Það kemur að skuldadögum
19.5.2018 | 22:01
Það þarf ekki stórspeking til að átta sig á að launahækkun bæjarstjórans í Kópavogi er utan allrar skynsemi og ber ekki með sér mikinn skilning á ástandinu í landinu. Það er þó algert skilningsleysi og stjórnmálaleg blinda, þegar forsætisráðherra hneykslast á ofurlaunahækkun bæjarstjórans.
Bæjarstjórinn fékk launahækkun upp á 32,7%, skömmu eftir að ráðherraembættin og þingmenn fengu nærri 40% hækkun. Það þótti ekkert of hátt,að mati þingmanna og ráðherra og jafnvel þó einhverjir þingmenn hafi haft á því orð að þetta væri kannski í ríflegri kantinum, hefur ekki einn einasti þingmaður afþakkað þá kauphækkun!
Þarna liggur vandinn. Áður þurftu sveitarstjórnarmenn ekkert að ákveða um sín laun, þeir fengu sjálfkrafa svipaðar prósentuhækkanir og þingliðið, enda sömu menn sem sáu um ákvörðunina. Eftir að sveitarstjórnarmönnum var úthýst frá kjararáði þurftu þeir sjálfir að ákveða sínar launahækkanir. Og í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að þeir hefðu áfram til viðmiðunnar þann hóp sem áður leiddi þeirra hækkanir.
En vandinn er auðvitað mun stærri. Á þann vanda var bent, strax eftir þá ókristilegu hækkun sem þingmönnum og ráðherrum var færð. Síðan eru liðin nokkur misseri og sífellt verið að hamra á þessum vanda. Undir kraumar og ekkert gert af ráðamönnum til að tappa af þeirri reiði sem sífellt bólgnar, eins og eldfjall sem að lokum springur með óskaplegum afleiðingum.
Hér á landi virðir launafólk kjarasamninga, ólíkt því sem víðast erlendis þekkist. Því hefur vígvöllurinn ekki enn verið formlega opnaður, beðið eftir að kjarasamningar losni. Á meðan eykst gremjan. Erlendis hefði aðgerð líkt og úrskurður kjararáðs um kjör þingmann og ráðherra, þótt slíkt frávik frá raunveruleikanum að til verkfalla hefði verið boðað nær samstundis!
Það er auðvitað frábært að forsætisráðherra sjái að 32% launahækkun gengur alls ekki. Þá hlýtur manneskjan að átta sig á að 40% launahækkun er enn verri.
Eða eru hvatir ráðherrans kannski af öðrum toga? Getur verið að henni sárni að bæjarstjóri sé á hærri launum en ráherra? Eða fer kannski fyrir brjóstið á henni að 32% launahækkun bæjarstjórans voru fleiri krónur en 40% launahækkun ráðherrans? Það væri aldeilis frábært, þá væru þeir forkólfar verkalíðhreyfingarinnar, sem hafa kjark, fengið öflugan samherja.
Það er nefnilega svo 30% launahækkun bæjarstjórans og 40% hækkun ráðherrans, samsvara heildarlaunum nokkurra verkamanna. Það kemur að skuldadögum, eftir næstu áramót. Hafi stjórnvöld ekki áttað sig á grunnvandanum á þeirri stundu og bætt úr samkvæmt því, munu verða hér á landi þvílíkar hamfarir að öflugustu eldfjöll okkar munu blikna í samanburðinum!!
Segir laun Ármanns óhófleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Stjórnmál og samfélag, Sveitarstjórnarkosningar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.