Veisla ríkisstjórnarinnar súr

"Sjáið ekki veisluna?" Þannig tala ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Þeir sem ekki "sjá veisluna" eru eitthvað undarlegir, að þeirra mati. Veislumatur ríkisstjórnarinnar er súr og farið að slá í hann!

Þeir sem minnst hafa, aldraðir og öryrkjar, eiga að gleðjast yfir því sem kemur einhvertímann í framtíðinni. Þó vænn afgangur sé af fjárlögum, að mati fjármálaráðherra, verður þetta fólk að bíða enn um sinn. Á meðan telja ráðherrar og þingmenn enn þá peninga sem bættust í veski þeirra, daginn eftir síðustu kosningar og munu sennilega verða uppteknir við þá talningu um eitthver misseri enn. A.m.k. er ekki að sjá að nokkur þeirri hafi tíma til að sinna vinnu sinni!

Fjárlagafrumvarpið er með þeim hætti að jafnvel hörðustu Marxistar myndu sennilega skammast sín. Skattahækkanir sem aldrei fyrr og að venju er ráðist fyrst og fremst á þá sem verr standa í þjóðfélaginu. Hækkun eldsneytisgjalds, sú stærst hingað til, lendir fyrst og fremst á landsbyggðinni. Peningana á þó ekki að nýta þar né til samgangna yfirleitt. Til þeirra framkvæmda skal annar skattur lagður á, svokölluð veggjöld. Ekki bæta þessir skattar vanda bænda!

Skattleggja skal ferðaþjónustuna enn frekar með hækkun virðisaukaskatts á gistingu og afnámi afsláttar bílaleigna. Þessar skattálögur á ferðaþjónustuna nú, þegar farið er að falla undan henni, getur orðið hennar banabiti. Þar breytir engu hvort menn telji rétt eða rangt að hækka þessa skatta, áhrifin eru augljós.

Fjárlagafrumvarpið ber merki þess að fyrir því stendur maður sem annað hvort þekkir ekki þau mál sem honum er treyst fyrir eða hann lýgur að þjóðinni. Nú síðast í kvöld, í eldhúsdagsumræðum, gat þessi maður ekki setið á sér að ljúga. Að vísu ekki stór lygi, en lygi samt. Hann sagði m.a. að hér á landi væru sveitarfélög með allt niður í tíu íbúa. Það sveitarfélag sem fæsta íbúa telur, Árneshreppur á Ströndum, hefur 46 íbúa, hafa fækkað um 4 á síðasta áratug.  

Ráðherra landbúnaðarmála leggur ofuráherslu á að fækka sauðfé í landinu um 20%, þó nú sé vitað að engin offramleiðsla er til staðar, að minni birgðir voru til af kjöti nú í haust en fyrir ári síðan og heildarbirgðir svo litlar að í slæmu árferði yrði kjötskortur.

Það er von að forsætisráðherra óttist annað hrun hér á landi. Með þetta fólk sér við hlið mun sannarlega verða annað hrun og það fyrr en síðar. Með fjármálaráðherra sem lýgur að þjóðinni, sem kemur fram með tært vinstra skattafjárlagafrumvarp og talar niður þjóðarmyntina, með atvinnumálaráðherra sem ræðst með afli gegn þeim atvinnuvegum sem henni ber að standa vörð um, er einsætt að það mun verða hrun.

Forsætisráðherra er verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Það er í hans valdi að hafa hemil á þessu ofstopafólki sem hann valdi með sér í ríkisstjórn. Hann ber ábyrgðina.

Þó matur veislunnar sé gómsætur fyrir ráðherra og þingmenn, þeirra vinum og menntaelítuna, er hann súr fyrir þjóðina, einkum þá sem verr standa í þjóðfélaginu og landsbyggðina!!

 


mbl.is „Ætlum að sækja fram“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband