Boð og bönn skila sjaldnast árangri
1.11.2018 | 16:51
Boð og bönn hafa sjaldnast skilað árangri, hitt má vel skoða, þ.e. úrvinnslugjald. Reyndar er nú þegar greitt úrvinnslugjald á margar plastvörur, t.d. rúlluplast. Einhverra hluta vegna skilar það gjald sér ekki til þeirra sem ættu að njóta og sá hvati til betri hirðu plastsins því ekki til staðar.
Innkaupapokar hafa um langt skeið verið seldir í verslunum, svo tillaga starfshópsins þar um fer nokkuð yfir markið. Reyndar er ekki að sjá minni notkun vegna þess, enda spurning hvað ætti að koma í staðinn. Nefnt hefur verið bréfpoka, sérstakir maíspokar og svo auðvitað margnotapokar.
Ég var alinn upp við að eyðing skóga væri að leggja jörðina í eyði, væri mannsins stærsta böl. Því má afskrifa bréfpokana strax.
Maíspokar eru gerðir úr maís, eins og gefur að skilja. Með hratt fjölgandi mannkyni og frekari þörf á matvælum til að fóðra það, væri auðvitað út úr kortinu að taka enn frekara landbúnaðarsvæði úr matvælaframleiðslu. Nú þegar eru allt of stór slík svæði farin úr matvælaframleiðslu og notuð til að framleiða svokallað lífeldsneyti, svo fáránlegt sem það nú er.
Fjölnotapokar eru vissulega í boði, en það er með þá eins og hitt, að framleiðsla þeirra skerðir á einhvern hátt annað og nauðsynlegra. Í raun er eina efnið sem nýta má silki, en það er jú framleitt úr vefum köngulóa og ekki nýtt til annars. Aðrar vefnaðarvörur eru ýmist framleiddar úr ull, ýmiskonar gróðurvörum eða plasti, sem á jú að banna. Þar að auki er nánast útilokað að muna eftir þeim pokum, þegar farið er í búð.
Flestar aðrar vöru sem framleiddar eru úr plasti eru sama merki brenndar. Eitthvað annað þarf að koma í staðinn og þetta "annað" skerðir í flestum tilfellum eitthvað enn þýðingameira.
Plast er vissulega skaðvaldur, þegar ekki er rétt með það farið. Þó finnst varla vistvænni vara.
Plast er framleitt úr úrgangi olíuhreinsistöðva, úrgangi sem annars þarf að eyða á einhvern hátt. Þá er plastið einhver besta framleiðsluvara til endurvinnslu, sem enn þekkist.
Það er gleðilegt að sjá að þessi "samráðsvettvangur" gleymir ekki þeim þætti og vonandi að hann fái eitthvern hljómgrunn ráðamanna. Þar er virkilega hægt að gera betur og kostnaðurinn þarf ekki að vera mikill. Hvatarnir til hirðu alls plasts geta verið margskonar. Áður hefur verið nefnt úrvinnslugjald og það virkar ágætlega þegar þeir njóta sem plastið nota. Aðstöðu til að losna við flokkað plast þarf að sjálfsögðu að byggja upp, en hún er nær engin í dag. Gera þeim sem vilja nýsköpun á endurvinnslu plasts hægara fyrir og að sjálfsögðu að leita upplýsinga erlendis frá um hvernig megi endurnýta plast, enda margar þjóðir langt komnar á því sviði. Mikilvægast er þó að breyta hugarfari fólks til plasts, að notað plast séu verðmæti en ekki rusl.
En plast er ekki bara plast. Til eru fjölmargar gerðir af plasti og flækir það nokkuð endurvinnslu þess. Sumt plast er auðvelt að endurvinna, meðan annað er erfiðara. Ekki þarf lengi að leita á veraldarvefnum til að sjá grósku í endurvinnslu plasts erlendis. Þar eru Indverjar sennilega lengst komnir. Þar má sjá að flokkað plast eftir tegundum er endurunnið til ýmissa nota, meðan óflokkað plast er tætt niður og blandað saman við malbik. Lagðir hafa verið vegir með slíku plastblönduðu malbiki í nokkur ár á Indlandi og niðurstaðan hreint út sagt frábær. Ending malbiksins eykst margfalt, eitthvað sem okkur vantar svo sárlega hér á landi.
Bretar eru einnig nokkuð vel á veg komnir í endurvinnslu á plasti. Þeir hafa farið þá leið að leita til þeirra sem lengra eru komnir og eru nú t.d. byrjaðir að prufa blöndun á plasti við malbik, í samstarfi við Indverja. Hér á landi hefur heyrst að einhverjir fræðingar séu að fara í þróunarvinnu á þessu sviði. Þekkja þeir ekki síma?!
Hvað sem öllu líður þá eru boð og bönn sjaldnast til árangurs. Með núverandi ráðherra umhverfismála má þó búast við að mest verði lögð áhersla á þann þátt, þó nefndin bendi einnig á aðrar betri leiðir.
Skylduð í samræmda flokkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 16:57 | Facebook
Athugasemdir
Auðvitað skila boð og bönn árangri. Á þeim byggir þjóðfélagið. Það er bannað að drepa fólk, það er bannað að aka undir áhrifum áfengis eða aka of hratt, Það er bannað að stela osfrv osfrv.
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2018 kl. 22:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.