Um hæfi, óhæfi, EES og fleira
3.2.2019 | 03:35
Sú undarlega staða kom upp á Alþingi Íslendinga fyrir rúmum mánuði síðan, að málefni sem barst forsætisnefnd var ekki hægt að afgreiða þar sem allir sjö forsetar Alþingis voru óhæfir til að taka á málinu. Þrátt fyrir þá óhæfni, ákvað forseti Alþingis, eða forsætisnefnd, að skipa nýja forseta þingsins. Ekki fundust þó fleiri en tveir, af þeim 63 sem þingið sitja, sem bæði töldust hæfir til að taka á málinu og voru tilkippilegir í þann leik. Vissulega er gleðilegt þegar kjörnir eða skipaðir fulltrúar víkja þegar hæfi þeirra þverr, ekki alltaf sem slíkt gerist hér á landi. Skugginn sem fellur þó á er sá að ekki verður annað séð en að Alþingi hafi með þessari gjörð brotið 3ju grein laga um þingsköp. Þar er skýrt kveðið á um forseta og sex varaforseta Alþingis. Ekki ætla ég að hafa þá sögu lengri núna, þó hægt væri að skrifa marga pistla um það mál.
Í lok ágúst á síðasta ári skipaði utanríkisráðherra starfshóp til að meta kosti og ókosti EES samningsins. Formaður þess hóps er Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður og ráðherra. Með honum sitja Kristrún Heimisdóttir, fyrrum varaþingmaður Samfylkingar og framkvæmdarstjóri SI og Bergþóra Halldórsdóttir, lögmaður SA. Allt ágætis fólk sem örugglega mun gera sitt best þó erfitt sé að sjá hlutleysi þess í málaflokknum.
Reyndar er formaður hópsins þegar búinn að gera störf starfshópsins marklaus, hver svo sem niðurstaðan verður. Hlutleysi veltur á ýmsu, en þó efast enginn að þar skiptir þó mestu máli hvernig menn tjá sig. Þetta vissu allir sjö forsetar Alþingis, er þeir viku frá máli sem á þeirra borð kom. Þetta virðist hins vegar ekki formaður starfshóps um mat á kostum og ókostum EES samningsins gera.
Björn Bjarnason heldur úti eigin bloggsíðu, þar sem hann tjáir hugleiðingar sínar um hin ýmsu mál, daglega. Oft er gaman að lesa pistla Björns, enda maðurinn ágætlega stílfær.
Síðastliðinn mánuð brá Björn ekki útaf þessari reglu sinni. Einn pistill á dag, rétt eins og klukka. Í þeim mánuði fjölluðu um þriðjungur pistla hans um EES, ESB eða önnur mál því nátengdu. Björn hefur í sjálfu sér aldrei dregið dul á hug sinn til EES. Annað kemur á daginn þegar að ESB kemur. Þá virðist hellst skipta máli hver tjáir sig, hvern hann er að gagnrýna eða sannmælast. Það er t.d. öruggt þegar einhver Samfylkingarmaður hælir ESB þá er Björn andstæðingur sambandsins. Ef annar sem er honum nær í pólitík mærir sambandið, gerir Björn slíkt hið sama. Þegar hann velur að tjá sig um það án þess að vera að svar öðrum, fer hins vegar ekki milli mála að ást hans til ESB er meiri en ætla mætti. Þetta sést vel í þeim mörgu pistlum sem hann hefur ritað um Brexit, en þar gagnrýnir hann Breta hart fyrir þá ósvinnu að hafa dottið til hugar að vilja yfirgefa sambandið og síst of mikið gert hjá fulltrúum ESB í því að hefna þess.
En starfshópur Björns á ekki að fjalla um ESB og honum því heimilt að ræða það opinberlega eins og honum sýnist. Það er EES samningurinn sem starfshópurinn á að skoða og meta. Þar skiptir engu máli hver tjáir sig eða hvernig, Björn tekur ætið upp hanska EES og er ósínkur við það. Skrif hans um orkupakkann hafa verið mörg og sum hver ákaflega undarleg. Fer þar fram með fullyrðingar sem ekki standast og er ósínkur á að rangnefna menn og gera lítið úr þeim. Gengur jafnvel svo langt að nefna einhvern virtasta sérfræðin Norðmanna í Evrópurétti sem lögfræðing á þröngu siði fiskveiða, einungis vegna þess að sá maður hefur verið talsmaður þeirra sem vilja segja upp aðild Noregs að EES samningnum. Kannski er það einmitt vegna þeirrar afstöðu sinnar sem sá lögfræðingur hefur sérhæft sig í Evrópurétti, til að vinna gegn öllum þeim sem eru á launum frá Brussel og þá um leið að vinna fyrir stórann meirihluta norsku þjóðarinnar.
Jafnvel í gær tókst Birni að koma hug sínum til EES að, í pistli sínum um einkavæðingu bankanna og gagnrýni á skrif Þórðar Snæs Júlíussonar um það mál. Þar vill Björn meina að engin hætta felist í einkavæðingu nú, enda sé regluumhverfið orðið allt annað í dag, þökk sé EES samningnum. Honum láist hins vegar að geta þess að hrun bankakerfisins náði þeim skala að koma landinu nánast á hausinn, að fjöldi fjölskyldna landsins endaði beinlínis á götunni, einmitt vegna EES samningsins og ákvæða hans um frjálst flæði fjármagns.
Einkavæðing bankanna hefði sjálfsagt getað orðið, þó enginn EES samningur hefði verið til staðar, en vegna þess samnings og ákvæðis um frjálst flæði fjármagns milli landa, gat sú einkavæðing skapað þá stöðu að bankakerfið óx langt umfram getu landsins til að standa undir því og því fór sem fór. Meðan við erum aðilar að EES samningnum getur slíkt gerst aftur, alveg sama hversu mikil lög og miklar reglur eru settar. Það verður þá bara enn meira spennandi að komast framhjá þeim. Því er í raun forsenda þess að allt bankakerfið verði einkavætt, að EES samningnum og þeirri tengingu sem hann gerir okkur við markaði sem við eru okkur ofurefli, verði segja upp.
Óhæfi Björns til mats á kostum og ókostum EES samningsins er algjört og ljóst að hann mun ekki segja sig frá þeirri vinnu. Gulli ætti því að kalla hópinn til sín, uppræta hann og stofna nýjan, með fólki þar sem ekki verður efast um hæfi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:41 | Facebook
Athugasemdir
Hárrétt athugun:
Björn Bjarnason er alls endis óhæfur til að leggja hlutlaust mat á kosti og ókosti EES samningsins.
Svo mjög hefur hann sýnt hlutdrægni sína, varðandi þriðja orkupakkann, að engum fær dulist hverra erinda hann gengur.
Annars er það athyglisvert að forysta flokksins og Gulli litli skipa svo fyrrum aðstoðarkonu Ingibjargar Sólrúnar, Samfylkingarkonuna og ESB sinnann Kristrúnu Heimisdóttur í þennan starfshóp.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.2.2019 kl. 13:37
Björn Bjarnason skrifar nú heilan bloggpistil við þennan pistil þinn Gunnar. Hann fer reyndar rangt með föðurnafn þitt og segir þig Harðarson.
Það er eftir Birni að fara rangt með það sem annað.
Annars er pistill Björns uppfullur af vænisýki og staðhæfir hann þar m.a. að í þessum pistli þínum Gunnar, krefjist þú þess að Birni sé gert að úthýsast af moggablogginu.
Hvergi sé ég þig setja fram þá kröfu í þessum ágæta pistli þínum. Vænisýki Björns stigmagnast nú með hverjum deginum sem líður.
Hann er maðurinn sem Guðlaugur Þór gerði að formanni nefndarinnar sem fær 25 milljónir til starfans.
Sem segir vitaskuld allt um dómgreindarbrest Guðlaugs, og ESB sinnaðrar forystu Sjálfstæðisflokksins.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.2.2019 kl. 15:01
Vil svo bæta þessu við:
Takk fyrir þennan afbragðsgóða pistil Gunnar Heiðarsson.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 3.2.2019 kl. 15:32
Takk fyrir innlitið og ábendinguna, Símon Pétur.
Gunnar Heiðarsson, 3.2.2019 kl. 16:28
Hafðu þökk fyrir þennan pistil Gunnar.
Og mér varð það á að lesa einnig pistil Björns og get ekki orða bundist og segi því hér, að fremur finnst mér ásakanir Björns í þinn garð vera furðulegar og í reynd fáránlegar. Talar þar um þig sem netlöggu (sic!) þegar þú aðeins viðrar þá skoðun að hlutleysi hans sé umdeilanlegt og því réttast að hann víki úr nefndinni.
Ósköp setur Björn niður með pistli sínum í dag.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 3.2.2019 kl. 16:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.