Vextir?
27.4.2018 | 21:48
Hægt er að líta sem svo að þessir 4 milljarðar, sem ríkisstjórnin samþykkti sem "aukafjárveitingu" til vegamála, sé einungis lítill hluti af þeim vöxtum sem ríkissjóður skuldar til málaflokksins.
Bílaeign landsmanna skilar ríkissjóði hátt í 100 milljarða tekjum á ári hverju. Stór hluti þess fjár er skattekja sem beinlínis er eyrnamerkt vegakerfi landsins. Aldrei hefur þó það fé allt skilað sér til málaflokksins, hefur verið nýtt til annarra þátta í rekstri ríkissjóðs. Yfir allan þjófabálk tók þó í kjölfar hrunsins, þegar fjármagn til viðhalds og endurbóta vegakerfisins var skert svo hressilega að vegakerfið beið stór skaða af. Enn hefur ekki náðst að koma fjárframlögum til vegamála á sama grunn og fyrir hrun, jafnvel þó ríkissjóður standi nú enn betur en nokkurn tíma áður. Enda er sá hluti vegakerfisins sem enn tórir, að hruni kominn. Ekki finnst sá vegspotti í vegakerfi landsins sem hægt er að segja að sé í lagi!! Um 70% vegakerfisins nær einungis einni til tveim stjörnum af fimm, samkvæmt úttekt EuroRAP og enginn vegspotti nær fimm stjörnum!!
4 milljarðar nú til viðbótar við þá 8 milljarða sem eru á fjárlögum, til viðhalds og endurbóta vegakerfisins, er lítið brot af þeim 100 milljörðum sem ríkissjóður aflar af bíleigendum. Það er því stór skattur sem þeir þurfa að greiða til reksturs ríkisbáknsins, umfram aðra skattgreiðendur, eða hátt í 90 milljarðar króna. Það gerir að meðaltali aukaskatt upp á vel yfir 400.000 kr. á hvern bíl í landinu, ár hvert, auk alls kostnaðar við viðhald og endurbætur vegakerfisins.
Það má nefna fleira, sem rökstyður þá kenningu að þessir 4 milljarðar séu einungis vextir af láni ríkisins frá bíleigendum. Hvalfjarðargöng voru byggð fyrir réttum tuttugu árum síðan. Allan kostnað af þeirri framkvæmd hafa þeir greitt sem um göngin hafa ekið og vel það. Auk auðvitað að greiða ríkinu fullan skatt af þeim sama akstri.
Við tilkomu Hvalfjarðargangna var öll uppbygging og endurbætur vegarins fyrir fjörðinn stöðvuð og viðhald þess vegar skert fram úr hófi. Við þetta sparaði ríkissjóður slíka upphæð, sem ökumenn um göngin greiddu, að næsta víst má telja að 4 milljarðarnir séu rétt vextir þeirrar upphæðar!
Það er ljóst að ríkissjóður hefur tekið einhliða lán hjá bíleigendum þessa lands, án þess þeir hafi getað rönd við reyst og er enn að stunda þessa iðju. Á þessu ári mun fara til málaflokksins 12 milljarðar, eins og áður sagði. Þetta er einungis brot þess fjár sem eyrnamerkt er til viðhalds og endurbóta vegakerfisins, af þeim sköttum sem bíleigendum er gert að greiða.
Eðli málsins samkvæmt, bitna skattar á bíleigendur fyrst og fremst á landsbyggðafólki. Það býr ekki við sama lúxus og höfuðborgarbúar, að hafa kost á að sleppa einfaldlega bílaeign. Þar koma til fjarlægðir við öll aðföng, sækja sér vinnu og ekki síst við að sækja sér þjónustu. Mörg er sú þjónusta sem landsbyggðafólk þarf að sækja, er einungis veitt á höfuðborgarsvæðinu. Þá valda óhóflegir skattar á rekstur bílaflotans því að öll vara verður dýrari á landsbyggðinni og samkeppni fyrirtækja verður erfiðari við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er því landsbyggðaskattur.
Að ráðherra skuli hæla sér að því að honum hafi tekist að kría út 4 milljarða úr ríkissjóð, af þeim hundruðum milljarða sem ríkissjóður hefur stolið frá málaflokknum gegnum tíðina, tugum milljarða á þessu ári, er lítilmannlegt!!
Fjórir milljarðar í brýnar vegaframkvæmdir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Bílar og akstur, Samgöngur, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.