Landsbyggðaskattur

Ekki trúi ég að nokkur þingmaður eða frambjóðandi þori að taka undir þessar tillögur starfshópsins, svo skömmu fyrir kosningar. Nema auðvitað Jón Gunnarsson, samgönguráðherra. Hann getur ekki svarið þessar tillögur af sér, svo mjög sem hann hefur talað fyrir þeim.

Þarna er auðvitað verið að leggja til aukinn skatt, sem í sjálfu sér er í algjörri andstöðu við stefnu flokks samgönguráðherra. Það sem meira er, þá eru auknar skattaálögur einnig í andstöðu við stefnu samtaka atvinnulífsins. Eða á það eingöngu við um skattlagningu á fyrirtæki? Að allt í lagi sé að skattleggja þá sem af nauðsyn þurfa að eiga og reka einkabíl, meðan fyrirtæki landsins geti grætt á slíkri skattheimtu?

Árið 2016 voru heildartekjur ríkisins af bílaflota landsmanna um 70 milljarðar króna (70.000.000.000.kr.). Á þessu ári un þessi upphæð verða enn hærri, aukinn innflutningur bíla, aukinn akstur landsmanna og stór aukinn fjöldi ferðafólks sem komast þarf um landið, sér til þess. Ekki kæmi á óvart þó tekjur ríkissjóðs næðu allt að 100 milljörðum króna á þessu ári, af þessum stofni einum.

Enn meiri hækkun tekna ríkissjóðs er sjáanleg á næsta ári. Fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar verður auðvitað ekki samþykkt. Samkvæmt því átti að stór hækka álögur á eldsneyti, auk þess afnema undanþágur bílaleiga á innflutningsgjöldum. Þetta mun gefa ríkissjóð einhverja milljarða í kassann. Að auki er ljóst að krónan mun veikjast og innflutningsverð eldsneytis því hækka. Það mun einnig fita ríkissjóð á aurum bíleigenda.

Auðvitað er ljóst að fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp hægri stjórnarinnar, með öllum sínum skattahækkunum, mun ekki ná fram að ganga, en ljóst er að ef vinstri flokkar ná völdum munu þessar skattahækkanir verða enn meiri. Viðbrögð þeirra á Alþingi, þegar frumvarpið var lagt fram, sannar það.

Starfshópurinn telur að það þurfi 56 milljarða króna á næstu átta árum, til að koma vegakerfinu í þokkalegt stand. Það gerir þá nálægt 7 milljörðum á ári, að jafnaði. Það er þá væntanlega viðbót við þá 18 milljarða sem ætlaðir eru í málaflokkinn á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Að samtals þurfi sem svarar 25 milljarða á ári til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins.

Liggur nærri að það samsvari 1/4 þess sem ríkið innheimtir í dag af bílaflota landsmanna. Hinir 3/4 hlutar þess fjár fer þá væntanlega í annan rekstur ríkissjóðs, eða nálægt 75 milljörðum króna. Þennan skatt bera þeir einir sem þurfa að eiga og reka einkabíl. Undan þeim skatti getur fólk auðvitað komið sér, með því að sleppa því að eiga bíl. Það er mögulegt fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðafólk hefur ekki val. Því er þetta hreinn landsbyggðaskattur, skattur sem að stærstum hluta er nýttur til greiðslu hinna ýmis rekstrar ríkissjóðs, að mestu innan marka höfuðborgarsvæðisins. 

Bíleigendur borga í dag sannanlega fyrir allt viðhald og endurnýjun vegakerfisins, c.a. fjórfallt! Og nú skal enn sótt í vasa þeirra. Þá 56 milljarða sem starfshópurinn telur þurfa, vill hann rukka af bíleigendum á næstu 20 árum. Það gerir 2,8 milljarðar á ári, sem sóttur verður beint í vasa bíleigenda, ofaná alla aðra skatta sem þeir þegar borga!  

Það er vissulega sjónarmið hvernig staðið skuli að fjármögnun á viðhaldi og endurnýjum vegakerfisins. Mismunandi er eftir þjóðum hvernig að slíku er staðið og vegtollar orðið ofaná hjá sumum ríkjum. Önnur nota skattkerfið til þessarar fjármögnunar.

Við Íslendingar völdum að hafa þessa fjármögnun inn í eldsneytisverði. Vandinn er bara að misvitrir stjórnmálamenn hafa gegnum tíðina sælst æ meir í það fjármagn, þannig í dag fer hluti þess skatts á eldsneyti, sem ætlaður var til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins, inn í ríkishítina. Ástæða þess að eldsneytisgjald var valið umfram vegskatts, var auðvitað stórt og strjálbýlt land. Hætt er við að vegakerfið okkar væri ansi fátæklegt, ef vegskattur hefði átt að greiða hvern vegspotta, sér í lagi í dreifðustu byggðum landsins. Eldsneytisgjaldið var talið vænna út frá byggðasjónarmiðum og væri það vissulega, ef stjórnmálamenn stunduðu ekki massíf lögbrot með því að nota hluta þess fjár í annað!!

Forsenda fyrir vegsköttum er auðvitað að fólk hafi val, geti ekið aðra og kannski lakari vegi en þá sem skattur er innheimtur af. Önnur forsenda er að önnur skattheimta, í sama tilgangi, sé þá afnumin. En frumforsenda er að vegskattur sé ekki innheimtur fyrr en hægt er að aka um viðkomandi vegkafla. Hvergi í víðri veröld er innheimtur vegtollur af "væntanlegum" vegi, enda sennilega hvergi í víðri veröld sem hægt er að treysta stjórnmálamönnum fyrir slíkri fyrirfram skattheimtu!!

Eins og áður segir, eru tekjur ríkissjóðs af bíleigendum, hér á landi, gífurlegar. Hluti þeirrar skattheimtu er svokallað eldsneytisgjald og hann ætlaður til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins. Einungis hluti þess gjalds fer til þeirra nota, þar sem stjórnmálamenn hafa ráðstafað hluta eldsneytisgjaldsins til annarra nota. Væri allt eldsneytisgjaldið nýtt í þeim tilgangi sem til stóð, væri vegakerfi okkar ekki að hruni komið!

Engin ástæða er til að ætla að vegskattur verði eitthvað betur varinn fyrir misvitrum stjórnmálamönnum. Þeir munu ásælast hann, rétt eins og eldsneytisgjaldið!!


mbl.is Gjald verði lagt á helstu stofnvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bensíngjald, bifreiðagjöld og einhverjir fleiri nefskattar eru í lögum eyrnarmerktir vegagerð. Hvernig væri að menn færu að nota þessa aura í það sem þeim var ætlað í upphafi?

Þetta má segja reyndar um flest gjöld og nefskatta. Aðeins brot af þessum tekjum fara í það sem í upphafi átti að réttlæta gjaldtökuna með.

Það að ætla að fara að drita niður vegbómum um allar trissur til að kroppa einhverjar krónur út úr vegfarendum er svo fullkomlega galið að maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.

Er það að undra þótt stjórnmálastéttin njóti ekki meira trausts en hún gerir.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.9.2017 kl. 10:09

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Rétt að nefna líka kílometragjald, sem rukkað er af stærri bílum. Það er líka eyrnarmerkt vegagerð. Það væri gaman ef einhver tæki saman alla þá liði gjaldtöku sem þegar eru réttlætt með viðhaldi og byggingu vegakerfisins. Það hlýtur að slaga vel á annað hundrað milljarða.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.9.2017 kl. 10:13

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Bíðið bara þangað til sjálfstæðisflokkurinn fer að tala um að einkavæða samgöngukerfið. Nú þegar eru uppi áform um einkavæðingu Hornafjarðarflugvallar. Næst kemur svo Keflavíkurvöllur. Síðan koma stofnleiðir utan þéttbýlis. Og þá byrjar ballið með gjaldhliðum til að fjármagna kaupin á þessum innviðum. En fyrst láta menn hlutina drabbast niður eins og heilbrigðiskerfið síðan verður það notað sem rök gegn því að ríkið sé að vasast í vegagerð.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.9.2017 kl. 10:36

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Jón Steinar.

Í dag er ríkið að taka til sín rétt tæp 60% af verði hvers lítra eldsneytis (120kr/l af bensíni). Sjálft eldsneytisgjaldið er í fastri krónutölu, ásamt kolefnisgjaldinu. Önnur gjöld eru reiknuð í prósentum.

Frá síðustu áramótum er eldsneytisgjaldið, sem eyrnamerkt er viðhaldi og endurnýjun vegakerfisins, 67,90 kr/l. Árið 2016 voru flutt inn 282.000 tonn af eldsneyti fyrir bílaflotan. Ekki er vitað hvert það magn verður fyrir þetta ár, en ljóst að það mun verða mun meira. Ef við notum magntölu frá síðasta ári og gjaldið nú á þessu ári, eru tekjur ríkisjóðs af þessum eina lið yfir 19 milljarðar, meir en einum milljarði meiri en ætlað er til viðhaldi og endurnýjun vegakerfisins.

Við það bætist síðan kílómetragjald á þunga bíla. Erfiðara er að finna upplýsingar um hverjar tekjur ríkisins eru að þeim skattstofn, en ljóst að þær eru verulegar þar sem nánast allar vörur eru fluttar landleiðina milli héraða og hins gífurlega aukins flota rútubíla sem flytja ferðafólk um landið þvers og kruss.

Gunnar Heiðarsson, 29.9.2017 kl. 10:53

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er kannski lausnin Jóhannes. Þó ég hafi aldrei verið talsmaður þess að einkavæða innviði samfélagsins, er ljóst að ríkið getur varla innheimt skatta til uppbyggingar þess sem það byggir ekki upp

Gunnar Heiðarsson, 29.9.2017 kl. 10:58

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Rétt að benda Jóhannesi á að flugvellir og flugþjonusta er þegar einkavædd að stærstum hluta. Isavia er ohf og klasafyrirtæki fyrirtækja í flugþjonustu. Þeirra helsta afrek er annars að loka flugvöllum um allt land til að auka arðinn.

Líka rétt að minnast þess að þessi gjaldtaka tengd vega og samgöngukerfa landsins er ekkert nýtt. Þetta hefur verið svona fra því ég man eftir mér, en nú er verið að leita að fleiri matarholum í ríkishítina. 

Líka rétt að nefna að vegagerðin er líka að hluta einkavædd að því er ég best veit, sem ohf. Í slíkri einkavæðingu eru arðsemissjónarmiðin þyngra vegin en þjónustan. Arðsemiskrafa hlutafa er ýmynduð prósenta sem dregin er upp úr töfrahatti. Þessi krafa vegur þyngra en þjónustan sjálf.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.9.2017 kl. 11:33

7 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Jón Steinar, í færslunni þinni kristallast ágreiningur sem stafar ekki af mismunandi skoðunum á efnisumræðunni heldur mismunandi skilningi á hugtökum. Í mínum huga er bara alls ekki hægt að líta á opinber hlutafélög, sem eign þeirra sem stjórna þeim eins og þú vilt gera.

Byrjum á að koma okkur saman um skilgreiningar og þá hverfur sjálfkrafa mestur ágreiningurinn.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.9.2017 kl. 13:26

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Allt í lagi Jóhannes, látum þetta liggja milli hluta. Ég tel þó ólíklegt að eigendur eða fulltrúar eigenda sitji í stjórnum þessara fyrirtækja.

Ég ætla að við séum sammála um andstöðu við eikavæðingu í grunnstoðum samfélagsins.

Þar er einkavæðin aldrei nein einkavæðing nema að nafninu til. Ríkið borgar áfram brúsann en eigendur hirða hagnaðinn. Fyrir hvert sjúkrarúm og sjúkling í einkavæddum hluta heilbrigðisþjónustu greiðir Ríkið með hvarju rúmi og leggur til megnið af rekstrarfé í sumum tilfellum. Þetta á lika við um þau fyrirtæki sem við höfum nefnt og fleiri. Einkavæðing á þessum sviðum er bara svindl, svínarí og oftar en ekki frændhygli.

Í tilfelli OHf, þá er það bara glassúr til að fólk sætti sig við gerninginn. Víst að síðar endi þetta allt í einkaeign, þótt ríkið borgi áfram reksturinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.9.2017 kl. 18:05

9 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Rekstrarformin opinbert hlutafélag og sjálfseignatstofnun, ætti að banna, en það er nú ekki það sem um er rætt í þessum pistli.

 Ástæða ömurlegs ástands þjóðvega landsins er aðeins ein.: Duglausir stjórnmálamenn í áratugi. Allra flokka kvikyndi sem sökum hrepparígs og valdabrölts, hafa aldrei getað séð stóru myndina, eða horft til framtíðar, fyrir lnd og þjóð. Skammsýnir eiginhagsmunaseggir, sem hugsa aðeins fjögur ár fram í tímann, þegar best lætur. Hefði öllum þeim gjöldum, sem dregin hafa verið af bíleigendum, síðustu áratugi, verið varið til þeirra mála sem þau voru eyrnamerkt, ættum við sennilega hið ágætasta vegakerfi í dag. Að ætla að rukka okkur aftur fyrir eitthvað, sem aldrei var framkvæmt, er gersamlega galið. Ef samgönguráðherra vill ekki verða að svipuðu athlægi og núverandi fjármálaráðherra, þegar eyða átti tíu þúsund kallinum, ætti hann sem snarast að henda þessu rugli út í hafsauga. 

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.9.2017 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband