Svar til Björns Bjarnasonar

 

Björn Bjarnason heldur úti vefsíðu sinni hér á bloggmiðli moggans. Sá ljóður er á vefsíðu hans að þar er ekki nein tök á að gera athugasemdir við skrif hans, né hæla þeim. Því er ekki um annað að ræða, þegar menn vilja gera athugasemdir, nú eða hæla skrifum Björns, en að nota sitt eigið blogg til verksins. Mér varð á að gera slíkt, þar sem ég bæði hældi Birni og setti fram mína skoðun á veru hans í starfshóp um skoðun á kostum og göllum EES samningsins. Þetta fór eitthvað fyrir brjóstið á Birni, þar sem hann taldi sér nauðugt að eyða pistli dagsins til að ráðast að mér, fyrir þá skoðun mína. Taldi greinilega ekki heppilegt að nýta athugasemdakerfi við blogg mitt til þessa verks.

Sæll Björn

Takk fyrir innlitið á blogg mitt. Betur hefði farið ef þú hefðir gefið þér örlítið meiri tíma til að lesa það, þá hefðir þú ekki þurft að eyða tíma og orku í skrif gegn mér, aumum almúgamanninum. Hvergi kemur fram í mínu bloggi neitt sem kallast mætti andúð til þín, þvert á móti hæli ég þér fyrir skemmtileg skrif á köflum, enda ertu vel ritfær maður. Ekki heldur krefst ég þess að þú sért bannfærður á netmiðlum, eða öðrum stöðum sem þú kýst að nota til að koma þínum skoðunum fram. Því ferð þú fram með staðlausa stafi á þinni vefsíðu, þegar þú heldur því fram að ég krefjist brottrekstra þíns í þágu net-ritskoðunar.

Blogg mitt var fyrst og fremst um hæfi eða vanhæfi. Því gagnrýndi ég setu þína í starfshóp um skoðun á EES samningnum. Í sjálfu sér er það ekki þér að kenna að ráðherra valdi þig í þann hóp, en það var alfarið á þínu valdi að samþykkja þá skipun eða hafna henni.

Eins og þú veist, þá var gerð og tilurð EES samningsins gagnrýnd harkalega á sínum tíma. Að þeirri gagnrýni stóðu bæði leikir og lærðir. Þrátt fyrir þá gagnrýni var kjósendum haldið frá ákvörðun um samþykkt þessa samnings og málið keyrt gegnum Alþingi með minnsta mögulega meirihluta. Ekki var sú málsmeðferð beinlínis til að sætta hópa, þvert á móti.

Nú eru liðin 25 ár frá því EES samningurinn tók gildi. Því ætti að vera komin nokkuð góð reynsla á hann og vissulega tímabært að skoða hvernig til hefur tekist. Hvað við höfum haft gott af þessum samning, hvað verra er og síðan það þýðingarmesta, sem mest var jú deilt um áður en samningurinn var samþykktur, hvort hann sé innan þess ramma sem stjórnarskráin okkar segir til um.

Því mátti vissulega fagna því að ráðherra skyldi stofna starfshóp um skoðun samningsins, til að "lyfta umræðunni um þessi mál þannig að hún verði málefnaleg og gagnleg" eins og segir í tilkynningu ráðherra.

Frumforsenda þess að slíkt megi takast er að til hópsins séu valdir einstaklingar sem ekki er hægt að vefengja á neinn hátt, fólk sem ekki hefur opinberar skoðanir á samningnum og alls ekki fólk sem hefur yfirlýstar skoðun á honum, á hvorn veginn sem er. Þarna féll ráðherra harkalega á prófinu og þeir sem hann tilnefndi einnig, fyrir að taka málið að sér. Niðurstaða hóps sem er skipaður fólki með fyrirfram ákveðnar skoðanir á samningnum munu aldrei getað orðið til þess að "lyfta umræðunni um þessi mál þannig að hún verði málefnaleg og gagnleg". Í grein þinni gegn mér staðfestir þú, svo ekki verður um villst, þinn hug til EES samningsins og staðfestir þar enn frekar vanhæfi þitt til að vinna þá vinnu að "lyfta umræðunni um þessi mál þannig að hún verði málefnaleg og gagnleg".

Þú nefnir einnig í þinni grein gegn már að þarna sé ekki um lögfræðilegt mál að ræða, heldur pólitískt viðfangsefni. Vissulega kemur lögfræði þessari skoðun við, enda hópurinn eingöngu skipaður lögfræðingum. Pólitískt viðfangsefni, hum, kannski það pólitíska viðfangsefni að gera þennan samning fegurri en hann er!

Viðfangsefni þessa starfshóps á að vera eitt og aðeins eitt, að skoða hvernig til hefur tekist með samninginn, hvort hann er okkur til hagsbóta eða ekki og hvort hann stenst íslensku stjórnarskránna. Einungis skoðun staðreynda og kemur í raun pólitík ekkert við!

Þá nefnir þú að menn ættu ekki að gagnrýna störf hópsins fyrr en niðurstaða liggur fyrir. Ég gagnrýni ekki störf hópsins, heldur val á fólki í skipun hans!

Megin málið er þó þetta. Ég hef aldrei krafist að þú, Björn Bjarnason, yrðir bannfærður á netmiðlum, hvorki í þágu net-ritskoðunar né nokkurs annars. Ég lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi þig ekki hæfan til þess verks að fara fyrir nefnd um skoðun á kostum og ókostum EES samningsins, vegna opinberrar skoðunar þinnar á þeim samningi. Það er mín skoðun og við hana stend ég. Hvergi í pistli mínum vega ég að þér sem persónu eða skrifa á þann hátt að skilja megi sem andúð. Ekki heldur segi ég að þú megir ekki hafa skoðun á málum og opinbera þær, heldur að vegna þess sértu vanhæfur til að stýra þessum hóp. Trúverðugleiki niðurstöðunnar mun ekki verða til staðar.

Læt þetta duga og óska þér og þínum alls hins besta

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Góður!

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 3.2.2019 kl. 22:56

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Oft hef ég lesið byrjanir á bloggi Björns Bjarnasonar og látið nægja,en að þessu sinni las ég þá síðustu alla. Viðbrögð mín voru NEI þetta er ekki Gunnar Heiðarsson,tilbúin að sverja að það kæmu mótmæli með skýringum frá þér.Best væri að geta leiðrétt rangfærslur á þeim stað sem þær birtast. En hér sannleikurinn allur,Mb.Kv. 

Helga Kristjánsdóttir, 4.2.2019 kl. 02:24

3 identicon

Vel mælt (ritað) Gunnar!

Með kveðju.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 4.2.2019 kl. 07:23

4 identicon

Í pistli Björns Bjarnasonar finnst mér bera mjög á vænisýki og einnig því að þar er beinlínis logið upp á Gunnar að hann krefjist net-ritskoðunar.  Slíkt eykur ekki beint tiltrú fólks á Birni, þegar hann bregst svo við vel grunduðum pistli Gunnars, Um hæfi, óhæfi, EES og fleira.

Ég hvet fólk til að lesa umræddan pistil Gunnars og síðan reiðipistil Björns, þar sem hann tvinnar saman algjörlega fáránlega þræði í niðurlagi pistilsins.  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 4.2.2019 kl. 10:38

5 identicon

Pistill Björns ber fyrirsögnina:

Krefst brottrekstrar í þágu net-ritskoðunar.

Finna má þann pistil á vefsíðu Björns undir 

færslum hans í febrúar 2019.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 4.2.2019 kl. 11:26

6 Smámynd: Benedikt V. Warén

Það er aldeilis viðkvæmnin í BB.  

Því miður sér maður ekki marga bloggverja, sem blogga á málefnari hátt en Gunnar Heiðarsson.  Því hlýtur, að mati BB, að vera talsverður broddur í skoðunum hans, sem ekki hugnast sanntrúuðum ESB sinnum.   

Það er hið sanna sjálfstæði landsins, að hafa undirtökin á auðæfum landsins til sjavar og sveita og ráða sínum viðskiptasamböndum. 

Magnað að BB skuli ekki vera á þeirri blaðsíðu, með tillit til stöðu hans í hinu pólitíska litrófi. Sagan geymir hins vegar margar sagnir um að þar sem prinsipp rekast á persónulega hagsmuni, víkur það fyrra. 

Flott hjá þér Gunnar!

Benedikt V. Warén, 4.2.2019 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband