Svei þeim öllum
17.3.2019 | 08:17
Hlutverk stjórnvalda er að jafna hagsveiflur. Í því felst að draga saman seglin í ríkisrekstri þegar hagkerfið hitnar og auka útlát þegar það kólnar. Þetta er eitt ef megin verkefnum stjórnvalda í hverju ríki til að jafna hagsveiflur og gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að lifa.
Hér á landi hefur þessu gjarnan verið öfugt farið og því oft á tíðum sem hagsveiflur hér hafa verið mun stærri og valdið meiri skaða en í löndunum kringum okkur. Einhæft hagkerfi mest alla síðustu öld var síðan enn frekari valdur þessa. En nú er hagkerfið sterkara, með fleiri grunnstoðum. Því ætti að vera auðveldara að halda því stöðugu. Frumforsenda þess er þó að stjórnvöld vinni sína vinnu. Minnkandi tekjum ríkissjóðs eiga stjórnvöld ekki að mæta með því að draga saman fé til framkvæmda eða til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, heldur með því að minnka eigið bákn. Ekki er að sjá að nokkur skortur sé á fjármagni þegar kemur að því að belgja út utanríkisþjónustuna eða þegar fjölga skal aðstoðarmönnum þingmanna, svo dæmi séu tekin.
Undanfarna áratugi hefur verið nokkuð gert af því að færa verkefni frá ríki yfir til sveitarfélaga. Oftast hafa sveitarfélög farið halloka í þeim skiptum, en ríkissjóður hagnast.
Eitt af slíkum verkefnum er þjónusta við aldraða. Undir hatti sveitarfélaga var að byggja og reka dvalarheimili fyrir aldraða og víðast hvar gekk þetta ágætlega. Mörg dvalarheimili voru mjög vel rekin og íbúar bjuggu áhyggjulaust við góða þjónustu, sín síðustu æviár. Ríkið sá um hjúkrun þess fólk sem ekki gat lengur bjargað sér og fór sú þjónusta fram á sjúkrahúsum vítt og breitt um landið. Þetta fyrirkomulag gekk vel og allir ánægðir og á sumum smærri sjúkrahúsum landsins var þetta nánast grundvöllur rekstrar þeirra.
Upp úr síðustu aldamótum, þegar græðgisvæðingin herjaði á landsmenn af mikilli hörku, datt einhverjum snilling í hug að þetta væri allt of dýrt fyrir ríkið, hefur sennilega komist í tölvu með exelforriti. Farið var í þá vinnu að semja við sveitarfélögin um að þau tækju yfir hjúkrun aldraðra. Þetta skyldi gert með því að sveitarfélög gætu fengið aukið fjármagn frá ríkinu fyrir hvert rými sem þau breyttu úr dvalarrými yfir í sjúkrarými, á þeim dvalarheimilum sem þau hefðu yfir að ráða. Á þetta stukku sveitarstjórnarmenn, sá meiri peninga en gleymdu þeirri staðreynd að rekstur sjúkrarýmis er mun dýrari en rekstur dvalarrýmis.
Afleiðing þessa varð sú að rekstur dvalarheimila gengur mjög illa og á sumum stöðum er reksturinn ósjálfbær. Jafnvel dvalarheimili sem rekin voru með sóma ná nú vart endum saman. Álag á starfsfólk hefur aukist fram úr hófi, enda var ekki reiknað með fjölgun þess við þessa breytingu. Enn er reynt að hlúa að sjúklingum eftir besta hætti, en jafnvel þar er farið að verða brestur á, á sumum heimilum. Greiðslur úr jöfnunarsjóð eru eini grundvöllur þess að ekki er búið að loka flestum dvalarheimilum landsins.
Á sumum sjúkrahúsum standa heilu hæðirnar auðar, öðrum hefur verið lokað. Hagnaður þeirra af breytingunni var minni en enginn. Rekstrargrundvöllur minni sjúkrahúsa á landsbyggðinni nánast hvarf með þessari breytingu og sífellt meiri þjónusta var lögð niður. Æ oftar þarf landsbyggðafólk að sækja lækninga á höfuðborgarsvæðið.
Fá eða engin úrræði eru lengur til fyrir þá sem vilja eyða efri árum áhyggjulaust á dvalarheimilum. Þangað inn fer enginn lengur nema hann liggi fyrir dauðanum. Aldraðir verða því að búa heima, oftar en ekki í allt of stóru og dýru húsnæði og bíða þess að heilsan sé orðin nægilega léleg, hellst rúmliggjandi, til að komast í áhyggjuleysið sem dvalarheimili aldraðra var ætlað að mæta.
Og nú þegar sumum þykir hagkerfið vera að kólna, eru stjórnarherrar svo uppþornaðir og skyni skroppnir að þeim dettur ekkert annað í hug en að skerða enn frekar kjör og aðstæður aldraðra. Hafa gert aldraða að einhverri jöfnu í exelforriti.
Svei þeim öllum!!
Kólnandi hagkerfi ástæða skerðingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gunnar, svo nöturlegt sem það nú er þá tek ég undir hvert einasta orð í þessum skelegga pistli.
Magnús Sigurðsson, 17.3.2019 kl. 10:32
Veruleiki aldraðra er í mörgum tilfellum nöturlegur, Magnús.
Það er skömm hvernig komið er fram við það.
Gunnar Heiðarsson, 17.3.2019 kl. 10:56
Takk fyrir þennan pistil Gunnar.
Tek heils hugar undir orð þín:
Svei þeim öllum.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 17.3.2019 kl. 13:02
Góður pistill og sorglega sannur.
Hér er athugasemd sem ég setti á frétt
um rannsóknar og þróunaraðstoð fyrir árið 2017..
Yfir milljarður á viku.
Á sama tíma eru sjúkrahúsin svellt, landhelgisgæslan, lögreglan,
vega og samgöngumál í rúst, ekkert hægt að styðja betur við
aldraða og öryrkja og ekkert svigrúm til að hækka lægstu laun.
Er þetta bara sjálfsagt...????
Nokkuð ljóst að fyrir árið 2018 er þetta ennþá meiri upphæð.
Engin furða að allt sé meira og minna í klessu á Íslandi þegar
forgangsröðunin er sú að aðrir koma fyrst og svo við.
Svei þeim öllum.
Sigurður Kristján Hjaltested, 18.3.2019 kl. 10:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.