Orkupakki 3, samantekt
13.4.2019 | 13:02
Aumt er yfirklórið hjá Birni Bjarnasyni í dagbókarfærslu dagsins í dag. Fyndnasta við þau skrif BB er að fyrir tveim dögum kallaði hann það fyrirbrigði að einhver hafði notast við "03" sem heiti orkupakkans. Í dag nýtir hann þetta sama "fyrirbrigði" í fyrirsögn eigin skrifa. Reyndar er allur málflutningur BB í pistli dagsins á sama grunni, forðast að ræða efni málsins en gerir mönnum upp orð og skrif. Reyndar má taka undir með BB um að frekar hefur hljóðnað um orkupakkann síðustu daga og vekur það vissulega upp spurningar hvort fjölmiðlar, einkum mbl.is, hafi kannski verið keyptir til þagnar. Líklegri skýring er þó að málið er nú í meðferð nefnda og því fátt fréttnæmt að ske á meðan. Varðandi fylgisaukningu við pakkann, sem BB telur vera, þá er hún eingöngu bundin við þá þingmenn Sjálfstæðisflokks sem framanaf sýndu smá kjark, en virðast nú hafa verið barðir til hlýðni.
En að samantektinni. Skrifin fyrir ofan komu eingöngu til vegna dagbókarfærslu BB og kemur því sem á eftir kemur ekkert við.
Það eru allir sammála um að orkupakkinn gefur okkur ekkert, einungis rifist um hversu slæmur hann muni verða.
Það eru allir sammála um að orkuverð til íslenskra neytenda mun hækka við samþykkt orkupakkans. Einungis deilt um hvort sú hækkun kemur nú strax eða ekki fyrr en Ísland tengist meginlandinu með rafstreng.
Það eru allir sammála um að rafstrengur mun koma verði orkupakkinn samþykktur. Einungis deilt um hvort fyrirvarar halda eða ekki, hvort byrjað verði á lagningu strengsins strax eða síðar.
Það eru allir sammála um að stjórnarskráin er að veði, verði orkupakkinn samþykktur í heild sér. Því setja stjórnvöld fyrirvara um frestun á framkvæmd meginmáls pakkans.
Þannig að; orkupakkinn er slæmur, orkupakkinn mun hækka orkuverð hér á landi, rafstrengur mun verða lagður yfir hafið og stjórnarskrá mun brotna. Kannski kemur þetta í beinu framhaldi af samþykkt orkupakkans, kannski mun fyrirvarar halda og þá verður allt þetta að veruleika þegar þeim er aflétt. Í öllu falli mun þetta allt skella á þjóðinni, okkur sem nú lifum eða börnum okkar og barnabörnum.
Eina leiðin til að forðast allt þetta er fengin með því að hafna tilskipun um orkupakka 3 frá ESB. Þannig getum við sjálf ráðið okkar orkumálum um alla framtíð.
Vissulega er þetta ekki góð lausn fyrir alla, einungis okkur Íslendinga, sem þjóð. Kauphallarhéðnar og braskarar, bæði íslenskir sem erlendir, munu tapa. Fyrir lönd ESB mun þetta litlu skipta, öðru en orðspori búrókratana í Brussel, starfsmenn kaupahéðna og braskara. Staðreyndin er að jafnvel þó allar lækjasprænur á Íslandi verði virkjaðar þá mun það ekki hafa nein afgerandi áhrif á orkuþörf þeirra landa, enda þegar búið að selja þeim þjóðum hreinleika orkunnar okkar, þökk sé orkupakka 2.
Hvernig á því stendur að þingmönnum VG og Framsóknar er svo fyrirmunað að sjá vitleysuna í þessu öllu er magnað. VG sem hefur talað fyrir náttúruvernd og skreytir nafn sitt til höfuð þess og Framsókn sem alla tíð hefur sagt sig fylgja svokallaðri samvinnuhugsjón og var um tíma helsta vígi landsbyggðarinnar. Það eru jú náttúruvernd og byggðir um landið sem í mestri hættu eru af orkupakka 3. Sjálfstæðisflokkur hefur ætið haft góða breidd, verið flokkur allra stétta. Því kemur ekki á óvart þó nokkrir þingmenn hans séu fylgjandi orkupakkanum og lengi framanaf voru þeir frekar í minnihluta. Nú hefur orðið breyting þar einnig og þeir sem þorðu að standa gegn pakkanum eru annað hvort farnir að tala fyrir honum eða sestir út í horn og þora ekki að tjá sig. Ekkert þarf að ræða um Samfylkingu og Viðreisn í þessu sambandi, þeir flokkar eru sjálfum sér trúir og þingmenn þeirra þurfa ekki að svíkja sína kjósendur. Í augum þess fólks er Ísland ónýtt land og óska þeir þess mest að það verði hjálenda ESB.
Fyrri umræðu vegna þingályktunartillögu utanríkisráðherra um tilskipun ESB um orkupakka 3 er lokið á Alþingi. Atkvæðagreiðslan fór hljótt og málið nú í meðferð nefndar. Þegar síðari umræðu lýkur verður aftur kosið. Það er loka afgreiðsla. Þá er mikilvægt að kosning fari fram með nafnakalli, þannig að þjóðin geti fengið að sjá svart á hvítu hverjir eru svikarar þjóðarinnar. Þeir svikarar munu ekki eiga afturkvæmt á þing!!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Tengdasonur Björns Bjarnasonar fjárfesti í olíuleitarverkefni með Kínverjum. Enginn gróði varð af þeirri Bjarmalandsför. Nú sér Björn gróðavon fyrir tengdasoninn í vatnsréttindum á Íslandi. Björn bjarnason er ekki marktækur.
Ragna Árnadóttir leggur áherslu á hagsmuni neytenda en sleppir því að útskýra hvernig fjárfesting í virkjunarréttindum upp á hundruð milljarða getur gengið upp án þess að hækka verð til neytenda!
Og svo þetta sem ég setti á síðuna hjá Páli Vilhjálms.
Andstæðingar viðauka 4 við EES samninginn, ættu nú að taka undir kröfuna um endurskoðun stjórnarskrárinnar áður en innlendir braskarar og erlent auðmagn hefur sölsað undir sig öll vatns og gufuréttindi, sem eru virkjanleg á Íslandi. Það ætti að vera aðalatriði andstöðunnar við innleiðingu allra orkutilskipana.
Setjum fyrirvarann í stjórnarskrána og þá geta svikulir alþingismenn og ráðherrar ekki svo auðveldlega framið þau landráð gegn tilverurétti Íslendinga sem hér búa í nútíð og framtíð, og felast í markaðsvæðingu orkubúskaparins.
Orkumálefni eru hluti af innviðum og sem slíkir best borgið undir forræði ríkisins. Vindum ofan af o1 og o2 um leið og við höfnum o3 og segjum okkur frá viðauka 4.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.4.2019 kl. 14:21
Svo ætti einhver sem hefur nógan tíma, að kafa ofan í einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja, nú HS Orku. Hvernig Illugi Gunnarsson sem þá sat í einkavæðingarnefnd afhenti vini sínum í Geysi Green Energy hlut ríkisisins í því fyrirtæki og opnaði þar með á það brask, sem síðar fylgdi.
Hlutur sem seldur var á 7-8 milljarða er nú falur fyrir 40-50 milljarða og lífeyrissjóðirnir ætla að kaupa! Í millitíðinni var fyrirtækinu skipt upp og Veituhlutinn seldur fyrir stóra fjárhæð. En á sama tíma var gerður leigusamningur til 65 ára um afnot af gufuafli undir landsvæði sem selt var til Reykjanesbæjar á smánarvirði eða 600-700 milljónir!
Vona að ég fari rétt með tölur, en því miður hef ég ekki tíma til að gera fulla úttekt á sögu HS Orku og hvernig hún tengist orkupökkum 1 og 2 og einkavæðingaráformum Sjálfstæðisflokksins með Illuga Gunnarsson og Bjarna Ben sem stóra gerendur. Núna hefur svo Bjarni Ben sett sinn prókúruhafa í sæti formanns stjórnar Landsvirkjunar. Það er gert til að tryggja að Engeyingar fái allar þær innherjaupplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja forskot við yfirtöku á Landsvirkjun í heild eða í bútum. Sá gerningur verður óumflýjanlegur eftir o4 eða o5.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 13.4.2019 kl. 14:37
Sæll Gunnar, þetta er góð og greinileg samantekt, sem leiðir hugann að því hvers eiga Íslendingar að gjalda.
Það er stundum talað um "okursamfélagið Ísland".
Þar er hæsti húsnæðiskostnaður í Evrópu, í gegnum æstu húsnæðisvexti á byggðu bóli. Húsaleigan sem Berlínarbúar mótmæla hvern laugardag er lág miðað við Reykjavík, sem býður u.þ.b. 100% hærra leiguverð en Berlín.
Eldsneytisverð er sennilega hvergi hærra ef Noregur er undanskilinn sem er yfirleitt á svipuðu róli jafnvel örlítið hærri svo undarlegt sem það nú er.
Fram kom fyrir skemmstu að matvælaverð er mun hærra á Íslandi en á öðrum norðurlöndum.
Skattar eru sennilega hæstir á Íslandi af norðurlöndunum og langhæstir ef 15,5% skylduframlag í lífeyrissjóði er talið með, í Noregi sem þykir hár í sköttum eru lífeyrisgreiðslur innifaldar í sköttum og koma því úr ríkissjóði.
Það eina sem er auðsýnilegum mun lægra á Íslandi en í löndunum sem við miðum okkur við er raforkan komin í hús, hún er t.d. meira en 50% lægri en í Danmörku.
Svo má auðvitað ekki gleyma laununum, en sennilega eru þau lægst hjá þorra fólks á Íslandi ef miðað er við norðurlöndin.
Hvers á ungt fólk á Íslandi að gjalda, sem nú þegar á í vandræðum með þak yfir höfuðið, eða á það kannski bara að flytja?
Magnús Sigurðsson, 14.4.2019 kl. 06:43
Sæll Jóhannes
Það er margt svart í gangi hér á landi. Reyndar er ég ekki viss um að Engeyjarættin sé í aðalhlutverki nú, þó vissulega hún muni þiggja einhverja mola sem fala af "veisluborðinu". Þar eru mun fjársterkari öfl að baki.
Og þetta er fjarri því búið. Útsendarar erlendra afla eru hér eins og gráir kettir að leita að orkuuppsprettum til kaups og landsvæðum undir vindmillur. Þessir aðilar eru ekki að fara að framleiða hér rafmagn á því verði sem við búum við í dag, þeir horfa fyrst og fremst til sölu á dýrari mörkuðum, nú eða þess að markaðurinn hér jafnist við verðin innan ESB.
Sú neytendavernd sem þingmenn Viðreisnar flagga er ekki vernd fyrir íslenska neytendur, heldur neytendur á meginlandinu, enda er hugur þessara þingmanna ætið fastur þar.
Gunnar Heiðarsson, 14.4.2019 kl. 07:44
Sæll Magnús
Þú spyrð hvort ungt fólk eigi að flýja land. Svarið er einfalt, verði orkupakki 3 samþykktur mun ekki einungis ungt fólk flýja, heldur þorri landsmanna.
Eins og þú bendir á þá er flest mun dýrara hér á landi miðað við erlendis. Að hluta til skapast það af fjarlægð en að stærstum hluta þó vegna fámennis. Smæð markaðarins hefur valdið því að hér á landi ákvarðast verð innfluttra vara af mjög þröngum hóp og verslun getur leift sér álagningu sem hvergi þekkist annars staðar. Bankarnir haga sér á sama hátt. Sumstaðar erlendis væri svona hegðun talin okurstarfsemi og menn settir bak við lás og slá sem hana stunda.
En við eigum næga orku og fáum hana á hagstæðu verði. Það er grundvöllur byggðar hér norður í Atlantshafi. Ef við missum yfirráð yfir henni, þá er úti um búsetu á Íslandi. Nái ESB valdi á orkumálum okkar mun Ísland verða að orkuframleiðanda, þar sem einungis þeir búa sem hafa vinnu af því að framleiða og koma orkunni úr landi. Aðrir leita til annarra landa.
Og arðurinn mun falla í hendur fjárglæframanna sem jafnvel aldrei hafa augum litið okkar fallega land!
Gunnar Heiðarsson, 14.4.2019 kl. 07:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.