélag sameinist öðru. Annað form eru einræðistilburðir sem allir hugsandi menn ættu að skammast sín fyrir.
Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði 1000 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.