Dýralæknar

Dýralæknum er margt til lista lagt. Í fagi sýnu eru þeir flestir nokkuð góðir og sumir frábærir. Í öðrum störfum blómstra þeir gjarnan, sérstaklega ef um er að ræða einhver gamanmál, s.s. stjórnun þorrablóta eða réttarsöngs. Annað kemur á daginn þegar þeir ofmetnast og dettur sú fjarstæða í hug að taka þátt stjórnmálum.

Eitt sinn var dýralæknir gerður að fjármálaráðherra, landið fór á hausinn. Nokkru seinna varð annar dýralæknir landbúnaðarráðherra. Þarna var vissulega sterk tenging og mátti búast við góðu. Eitt helsta afrek hans var þó að gera samning við ESB um stór aukinn innflutning á landbúnaðarvörum. Nú er sá sami dýrlæknir orðinn samgönguráðherra og ekki beinlínis hægt að segja að hann sé að standa sig í því hlutverki.

Í kastljósi kvöldsins var viðtal við ráðherrann/dýralækninn um samgöngumál. Í stuttu máli kom lítið fram hjá honum um þau mál, nema að til stæði að skattleggja og skattleggja og skattl.....

Spurður um hvað svokölluð borgarlína væri, sem ríkið hefur nú ákveðið að taka þátt í, sagði ráðherrann að hún væri skipulagsmál. Annað fékkst ekki um þann málaflokk, nema auðvitað að leggja á skatt vegna hennar.

Um aðrar skattlagningar, þ.e. þær sem nefndar hafa verið rangnefninu veggjöld, var sama upp á teningnum, svörin fátækleg að öðru leyti en því að skatturinn yrði lagður á.

Svo til að kóróna alla vitleysuna þá vill ráðherrann/dýralæknirinn leggja á einhvern ótilgreindan skatt til að stjórna umferð, af því að þeir gera svoleiðis í Osló! Ja, mikill er máttur Dags.

Eitt lítið augnablik sperrti maður þó eyrun, þegar hann fór að tala um að skattur á eldsneyti yrði aflagður. Sú gleði stóð stutt, þar sem á eftir fylgdi að einhver annar skattur kæmi í staðinn. Hver eða hvernig vissi ráðherrann ekki, en slíkar skattabreytingar hafa ætið leitt til aukins skatts.

Ráðherrann/dýralæknirinn veit ekki hvað borgarlína er, en honum er vorkunn. Enginn veit hvað borgarlína er. Það sem verra er að enginn veit heldur hvað hún muni kosta. Þó er ráðherrann búinn að draga þar Dag að landi og lofa honum bæði fjármunum og heimild til skattlagninga. Fyrir áratug var ákveðið að leggja einn milljarð á ári úr vegafé til Reykjavíkurborgar, til að efla almenningssamgöngur. Árangurinn af þeim tíu milljörðum er akkúrat enginn. Enn ferðast sama hlutfall borgarbúa með almenningsvögnum, um 4%. Umferðateppur hafa hins vegar aukist verulega.

Álagning skatta vegna aksturs yfir ákveðnar línur á þjóðvegakerfinu er eitthvað sem ráðherrann ætti að geta útskýrt, hefur nú talað fyrir málinu í rúmt ár, eða frá áramótafagnaðinum 17/18,  eftir að hafa náð kosningu inn á Alþingi nokkrum vikum fyrr vegna loforða um að aldrei skildi slíkur skattur verða meðan hann stæði vaktina. Væri sjálfsagt búinn að halda margar og harðorðar ræður gegn slíkum skatt allt síðasta ár, ef hann hefði ekki dottið í lukkupottinn og fengið ráðherrastól!!

Það sem kom á óvart í viðtalinu í kastljósi var þó hversu lítið hann gat tjáð sig um þessa skattlagningu. Vissi hvorki hvar eða hvernig slík skattheimta yrði. Óljóst muldur um myndavélar kom hann með, en virtist þó alveg út á þekju. Kannski ætti ráðherrann að hringja til Stokkhólms til að vita hvað kostar að setja slíkar vélar upp, reka þær og síðan innheimta gjaldið. Reyndar búa þrisvar sinnum fleiri í Stokkhólmi en allir íbúar Íslands, en það er bara aukaatriði. Í stuttu máli stendur sú innheimta Stokkhólms undir sér, en ekki meir en svo. Lítill sem enginn afgangur er til annarra verka, enda sú skattlagning ekki ætluð til þess.

Að ætla að stjórna umferð með skattlagningu er fráleitt. Sjálfsagt að efla og bæta almenningssamgöngur, t.d. með aukinni tíðni ferða. Vel má einnig hugsa sér að fleiri sér akreinar, eins og er t.d. með Miklubraut, verðu gerðar. Það mætti allt eins kalla Borgarlínu, fyrir brot af þeirri upphæð sem draumóramenn nefna. Það kallar ekki á eitthvað innviðagjald eða hvað menn nefna þá skatta sem Dagur er búinn að véla ráðherrann til að samþykkja. Það er alvarlegt mál þegar stjórnvöld gefa fólki sem ekki hefur hundsvit á fjármálum, opið leyfi til skattlagningar!

Mikið er rætt um mengun og sjálfsagt að halda henni eins lítilli og kostur er, hvaða ástæðu sem velja til þess rökstuðnings. Einhver mesta sókn á því svið í Reykjavík er að auka flæði umferðar. Það er nefnilega flæðið sem mestu máli skiptir, ekki endilega fjöldi akreina. Við hverja töf sem bíll verður fyrir eykst mengun hans margfalt. Slíkar framkvæmdir þurfa oft ekki að vera mjög dýrar og leiða gjarnan af sér einföldun og betra flæði gangandi og hjólandi umferðar.

 

 

 


mbl.is Verklegar framkvæmdir hefjist 2021
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband