Um Sundabraut og fleira
5.1.2019 | 21:50
Mikið hefur verið rætt um svokallaða Sundabraut og þá helst til réttlætingar á enn frekari skattpíningu bíleigenda.
Það þarf enginn að efast um að umferð um Vesturlandsveg er tafsöm á köflum og stundum erfið. Það þarf vissulega að bæta. En það eru til fleiri leiðir en lagning nýs vegar til lausnar þess vanda, önnur en sú sem kostar meira en nokkur leið er að réttlæta, sérstaklega eftir að borgaryfirvöld ákváðu að hækka þann kostnað um tug miljarð króna, með því að útiloka hagkvæmasta kostinn yfir Grafarvoginn.
Þegar horft er til umferðaþunga skiptir fleira máli en fjöldi akreina. Flæði umferðar er þar stærsti valdurinn. Vegur sem er 2+1 eða 2+2 getur flutt mikla umferð á stuttum tíma ef engar tafir eru á honum. Síðustu ár var mikið rætt um tvöföldun Hvalfjarðargangna og sú framkvæmd talin vera bráð nauðsynleg. Þeir sem um göngin þurftu að fara áttu auðvelt með að skilja þessa fullyrðingu, enda oftar en ekki sem miklar biðraðir mynduðust við norður enda gangnanna, Nú síðustu mánuði hefur þessi umræða þagnað, enda þessar tafir ekki lengur til staðar. Ástæðan? Jú, hætt var að innheimta gjald gegnum göngin og því enginn flöskuháls við norðurendann lengur!
Þannig mætti laga Vesturlandsveg og minnka tafir eftir honum. Frá Esjumelum suður að Grafarholti, á innanvið 10 km kafla, þarf að aka gegnum 8 hringtorg, með tilheyrandi töfum á umferð. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt. Sum þessara hringtorga eru í þannig landslagi að auðvelt er að koma fyrir mislægum gatnamótum, önnur eru eitthvað verr í sveit sett, en þó alls ekki þannig að slíkt sé útilokað. Nýjasta hringtorgið er við gatnamót að Esjumelum, á stað þar sem tiltölulega auðvelt hefði verið að koma fyrir mislægum gatnamótum. Í ofanálag er þetta hringtorg einbreitt og tafir því meira um það en önnur á þessari leið.
Kostnaður við Sundabraut liggur ekki fyrir, en heyrst hafa tölur upp á um 100 milljarða króna. Þar sem einungis eru til gömul gögn um áætlaðan kostnað þessarar framkvæmdar, er nánast víst að kostnaðurinn er nokkuð hærri en þetta. Áætlanagerð hefur sjaldan verið neitt sérstaklega áreiðanlegar hjá okkur Íslendingum, auk þeirrar tilhneigingar stjórnmálamanna að draga þær meira saman en gott þykir, til að koma verki af stað.
Hitt er nokkuð þekktara, kostnaður við gerð mislægra gatnamóta. Ólíkt við Sundabraut, hefur verið nokkuð byggt af mislægum gatnamótum hér og því komin nokkur þekking á kostnaði þeirra. Að meðaltali kostar gerð slíkra gatnamóta innan við 1 milljarð króna.
Ljóst er því að gerð átta mislægra gatnamóta ættu ekki að kosta nema um 8 milljarða, verum örlát og hækkum það upp í 10 milljarða, eða sömu upphæð og áætlanir um Sundabraut hækkuðu á einum fundi borgarstjórnar, síðasta vor. Þá eru a.m.k. eftir 90 milljarðar sem nota má til breikkunar Vesturlandsvegar frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum á Kjalarnesi. Breikkun frá Móum að Hvalfjarðagöngum kostar alltaf jafn mikið, sama hvort valin er Sundabraut eða endurbætur núverandi vegar. Frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum eru um 7 km. Hver kostnaður er við að breikka þann kafla veit ég ekki, en ljóst er að vænn afgangur mun verða eftir af 90 milljörðunum!!
Stundum hafa menn látið freistast til að nefna Sundabraut í tengslum við annan vanda á Kjalarnesinu, vind og ófærð. Þar mun þó engin breyting verða á, sama hvaða leið verður valin. Eina lausnin gegn vindi og ófærð á Kjalarnesi er yfirbygging alls vegarins, lausn sem ekki er raunhæf á þessari öld. Hins vegar mætti minnka vind á veginum sjálfum, ef plantað væri þéttu skógarbelti norðan vegarins, a.m.k. 50 - 100 metra breiðu, eftir öllu Kjalarnesinu.
Hitt er borðleggjandi að laga má Vesturlandsveg á núverandi stað þannig að hann beri umferð næstu áratuga með glans, fyrir fjármuni sem duga ekki nema í hluta Sundabrautar. Þegar peningar eru af skornum skammti er útilokað að réttlæta slíkan fjáraustur sem Sundabraut kallar á. Að nota síðan óþarfan veg til réttlætingar á enn frekari skattheimtu, er siðlaust og þeim til skammar er slíkt gera!!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bílar og akstur, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.1.2019 kl. 01:13 | Facebook
Athugasemdir
Að horfa upp á skipulagða niðurrifsstarfssemi kjána, þegar kemur að almenningssamgöngum, er ekkert annað en grátlegt. Það má eflaust finna ýmsar leiðir til að létta á óumflýjanlegri og vaxandi umferð vélknúinna ökutækja.
Borgin er að stækka! Allt er að stækka og fólki að fjölga. Fólki sem komast þarf leiðar sinnar. Þetta skilur ekki kverúlantaliðið sem nú skipar meirihluta borgarstjórnarinnar. Þegar fáráðlingar, sem sjaldnast hafa stærri sjóndeildarhring en eigið rassgat ráða för, er trauðla von á vitrænum lausnum fyrir komandi kynslóðir.
Borgarstjórnarmeirihlutinn hugsar ekki í lausnum. Hann hugsar í tregðum og skammtímareddingum, rándýrum stráum, bröggum á okurverði og annari dellu, enda gjörsamlega galinn. Ef hægt er að koma í veg fyrir velferð og vitrænar lausnir á ferðamáta, er þetta fáfróða lið fyrst til að stökkva á vagn hafta og tregðutilskipana, með það eitt að markmiði að tefja fólk, með því að moka því í stræ-dó eða annað rugl. Allt vegna þess að það veit ekki betur, því það þekkir ekki annað. Að opna hug sinn og hlusta ávaðra, sem hafa ólík sjónarmið, virðist þessu veruleikbrjá laða liði algerlega um megn.
Fyrirgefðu langlokuna Gunnar góður.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 6.1.2019 kl. 02:48
Ég bjó lengi á Grundarfirði og átti oft erindi til Reykjavíkur og það var mikil náð að losna við Hvalfjörðinn, sem var dimmur og mikið hálkusvæði, en þá voru að fæðast spæleggin í Spæleggjabæ (Mosfellsbænum)og snilldin við þau er að umferð í gegn um bæinn er tafin með því að stefna allri umferðinni beint inn á mitt spæleggið þannig að það þarf alltaf við hvert spælegg að nánast stoppa og snúa um 90 gráður til hægri og fara bogann til vinstri og síðan aftur til hægri og auka hraðan að næsta spæleggi til að stoppa þar og endur taka þar spæleggja dansinn.
Þessi braut er vitlaust hönnuð frá a til ö og allir eru tafðir ekki bara þeir sem ætla útafbrautinni, og bensín eyðsla rúmlega tvöfaldast þarna á þessu svæði. En ég er ekki viss um að það þurfi átta mislæg gatnamót þarna, það þarf að endur skipuleggja þetta svæði, en aðalatriðið er að umferð í gegn þarna norður og suður sé hindrunar laus, sem og að byggðarlagið sé ekki hreinlega klippt í tvennt af þessari þjóðleið.
Hrólfur Þ Hraundal, 7.1.2019 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.